c

Pistlar:

12. nóvember 2020 kl. 23:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Trump-áhrifin, utanríkismálin

Síðustu hundrað árin eða svo hefur stefna Bandaríkjanna erlendis sveiflast á milli þess að vera einangrunarstefna og heimsvaldastefnu. Líklega hafa fáir eða engir haft meiri áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna, bæði sem stjórnmálamaður og fræðimaður, en Henry Kissinger. Hann stundaði hagsýnispólitík (realpolitík) og átti stóran þátt í afvopnunarferli kalda stríðsins. Í samskiptum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna lagði Kissinger áherslu á slökunarstefnuna (fr. détente) og í hans tíð var mótuð sú stefna að opna á samskipti við Kínverja. Skoski sagnfræðiprófessorinn Niall Ferguson (sem skrifaði nýlega ævisögu Kissingers) hefur smíðað þá kenningu að seinni tíma utanríkisstefna Bandaríkjanna hafi að mestu snúist um að afneita hlutverki landsins sem heimsveldis. Þannig þrjóskist Bandaríkjamenn við að taka við því hlutverki sem þeim ber, að tryggja öryggi og valdajafnvægi í heiminum. Vissulega eru margir ósammála Ferguson enda Bandaríkin verið ráðandi afl síðustu 100 árin og rúmlega það. Eftir fall Sovétríkjanna hafa Bandaríkin í raun verið eina heimsveldi, bæði á sviði hernaðar og efnahagsmála. Veldisstaða Rússa og Kínverja í dag byggist fremur á staðbundnum áhrifum fremur en afli til að hreyfa hluti í fjárlægum löndum.Privatization-of-U.S.-Foreign-Policy

Eitt helsta umræðuefni sérfræðinga í utanríkispólitík þessi misserin beinist að því að meta stefnu og aðgerðir Kínverja. Sannarlega hafa þeir gríðarlegan efnahagsstyrk en eru að sumu leyti einangraðir, jafnvel vinalaust stórveldi eins og Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra og öryggismálasérfræðingur, benti á í Silfrinu síðustu helgi. Nánast öll lönd Suðaustur-Asíu og Eyjálfu óttast aukin áhrif Kínverja á svæðinu þó áhersla þeirra séu fremur innávið og lúti að frekari innlimun svæða eins og Tíbet, Hong Kong, Taiwan og sjálfstjórnarhéraðinu Xinjiang.

Ekki er langt síðan sagnfræðinginn Odd Arne Westad velti því fyrir sér í fyrirlestri við LSE háskólann í London hvort Kínverjar hefðu verið hinir raunverulegu sigurvegarar kalda stríðsins? Westad er prófessor við Harvard og sérhæfir sig í samskiptum Bandaríkjanna og Asíu en ekki er langt síðan hann gaf út bókina The Cold War: A World History sem fjallað var um hér í pistli. Sumir segja að Kínverjar vilji alls ekki stríð og einbeiti sér að því að vinna friðinn.

Engin ein utanríkisstefna

Ef litið er yfir utanríkisstefnu Bandaríkjanna síðustu öldina sést að hún tekur stöðugum breytingum, oft sem andsvar við atburðum sem gerast í fjarlægum heimshlutum. Framan af mótaðist hún af því að landið dróst nauðugt viljugt inn í báðar heimstyrjaldirnar og hafði að lokum úrslitaáhrif um hverjar urðu lyktir þeirra. Í báðum tilvikum höfðu styrjaldirnar verið í gangi nokkurn tíma þegar Bandaríkin hófu afskipti sín.

