Nú þegar flest bendir til þess að forsetatíð Donalds Trumps sé að ljúka þá er freistandi að reyna að meta hin varanlegu áhrif af valdatíð hans. Undanfarin fjögur ár hafa einkennst af meiri pólitískum óróa og ofstopa en við höfum séð áður í bandarísku þjóðlífi. Kosning Trumps var gríðarlegt áfall fyrir stjórnmálastéttina í Bandaríkjunum og upplausn ríkti nánast meðal andstæðinga hans lengst af. Samskipti hans við fjölmiðla voru slæm frá byrjun, hann gaf þeim engan séns og þeir ekki honum. Frá upphafi kosningabaráttu sinnar sagði Trump stuðningsmönnum sínum að fjölmiðlarnir myndu ekki segja rétt frá um leið og hann bendi fingri sínum að þeim. Stuðningsmenn hans í salnum deildu þessum skoðunum og Trump sneiddi kerfisbundið framhjá hliðvarðahlutverk fjölmiðla með því að tala beint til kjósenda með skilaboðum sínum á Twitter. Ný tegund af samskiptum við kjósendur varð til, þetta gekk vel framan af en gæti um leið skýrt fall hans að lokum, sérstaklega þegar samfélagsmiðlarnir voru farnir að loka á skilaboð hans og stuðningsmanna hans til kjósenda.
Ef meta á Trump-áhrifin á þessari stundu er vel hugsanleg að þau muni skaða demókrata meira en repúblikana til lengri tíma litið. Joseph R. Biden er ekki sterkur leiðtogi, fremur lægsti samnefnarinn sem komst loksins í gegnum prófkjörsbaráttuna af því að engin betri fannst. Verður hann sá mannasættir sem menn vonast eftir og lætur elli kerling hann í friði? Hann er elsti maðurinn til að verða kosinn forseti eins og vikið var að hér fyrir stuttu þar sem ferill hans var rakinn. Hugsanlega skapar það honum einhverja stöðu að líklega er hann ekki að hugsa um endurkjör en þekkt er í Bandaríkjunum að fyrra tímabil forsetans stýrist af því að hann stefnir fyrst og fremst á endurkjör sem takmarkar getu hans til að láta til sín taka. Þá getur Biden talið sér til tekna að engin forseti hefur fengið fleiri atkvæði en það helgast af því að kjörsókn hefur aldrei verið meiri. En eitt dæmið um Trump-áhrifin? Innan Demókrataflokksins er hins vegar vaxandi klofningur og sósíalistar telja sig nú eiga helmingi fleiri fylgismenn en áður í þingflokki hans. Óvíst er að það hjálpi flokknum til framtíðar en sumir stjórnmálaskýrendur tala eins og þessi sósíalistasella hjálpi demókrötum að ná til jaðarhópa og öfgaliðs á vinstri armi stjórnmálanna. Barack Obama hefur einmitt varað flokksmenn sína við því að fara of langt til vinstri eins og bent var á hér í pistli.
