c

Pistlar:

24. október 2020 kl. 12:45

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Íslenskur lyfjaiðnaður að rísa á ný

Í gegnum tíðina hefur verið einstaklega öflug lyfjaframleiðsla hér á Íslandi. Fyrirtækin Pharmaco, Delta, Omega Farma, Lyfjaverslun Íslands og fleiri framleiðslu- og þekkingarfyrirtæki byggðu upp mjög öfluga lyfjaframleiðslu sem endaði að mestu leyti sem grunnur undir stórfyrirtækið Actavis sem var selt í risasölu fyrir nokkrum árum en saga þess var ævintýraleg eins og rakið var hér. Þessi starfsemi hefur verið undirstaða mikils þekkingariðnaðar hér á landi og mörg önnur fyrirtæki starfað á grunni þess, allt með íslenska þekkingu í farteskinu. Þegar mest lét störfuðu um 850 manns hjá Actavis-samstæðunni á Íslandi, þar af um 70 hjá Medis (sem borgaði hæstu laun á Íslandi) og um 300 í verksmiðjunni. Höfuðstöðvar Actavis voru færðar til Sviss vorið 2011 og fylgdu margir íslenskir stjórnendur fyrirtækinu út. Á tímabili virtist því ætla að verða brestur í þessum framleiðsluiðnaði en sem betur fer hafa mál þróast á betri veg og nú eru horfur á að við Íslendingar séum aftur að fá öflug lyfjaframleiðslufélög sem geti boðið upp á áhugaverð störf hér á landi á ný.

Það er sérlega ánægjulegt að sjá uppgang tveggja nýrra framleiðslufyrirtækja, Alvotech og Coripharma. Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins, sagði frá því í vikunni að íslenska líftæknifyrirtækið Alvotech hefði gengið frá fjármögnun upp á samtals 65 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 9 milljarða króna, en um er að ræða stóra fjárfesta úr lyfjageiranum í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu sem munu leggja félaginu til aukið hlutafé, samkvæmt heimildum Markaðarins.robert

Reynsla og sambönd Róberti Wessman

Eins og hefur komið fram er Alvotech stýrt af Róberti Wessman stofnanda félagsins, en hann átti stóran þátt í uppbyggingu Actavis á sínum tíma og hefur gríðarlega reynslu og öflug sambönd á hinum alþjóðlega markaði. Í raun er ótrúlegt hve auðvelt hann á með að fjármagna verkefni sín sem sýnir vel stöðu hans í hinum alþjóðlega lyfjaheimi. Alvotec hefur á undanförnum mánuðum unnið að útgáfu á nýju hlutafé að fjárhæð 100 milljónir dala en félagið væntir þess að ljúka útboðinu í næsta mánuði. Á meðal fjárfesta sem skoða nú að fjárfesta í fyrirtækinu eru íslenskir lífeyrissjóðir. Fulltrúar sjóðanna hafa á undanförnum vikum átt fjárfestafundi með stjórnendum og innlendum ráðgjöfum Alvotech en verði af fjárfestingu þeirra yrði það í fyrsta sinn sem íslenskir stofnanafjárfestar koma inn í eigendahóp félagsins. Markaðurinn upplýsti að samkvæmt fjárfestakynningu er fjármögnun Alvotech ætlað að styðja við rekstur þess fram að skráningu í Hong Kong á næsta ári sem eru óvenjuleg áform fyrir fyrirtæki staðsett á Íslandi.

Einnig upplýsti Markaðurinn að Alvotech áformi að ráðast í stækkun á húsnæði sínu sem var tekið í notkun 2016, þannig að það verði samtals 24 þúsund fermetrar að stærð. Í dag er fyrirtækið í áberandi húsnæði hátæknisetri sínu í Vatnsmýrinni sem er um 13 þúsund fermetrar. Gert er ráð fyrir að ráðast í fjárfestingu upp á 4,6 milljarða króna.Coripharma_working_pharma_2a

Coripharma í Hafnarfirði

Þá er lyfjafyrirtækið Coripharma á sama tíma að ganga frá milljarða fjármögnun sem ætlað er að renna stoðum undir þróun á samheitalyfjum hér á landi. Ef ætlanir Coripharma ganga eftir og Markaðurinn greinir frá mun það velta um 75 milljónum evra, jafnvirði 12,3 milljarða króna, árið 2025 og skapa 260 störf í lyfjaiðnaðinum. Í dag vinna um 100 starfsmenn hjá félaginu. Þetta er sérlega ánægjuleg þar sem svo virtist um tíma að tæki og byggingar félagsins í Hafnarfirði yrðu auð og ónotuð.

Bæði Alvotech og Coripharma eru nú að leita til íslenskra fjárfesta. Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri Coripharma, segir í samtali við Markaðinn að viðræður séu í gangi við núverandi hluthafa, innlenda fjárfesta og einnig fagfjárfestasjóði sem lífeyrissjóðir koma að. „Við teljum okkur enn eiga inni hjá íslenskum fjárfestum og það má segja að Coripharma haki í mörg box sem eru í umræðunni í dag. Þetta er félag í þróunar- og tæknigeiranum sem stefnir að því að tvöfalda starfsmannafjöldann á næstu fimm árum. Við erum að byggja upp þekkingu og endurvekja lyfjaframleiðslu í landinu.“

Þetta er einstaklega ánægjuleg þróun og spennandi áform. Það hefði verið synd ef sú mikla þekking sem hér er á lyfjaiðnaði hefði ónýst. Í þessari upptalningu hefur ekki verið fjallað um Íslenska erfðagreiningu en það hefur margoft sýnt sig hve mikilvægt er að hafa slíkt þekkingarfyrirtæki í landinu. Því fleiri því betra.