Eins og mörg stórveldi þá trúa Bandaríkjamenn á mátt sinn og megin og hafa löngum talið sig hafa siðferðilega yfirburði auk annars. Eins og áður sagði hefur utanríkisstefna þeirra tekið miklum breytingum í gegnum tíðina og eftir heimsstyrjöldina síðari mótaðist hún af Kalda stríðinu og kenningum sem féllu að því. Með Dóminókenninguna (The domino theory) að vopni glöptust Bandaríkjamenn til þess að taka yfir nýlendustríð Frakka í Indó-Kína, herfilegustu mistök þeirra í utanríkispólitík. Afskipti þeirra af málum í Mið- og Suður-Ameríka voru fremur verk leyniþjónustunnar en hersins og í fyrra Persaflóastríði réðu olíuhagsmunir þeirra ferðinni. Líklega reyndist það vinsælasta (og farsælasta) stríð Bandaríkjanna eftir síðari heimsstyrjöldina. Íraksstríðið var viðbragð við einhverri mestu öryggisógn sem steðjað hafði að Bandaríkjunum í kjölfar árásarinnar á Tvíburaturnana 2001. Fyrstu árás á bandaríska grundu, síðan Pearl Harbour átti sér stað, var ekki hægt að láta ósvarað. Þáverandi forseti, Georg Bush, var einangrunarsinni eins og Trump en árásin breytti öllu og smám saman var hann kominn í stríð sem meðal annars gekk út á að koma upp vestrænni þjóðfélagsskipun (nation building) í fjarlægum löndum. Stríðið við hryðjuverk (war on terror) dró síðan Bandaríkjamenn inn í Afganistan þar sem þeir hafa nú eytt sex trilljónum Bandaríkjadala með takmörkuðum árangri. Þess má geta að stuðningspakkinn sem Trump kynnti þinginu í byrjun október hljóðaði upp á ein fjórða af þessari upphæð og var hann þó einstakur að stærð.trump-china

Samningaborðið frekar en vígvöllurinn

Donald Trump er skilgetið afsprengi bandaríska kapítalismans og hafði litla sem enga reynslu af erlendum málefnum þegar hann settist í stól forseta. Það var þá helst í gegnum smávægileg viðskipti þar sem uppbygging golfvalla í Skotlandi voru líklega fyrirferðamest. Trump tók tvennt með sér inn á hið alþjóðlega svið. Sterka einangrunarstefnu sem meðal annars fólst í óbeit á stríðsátökum sem byggðust á þeirri trú margra að Bandaríkjunum bæri að leika lögreglu á alþjóðavettvangi. Hitt var trú á að hann, sem óvenju slyngur samningamaður, gæti endurheimt samkeppnisforskot Bandaríkjanna í viðskiptum. Honum tókst ágætlega við að endursemja við nágrana sína í norðri og suðri en málið vandaðist þegar kom að Kínverjum sem hafa orðið höfuðandstæðingur hans í utanríkismálum eða réttara sagt utanríkisviðskiptamálum. Að sumu leyti benti hann á hið augljósa: Það var ekki rétt gefið í viðskiptum við Kínverja sem höguðu sér nokkurn veginn eins og þeim hentaði. Bandaríkjamenn höfðu opnað heimamarkað sinn og Kínverjar höfðu launað það með því að stela flest steini léttara úr bandarískum hugverkaiðnaði og setja á svo viðamiklar tæknilegar viðskipahindranir að flestum erlendum fyrirtækjum gengur illa að hasla sér völl í Kína. Í raun er þessu stríði ólokið nú þegar flest bendir til þess að Trump sé á förum úr Hvíta húsinu. Í þessu stríði hefur Trump notið velvildar þjóða eins og Japana, Tawana og Ástrala. Hvað Joe Biden ætlar að gera þegar kemur að Kínverjum veit enginn en líklega mun hann fara sömu leið og í baráttunni við Covid-19 og skipa sérfræðinganefnd!