Utangarðsmaðurinn
Ef litið er til baka yfir forsetatíð Trumps sést að persóna hans tók smám saman yfir allt og stýrði umræðunni. Hann var utangarðsmaður í stjórnmálum, ruddist inn á sviðið framhjá hefðbundnum leiðum flokkskerfisins. Margir í hans eigin flokki áttu erfitt með að sætt sig við tilvist hans og Trump virtist semja stefnu flokksins að eigin hentugleika, hentistefna par ecellance! Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor útskýrði afstöðuna til Trumps ágætlega á Bylgjunni í gær. Þar sagði Hannes að afstaðan til Trumps mótaðist af því að hann væri það, sem marga langar að vera, en geta ekki, og hann segði það, sem marga langar að segja, en þora ekki. Hannes telur Trump hins vegar ekki hægri mann, heldur lýðsinna, populista. Auðvitað er það rétt og munum að í eina tíð gerði tækifærismennska hans hann að demókrata. Hannes taldi hins vegar að Trump hefði staðið sig betur sem forseti en hann hefði búist við. Orð hans væru verri en gerðir hans. Vissulega einfalda einstök ummæli hans og orðafar ekki málin og sumir andstæðinga hans virðast telja hann geðveikan, siðblindan eða jafnvel eitthvað enn verra. Margir geta ekki rætt Trump án þess að byrja að öskra! Þessu kynnist menn í umræðum á samfélagsmiðlum, dagsfarsprútt fólk hættir að vera dagfarsprútt þegar Trump ber á góma og sá bergmálshellir hefur bara verið að stækka, meðal annars af því að fjölmiðlar takmarka umræðu um Trump við framkomu hans frekar en störf. Sem dæmi um það má nefna að nánast engin umræða hefur verið hér á landi um að Trump hefur síðan í byrjun október verið að reyna að koma risavöxnum pakka um efnahagsstuðning í gegnum þingið en demókratar hafa blokkerað málið og ætluðu augljóslega ekki að láta hann nóta þeirra elda. Hér fylgir mynd af skilaboðum þekkts skemmtikrafts, Kathy Griffin, í Bandaríkjunum til Trumps.
Ofmat eigin sannfæringakraft
En þrátt fyrir eina uppákomuna eftir aðra benti flest til þess að Trump yrði endurkosinn þegar kórónaveirufaraldurinn tók yfir þjóðlífið í febrúar síðastliðnum. Þó að Bandaríkin séu í sjálfu sér ekkert verr leikin en Evrópa hefur faraldurinn reynst honum erfiður, meðal annars vegna þess að hann ofmat eigin sannfæringakraft og leyfði baráttuna um veiruna að snúast of mikið um eigin persónu. Þannig varð hégómleikinn honum að falli. Að lokum trúði hann að bólusetningarlyf yrði komið í tíma sem myndi létta honum endurkjörsbaráttuna. Smám saman varð ljóst að það voru óraunhæfar væntingar. Það bíður nú næsta forseta að sitja og bíða eftir bólusetningarlyfi sem mun leysa bandarískt þjóðlíf úr viðjum veirunnar.
En áður en veiran kom upp blasti við að bandarískur efnahagur var á réttri leið eins og bent var á hér í pistli. Trump kom til valda meðal annars með tilstyrk litla mannsins, einyrkjans, iðnaðarmanna og verkamanna. Fólksins sem Washington-valdið hafði gleymt og kristallaðist í atvinnupólitíkus eins og Hillary Clinton. Hann samsamaði sig þessu fólki, talaði um okkur og þá og hamraði á innri sameiningatáknum sem enn eru mörgum Bandaríkjamönnum mikilvæg, svo sem fáninn og trú á því að ef landsmenn fái að nýta tækifærin sem landið hefur uppá að bjóða þá muni það gefa til baka. Obama hafði ferðast um kolahéruðin, eða ryðbeltin eins og margir kalla þau, og lýst því yfir að þetta væri búið. Hann skyldi í raun ekki eftir neina von hjá þessu fólki sem leit á hann sem framlengingu af glyslífi fjölmiðla- og listamanna á New York og Kaliforníusvæðinu. Að sumu leyti hefur líf Obama-hjónanna eftir að þau fóru úr Hvíta húsinu sannað þessa skoðun eins og var bent á hér í pistli fyrir stuttu. Þau eru ofurpar, svona eins og Beckham-hjónin. Auðvitað er undarlegt að Trump virki utangarðs í þessum hópi, eins ákaft og hann reyndi að verða hluti af honum
Trump áhrifin eru líklega fyrst og fremst á sviði stjórnmála þar sem hann hefur valdið ótrúlegu raski eins og vikið var að stuttlega hér að framan. Á sviði efnahagsmála eiga menn enn eftir að sjá hver áhrifin verða og verður nánar farið yfir það í næsta pistli.