c

Pistlar:

9. nóvember 2020 kl. 18:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Trump-áhrifin, efnahagsmálin

Bandaríkjamenn vissu að Donald Trump er vondur strákur en kusu hann samt árið 2016. Þrátt fyrir hegðun hans greiddu þeir honum enn fleiri atkvæði núna en hann fékk meira fylgi í nýafstöðnum kosningum en nokkur forsetaframbjóðandi í sögunni, að Joe Biden undanskildum! Því er það svo, að það eina sem kom í veg fyrir endurkjör hans var gríðarleg vinna demókrata við að koma fólki á kjörskrá og ákall þeirra til allra um að kjósa. Án þessarar vinnu hefði Trump líklega farið með sigur af hólmi. Það ætti kannski að veikja einhverja til umhugsunar nú þegar við höldum áfram að gera upp við stjórnartíð Trumps og áhrif hans. Að þessu sinni horfum við á efnahagsmálin.Make America Great Again

Lykilslagorð Trumps var, gerum Bandaríkin mikil á ný (Make America Great Again). Hvorki frumlegt né nýtt slagorð og um margt heldur óljóst, svona sagnfræðilega séð, en Trump endurnýtti það svo sannarlega. Ronald Reagan hafði notað "Let's Make America Great Again" í kosningabaráttu sinni 1980 og Bill Clinton sló á svipaða strengi 1992. En óhætt er að segja að slagorðið hafi verið lykilsetning í því hvernig Trump nálgaðist hina efnahagslegu stöðu Bandaríkjanna í kosningabaráttunni fyrir fjórum árum. Bæði hann og kjósendur vissu að Bandaríkin voru ekki það efnahagslega stórveldi sem þau höfðu alltaf verið. Ekki endilega vegna þess að dollarinn (The mighty dollar) væri ekki enn heimsgjaldmiðillinn heldur vegna þess að framleiðsluiðnaðurinn á heimavelli var ekki eins og hann átti að sér að vera. Það vissu flestir Bandaríkjamenn og þó best þeir sem störfuðu í ryðbeltunum svokölluðu, gömlu kola- og stálhéruðum Bandaríkjanna, sem einu sinni báru með sér kraftbirtingu bandarísks efnahags. Niðurlæging borga eina og Detroit, fjölmennustu borgar Michigan ríkis, var alþekkt en þar voru heilu borgarhlutarnir fallnir í órækt og ferðalag um borgina minnti á atriði úr heimildarmynd um Chernobyl. Staðan í Chicago, öðru demókratavígi, hefur einnig verið gerð að umræðuefni hérna.

Ryðgað stolt

Bandaríski bílaiðnaðurinn hefur alltaf verið stolt Bandaríkjanna en hann hafði þurft ríkisstuðning eftir bankahrunið 2008 og átti verulega undir högg að sækja eftir það. Það var svo sem ekkert nýtt, útflutningshlið hans hafði átt í erfiðleikum eftir að eldsneyti tók að hækka á áttunda og núunda áratug síðustu aldar. Smám saman tóku asískir framleiðendur yfir helstu erlendu markaðssvæðin og ógnuðu stöðunni heima fyrir. Segja má að uppgangur Tesla-fyrirtækisins síðustu misseri sé helsti vísirinn að því að Bandaríkin væru að koma til baka og það gerðist á vakt Trumps. Það væri þó mikil einföldun að eigna honum afrek Elon Musk sem hefur verið gerð nokkuð rækileg skil í pistlum hér.

En þegar Trump sagði að hann vildi gera Bandaríkin mikil á ný vísaði hann einnig í innviði Bandaríkjanna. Hann benti á að í Kína væru allir flugvellir, brýr og innviðamannvirki ný. Í Bandaríkjunum væri hins vegar hnignunin alþekkt og margir tóku undir þetta. Margir í Bandaríkjunum skyldu því vel MAGA-slagorð Trumps sem náði vel til þeirra sem unnu í stál- og kolaiðnaðinum eða þess sem var eftir af honum. En einnig til þeirra sem störfuðu í hinum mjög svo mikilvæga orkuiðnaði Bandaríkjanna.trump á vakt

Sjálfbær orkuframleiðsla

Eitt af því sem Trump getur talið sér til tekna og hefur alltaf mikið að segja í Bandaríkjunum er að hann hefur gert þau sjálfstæð í orkumálum, á ný. Með því að styðja bergbrot (fracking) og auðvelda orkufyrirtækum að starfa, meðal annars með því að fella niður ýmsar íþyngjandi reglugerðir sem komið hafði verið á í nafni umhverfisverndar, hefur hann gert Bandaríkin að nettóútflytjenda á olíu á ný. Vitaskuld hefur hann setið undir ámælum frá umhverfisverndarsamtökum en heima fyrir mætti þetta skilningi.