Nató-þjóðirnar borgi meira

Aðrir veigamiklir þættir í utanríkisstefnu Trump (kannski er ofrausn að segja stefnu enda segja félagar hans innan Repúblikanaflokksins einfaldlega: Trump stendur bara fyrir Trump!) lúta að samskiptum við bandamenn innan Nató og við Rússa. Trump hefur verið óvægin í samskiptum við aðrar Nató-þjóðir og minnt þær á að það eru Bandaríkjamenn sem borga brúsann. Það er ekkert nýtt að Bandaríkjamenn kvarti yfir því að þeir beri of mikinn kostnað af sameiginlegum vörnum enda má segja að það fyrirkomulag hafi komist á þegar Evrópa var enn að jafna sig eftir seinni heimsstyrjöldina. Dwight Eisenhower kvartaði yfir þessu í forsetatíð sinni 1952-1960. Sumt hefur rennt stoðum undir sjónarmið Trumps, meðal annars hugmyndir Frakka og Þjóðverja um að koma á eigin varnarsamvinnu innan Evrópusambandsins. Þegar það hefur borið á góma hefur Trump bent á að það sé skrítið að þeir skuli hafa efni á því þegar þeir séu í raun í stórskuld við Atlantshafsbandalagið! Það er erfitt að neita því að þetta virkar heldur ósannfærandi hjá þessum lykilríkjum ESB sem gleymdu þar að auki að ráðfæra sig við aðrar þjóðir sambandsins.trump putin

Samskipti Trump við Rússa eru hálf óskiljanleg og fundir hans og Pútins hafa verið vandræðalegir. Bandaríkjamenn hafa hins vegar haldið áfram að skilgreina umsvif Rússa á afmörkuðum svæðum sem öryggisógn og þá meðal annars á heimskautssvæðinu. Furðulegar tillögur Trumps um að kaupa Grænland sýna þetta glöggt.

Íranir verða höfuðandstæðingar

Samskiptin við Ísrael og Arabaheiminn hefur verið einn veigmesti þáttur utanríkisstefnu Bandaríkjanna í hálfa öld eða svo. Trump hefur verið vinsæll í Ísrael, meðal annars af því að hann framkvæmdi það sem aðrir höfðu ætlað sér, að flytja sendiráð Bandaríkjanna til Jerúsalem og styrkja þannig tilkall Ísraelsmann til borgarinnar. Fyrir vikið jók hann stuðning við framboð sitt meðal gyðinga.

En hér kemur orkustefna Trump honum til góða. Með því að vera óháðir innflutningi eldsneytis hafa Bandaríkjamenn sterkari stöðu gagnvart hinum olíuríka Arabaheimi. Fyrsta heimsókn Trump til erlends ríkis var einmitt ferð hans til Saudi-Arabíu í maí 2017 þar sem hann dansaði hin sérkennilega sverðadans við mismikla hrifningu áhorfenda. En hann hnýtti hnútanna við konungsdæmið, seldi þeim gríðarmikið magn af vopnum og það, sem var mest um vert, gerði þá að bandamönnum í átökunum við Íran. Það var kannski það eina sem hönd á fest í utanríkisstefnu Trumps, hann sagði upp vopnahléssamningi Obama og herti mjög afstöðuna til þeirra en Írani dreymir augljóslega stórveldisdrauma í þessum heimshluta. Að sumu leyti hefur Trump náð merkilegum árangri á svæðinu og tekist að koma á nýju jafnvægi þó of snemmt sé að segja hve stöðugt ástandið verður.

Stóð við kosningaloforðin

Staðreyndin er sú að Trump hefur ekki reynst herskár forseti og staðið við kosningaloforð sín um að draga úr stríðsrekstri Bandaríkjamanna. Albert Jónsson hefur bent á að í kosningabaráttu sinni árið 2016 hafi Trump bergmálað skoðanir svokallaðra raunsæissinna í öryggis- og varnarmálum. Þeir hafi árum saman talað fyrir því að Bandaríkjamenn eigi ekki að beita hervaldi til að skipta út stjórnvöldum í öðrum löndum. Það þjóni ekki hagsmunum Bandaríkjanna og um leið hefur Trump reynt að standa við kosningaloforð um að draga úr stríðsrekstri.-1x-1

Trump heimsótti 24 lönd í ferðum og kom vissulega oft undarlega fyrir og hefur sjálfsagt gert embættismenn sína gráhærða með orðum sínum. Hér verður ekki farið út í að skilgreina samskipti hans við Norður-Kóreu en þau eru í það minnsta ekki verri en þegar hann tók við völdum.