c

Pistlar:

24. nóvember 2020 kl. 17:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kosningarnar árið 2000: Að vinna talninguna


Líklega muna flestir eftir forsetakosningunum í Bandaríkjunum 7. nóvember 2000 en ekki er víst að allir muni smáatriðin. Allt hófst það með því að bandarísku sjónvarpsstöðvarnar tilkynntu að Al Gore hefði unnið kosninguna í Flórída. Það byggðu þær á upplýsingum frá Voter News Service, sem var í eigu Associated Press fréttastofunnar. Tilkynningin um sigur Gore byggðist á fyrstu tölum auk þess sem stuðst var við útgönguspár. Fyrirkomulag sem hefur lengi tíðkast en oftar en ekki er það hlutverk fjölmiðla að greina frá úrslitum, síður en yfirkjörstjórna eins og við þekkjum hér. Niðurstöðurnar birtust rétt eftir að kjörstöðum var lokað á austurströndinni. Seinna um kvöldið drógu sjónvarpsstöðvarnar yfirlýsingar sínar til baka, sögðu að of mjótt væri á mununum („too close to call“). Síðar um kosninganóttina var sigurinn færður yfir til George Bush en aftur drógu sjónvarpsstöðvarnar það til baka og sögðu að enn væri of lítil munur til að ákveða úrslitin. Sama gerði Al Gore, sem hafði óskað George Bush til hamingju með sigurinn.

Eftir kosninganóttina var Bush með 1.784 fleiri atkvæði í Flórída en Gore. Svo litlu munaði að það fór af stað sjálfvirk endurtalning daginn eftir. Fyrsta talning færði muninn niður í 900 atkvæði. Þegar fyrir lá að niðurstaða forsetakosninganna byggðist á því hvernig færi í Flórída færðist öll athyglin þangað. Þá varð ljóst að handtelja yrði til að fá niðurstöðu. Mikið myndi þá reyna á lögfræði fyrir dómstólum og miklu skipti að hafa öfluga lögfræðinga við stjórnvölin. Bush-framboðið réði fyrrum utanríkisráðherra James Baker og Gore-framboðið fékk annan fyrrum utanríkisráðherra í starfið, Warren Christopher. Næstu vikur ríkti fullkomin óvissa þar sem gekk á kærum og endurtalningum þar sem dómstólar í Flórída léku aðalhlutverkið. Þar kom í ljós að allir dómar féllu eftir stjórnmálaskoðunum dómaranna.bushgor

Hæstiréttur hafnar frekari talningu

Að lokum barst málið til Hæstaréttar Bandaríkjanna sem með úrskurði sínum 12. desember árið 2000 ákvað að hafna frekari endurtalningu í Flórída. Sjö af níu dómurum Hæstaréttar komust að þeirri niðurstöðu að úrskurður Hæstaréttar Flórída um að efna til handtalningar á vafaatkvæðum í öllu ríkinu, stangaðist á við stjórnarskrá Bandaríkjanna. Fimm dómarar af níu töldu jafnframt að ekki væri með viðunandi hætti hægt að efna til endurtalningar áður en ganga yrði frá skipan kjörmanna. Minnihlutinn taldi hins vegar rétt að halda handtalningu atkvæða áfram en samkvæmt samræmdum reglum. Þeir sjö dómarar sem komust að þessari niðurstöðu voru William Rehnquist, forseti réttarins, Sandra Day O'Connor, Antonin Scalia, Anthony M. Kennedy, Clarence Thomas, David Souter og Stephen Bryer. John Paul Stevens og Ruth Bader Ginsburg voru andvíg og töldu að framkvæma ætti nýja talningu eftir samræmdum reglum. Gore viðurkenndi ósigur sinn tólf klukkustundum síðar í sjónvarpsávarpi eða 13. desember en þá var farið að styttast í að kjörmenn kæmu saman og tilkynntu forseta Bandaríkjanna. Það gerist 18. desember, þá sem nú. Þá er vert að geta þess að það var ekki fyrr en þegar niðurstaða hæstaréttar lá fyrir sem erlendir þjóðarleiðtogar, meðal annars Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra Íslands, óskuðu Bush til hamingju með kjörið.

Mikil óánægja meðal demókrata

Demókratar voru hins vegar ósáttir og nokkrir demókratar létu strax í ljós gremju vegna niðurstöðu hæstaréttar Bandaríkjanna. Demókratinn Patrick Leahy, sem sat í laganefnd öldungadeildarinnar, sagði að meirihluti hæstaréttar hefði greitt „dómstólnum þungt högg með ákvörðunum sem margir Bandaríkjamenn telja pólitískar fremur en lagalegar“. Blökkumannaleiðtoginn Jesse Jackson, sem var þá talinn til þungaviktarmanna innan Demókrataflokksins, sagði að Gore ætti ekki að játa sig sigraðan og krafðist rannsóknar á ásökunum um að þúsundum blökkumanna hefði verið meinað að greiða atkvæði í Flórída. Hann boðaði strax „friðsamleg fjöldamótmæli" í borgum Bandaríkjanna á degi Martins Luthers Kings um miðjan janúar, skömmu fyrir innsetningu Bush.

