c

Pistlar:

26. október 2020 kl. 18:48

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sveitarfélögin: Sjálfbær rekstur?

Hér fyrir stuttu voru fjármál sveitarfélaganna gerð að umtalsefni í kjölfar þess að Akureyringar höfðu sett á fót þjóðstjórn og fjárhagstölur úr Reykjavík gáfu til kynna að reksturinn væri ekki sjálfbær. Ljóst er að faraldurinn leikur fjárhag sveitarfélag grátt en það má líka velta fyrir sér hvort fjármögnun, uppbyggingu og samskiptum við ríkisvaldið sé rétt háttað. Í nýrri skýrslu Viðskiptaráðs Íslands er farið skilmerkilega yfir þessa sögu og bent á hvar skóinn kreppir. Óháð því ástandi sem nú ríkir þarf að skoða fjárhag, rekstur og lögbundin verkefni sveitarfélaga til framtíðar. Það er ákveðin mótsögn í því að Alþingi geti stöðugt fært þeim fleiri verkefni án þess að rýnt sé í kostnaðinn sem þeim fylgir. Mætti jafnvel kalla, stjórnsýslulegan ómöguleika!

Síðustu áratugi hefur leynt og ljóst verið stefnt að fækkun sveitarfélaga í þeim tilgangi að stækka rekstrareiningar og skapa skilyrði til hagræðingar. Frá árinu 1950 hefur sveitarfélögum fækkað úr 229 í 69 en sameiningar sveitarfélaga hafa heilt á litið orðið í rykkjum fyrir tilstilli sérstakra átaka stjórnvalda eins og bent er á í skýrslu Viðskiptaráðs. Lítið hefur verið um sameiningar frá árinu 2006, en þá hafði sveitarfélögum fækkað úr 124 í 79 frá árinu 1998. „Undanfarin fjórtán ár hefur sveitarfélögum aðeins fækkað um tíu þó enn séu augljós tækifæri til hagræðingar í þessum efnum,“ segir í skýrslunni.göng

Umsnúningur til verri vegar

Í árshlutauppgjöri stærstu sveitarfélaganna fyrir fyrri hluta árs 2020 kom fram að í fjórum af fimm stærstu sveitarfélögum landsins hefði orðið mikill umsnúningur í rekstri, til verri vegar. Í meginatriðum var útlit fyrir að heildartekjur yrðu 1,6% lægri en á sama tíma í fyrra, um 3,9% á föstu verðlag segir í skýrslu Viðskiptaráðs. Þá kom fram að útgjöld ykjust um 4,6% á sama tíma. Ljóst er að sveitarfélögin munu í miklum mæli þurfa að treysta á stuðning frá ríkinu á næstunni og jafnvel þótt slíkur stuðningur verði fyrir hendi, er útlit fyrir að þau muni áfram eyða um efni fram. Þessi staðreynd er lýsandi fyrir það að sveitarfélög eru illa aflögufær án utanaðkomandi aðstoðar.

Útgjöld sveitarfélaga voru 391 milljarðar króna árið 2019 eða 13,2% af landsframleiðslu og tæplega þriðjungur heildarútgjalda hins opinbera. Umsvif sveitarstjórnarstigsins eru því talsverð, en undanfarna áratugi hafa menn trúað því að afmörkuðum hluta þjónustu hins opinbera sé betur borgið í höndum sveitarfélaganna. Það sé betra fyrir borgaranna að hafa yfirsýn og skilning á því hvernig fjármunum er varið í sínu nærumhverfi. Oft er mögulegt að veita ódýrari, skilvirkari og betri þjónustu fyrir tilstilli styttri boðleiða, en nauðsynlegt er að sveitarfélögin sem þjónustueiningar séu burðug og geti
veitt þá þjónustu sem ætlast er til.

Vafsamt hlutverk Jöfnunarsjóðs

Viðskiptaráð telur sig sjá vísbendingar þess að Ísland sé eftirbátur annarra Norðurlanda hvað varðar umfang sveitarstjórnarstigsins. Þá telur Viðskiptaráð að sveitarfélög á Íslandi séu sum hver rekin með ósjálfbærum hætti og rekstur þeirra sumpart fjármagnaður með skattfé ríkisins og annarra sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Í fjárlögum 2020 námu framlög ríkisins í sjóðinn rúmum 21 milljarðar króna en samkvæmt ársskýrslu Jöfnunarsjóðs 2018 voru framlög ríkissjóðs 41% af heildartekjum hans.

Viðskiptaráð telur að framlög úr sjóðnum séu til þess fallin að tefja fyrir hagræðingu á sveitarstjórnarstiginu og draga úr hvötum fyrir sveitarfélög til að leita leiða til að nýta skattfé sem best. Af þessu má ráða að brýnt er að miða stuðning við sveitarfélög nú við að þau stundi hagræðingu um leið og almannavaldið þarf að sýna meiri skynsemi þegar verkefnum er deilt til þeirra.

Nýlega var greint frá því að ríkisstuðningur til sveitarfélaga á næsta ári mun nema 4,8 milljörðum króna í heildina samkvæmt viljayfirlýsingu vegna versnandi stöðu í kjölfar áhrifa kórónuveirufaraldursins. Samhliða var gert samkomulag um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaganna sem felur í sér að stöðva hækkun skulda hins opinbera fyrir árslok 2025. Varla var búið að undirrita pappírana þegar einstaka talsmenn sveitarfélaga fóru að biðja um meiri stuðning. Það má hafa skilning á því, faraldurinn er að breyta öllum lögmálum hér sem annars staðar.