Með bergbrotinu hefur tekist að glæða gamlar olíulindir lífi (það skiptir miklu hvort þú nærð einum þriðja upp úr þeim eða tveimur þriðju eins og gerist með bergbrotinu.) Vissulega hefur Trump mistekist að koma lífi í kolaiðnaðinn enda virðast rekstrarlegar forsendur fyrir honum horfnar. Sem er gott þar sem kol eru mestu skaðvaldar í loftslagsmálum. Það er hins vegar jarðgas ekki og það er vandræðalegt fyrir andstæðinga Trump í loftslagsmálum hve vel hefur gengið að keyra niður koldíoxíðútblástur sem er nú talsvert fyrir neðan þau gildi sem voru þegar Trump tók við. Hann hefur hins vegar neitað að skrifa undir skuldbindandi samninga og sagt sig frá Parísarsamkomulaginu. Biden aftur á móti segir að það verði sitt fyrsta verk að endurnýja skuldbindingar landsins á því sviði. Hve miklar þær eru er erfitt að segja en Bandaríkjaþing hefur ekki enn tekið málið fyrir. En nú þegar bandarískur efnahagur þarf á öllu að halda kemur sér vel að vera með sjálfbæran orkuiðnað. Það styrkir líka utanríkisstefnu landsins sem verður vikið að í öðrum pistli.

Einfaldaði regluverk

Trump hefur ekki hikað við að lækka skatta og einfalda regluverk eins og hann boðaði. Þetta hleypti lífi í smáiðnaðinn og einyrkjar og iðnaðarmenn urðu varir við talsvert aukna eftirspurn. Þegar Trump talaði um árangur sinn í efnahagsmálum benti hann ávallt á tvo þætti sem hafa alltaf verið sterkir efnahagslegir vegvísar (economic Indicators) um ástand efnahagsins í Bandaríkjunum, stöðuna á mörkuðum og atvinnuástandið, sérstaklega eins og það mælist í nýjum störfum. Trump er heldur ekki frumlegur þarna en auðvitað var kannski örlítið úr takt hve mikið hann talaði um velgengni Wall Street. En árið 2019 var 11 árið í röð þar sem markaðir hækkuðu og þar sem Bandaríkjamenn fjárfesta um það bil helming eftirlauna sinna á hlutabréfamarkaði þá segir sig sjálft að margir glöddust. Velgengni í kauphöllinni kemur sitjandi forseta alltaf til góða og nú sjá menn miklar hækkanir austan og vestanhafs í kjölfar jákvæðra frétta um bóluefni lyfjafyrirtækisins Pfizer og líftæknifyrirtækisins BioNTech við kórónuveirunni. Auðvitað er of snemmt að segja að það ráði niðurlögum faraldursins en það eykur í það minnsta mönnum bjartsýni.

Aukin atvinna kom láglaunastéttum og innflytjendum vel og svo virðist sem Trump hafi einmitt aukið fylgi sitt meðal þeirra. Áður en Covid-19 faraldurinn tók yfir alla umræðuna þá var Trump með ásættanlega niðurstöður í vinsældakönnunum og líklega hefði honum farnast betur ef hann hefði látið faraldrsfræðingana móta stefnuna og haldið sig til hlés í umræðunni. Þá hefði líklega kastljósið orðið meira á viðbrögð einstakra ríkja sem hafa hvort sem er mest með viðbúnað við faraldrinum að segja.

Í deilu við stórfyrirtækin

Stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna eiga flest upphaf sitt að sækja til kísildalsins í Kaliforníu eða upp eftir vesturströndinni. Þar eru tæknifyrirtækin stóru en stjórnendur sumra þeirra hafa verið í opinskáum deilum við Trump. Hér hefur áður verið sagt frá deilum hans við ríkasta mann heims Jeff Bezos, stofnanda og forstjóra Amazon, en Trump hefur gagnrýnt starfsemi félagsins. Þess má geta að Bezos á Washington Post sem hefur verið harðast í gagnrýni sinni á forsetann.

En margir af fremstu viðskiptafjölmiðlum hins engilsaxneska heims, FT, Wall Street Journal og The Economist, hafa verið mjög gagnrýnir á forsetann þó þau hafi verið málefnalegri í gagnrýni sinni en margir aðrir fjölmiðlar. Þessi gagnrýni beinist meðal annars að ríkisbúskapnum en Trump gerði lítið til að skera niður, hann hafði frekar trú á að keyra upp hagkerfið og vinna þannig á fjárlagahallanum. Hann hefur seint eða aldrei verið stærri og nú bíður það Joe Biden að vinna á honum. Trump lagði fram frumvarp um 1,5 trilljón dala aðgerðarpakka í byrjun október sem demókratar stöðvuðu. Þannig ætlaði Trump augljóslega að blása lífi í efnahaginn rétt fyrir kosningar. Vel er líklegt að demókratar hleypi honum í gegn núna þegar þeir eru komnir með völdin.