Af þessu sést að það er ekkert nýtt að framkvæmd kosninga sé gagnrýnd í Bandaríkjunum. Á meðan óvissa ríkti í Flórída voru bandarískir fjölmiðlar duglegir við að tína til fjölmörg dæmi um að vandamál við framkvæmd kosninga væru síður en svo bundin við Flórída. Þvert á móti virtist pottur brotinn í flestum ríkjum þó svo að athyglin hafi beinst að Flórída. Úrskurður hæstaréttar byggist ekki síst á því að Hæstiréttur Flórída hafi ekki tryggt, þegar ákvörðun var tekin um endurtalningu, að samræmdar reglur giltu við talninguna. Þvert á móti hafi einstaka sýslum verið leyft að meta sambærileg atkvæði með mismunandi hætti. Margir, þar á meðal þáverandi leiðarahöfundur Morgunblaðsins, sögðust vonast til þess að þessi uppákoma í Flórída leiddi til endurskoðunar á því hvernig staðið er að kosningum í Bandaríkjunum: „Öflugasta lýðræðisríki veraldar, sem hikar ekki við að segja öðrum ríkjum til, getur ekki verið þekkt fyrir að láta kosningar einkennast af jafnmiklum flumbrugangi og raun ber vitni. Það er einkennilegt lýðræði, þar sem ekki má ganga úr skugga um hvernig hvert einasta atkvæði hefur fallið."

Í grein í The New York Times, sem birtist daginn eftir úrskurð hæstaréttar, var bent á að það hafi verið gífurleg mistök af Gore að fara ekki fram á við dómstóla í Flórída frá upphafi að öll atkvæði ríkisins yrðu handtalin. Thomas W. Merrill, lagaprófessor í Northwestern University, sagði þar að Gore geti kennt sjálfum sér um ósigurinn þvi hann hafi farið þá leið að krefjast handtalningar í sýslum sem eru viðurkennd vígi demókrata í stað þess að krefjast hennar í öllu ríkinu. Þannig hafi Gore litið út fyrir að vilja niðurstöðu sér í hag, en ekki sanngjarna niðurstöðu. Einnig er bent á að það hafi verið mistök hjá liðsmönnum Gore að fara fram á að innanríkisráðherra Flórída frestaði því að lýsa yfir hver væri sigurvegari kosninganna í ríkinu. Þannig hafi þeir í raun tapað tíma sem þeir hefðu getað notað til málshöfðunar vegna úrslitanna. Í leiðara The New York Times við þetta tilefni sagði að úrskurðurinn eigi eftir að draga úr trausti almennings á áreiðanleika og heiðarleika kosninga. Þar segir einnig að þeirra verði minnst sem „kosninga sem réðust í íhaldssömum hæstarétti og féllu íhaldssömum frambjóðanda í vil en atkvæði sem hefðu getað skipt sköpum hefðu verið ótalin". USA Today sagði hæstarétti hafa mistekist hrapallega að binda sannfærandi enda á kosningarnar.

Breska blaðið Guardian, sem var þá sagt heldur vinstrisinnað (en er líklega enn meira vinstrisinnað í dag), sagði, að hæstaréttardómurinn, sem færði Bush forsetaembættið, væri einfaldlega ólöglegur. Franska blaðið Le Figaro sagði, að Bush væri forseti dómaranna, ekki Bandaríkjamanna.þjofntr

Trump ekki búinn að ná meti Gore

Enn er nokkuð í það að Donald Trump nái meti Al Gore þegar kemur að því að draga að viðurkenna ósigur sinn. Trump jafnar hann ekki fyrr en 13. desember. Hafa má í huga að 88% þeirra sem kusu Trump trúa því að svindlað hafi verið í kosningunum, ekki endilega að það hafi ráðið úrslitum en svindlað eigi að síður. Þá er til þess tekið hve illa gekk að tryggja valdaskiptin (e.transition) vegna framferðis demókrata árið 2000. Var það meðal annars talið hafa átt þátt í því að ýmsir öryggisbrestir voru hjá nýrri ríkisstjórn sem var vanbúin þegar árásin var gerð á Tvíburaturnana 11. september 2001 eins og The Economist bendir í síðasta tölublaði. Georg Bush sór að láta þetta ekki henda aftur og valdaskiptin 2008, þegar Obama tók við, voru einstaklega vönduð af hálfu Bush-stjórnarinnar. Sem meðal annars er talið hafa stuðlað að því að Obama-stjórninni gekk vel að glíma við fjármálakreppuna. Nú hefur Joe Biden haldið því fram að fjöldi fólks muni deyja af völdum veirunnar tefji Trump valdaskiptin meira en orðið hefur. Þá má kannski hafa í huga orð skáldsins Gabriel García Márquez sem skrifaði: „Lífið er ekki það sem maður lifði, heldur það sem maður man eftir og hvernig maður man eftir því til að endurtelja það.“