c

Pistlar:

29. nóvember 2020 kl. 16:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skýrsla um hrunskýrslurnar


Nú í haust eru 12 ár síðan bankakerfið hrundi á Íslandi og breytti samfélagsumræðunni varanlega. Í kjölfarið hófst uppgjör við hrunið sem birtist ýmist með mótmælum, rannsóknarnefndum, skýrslum, rannsóknarskýrslum, ákærum, dómum, áfrýjunum, fleiri dómum og að lokum mannréttindadómum. Um leið voru gerðar alskonar breytingar á lögum, stjórnmálaflokkum og stjórnsýslu og svo skrifaðar fleiri skýrslur. Hér á þessum vettvangi hefur alloft verið fjallað um ýmsar hliðar hrunsins og kannski að einhverju leyti andhæft hinni opinberu söguskýringu sem oftar en ekki byggir á einföldunum og pólitík. En nú hefur forsætisráðuneytið gefið út 374 blaðsíðna skýrslu um rannsóknarskýrslurnar sem Alþingi stóð að á sínum tíma. Semsagt; skýrsla um skýrslurnar! Og birt á föstudegi. Skýrslan er að beiðni allmargra þingmanna Pírata og nokkura annarra áhugasamra rannsakenda úr hópi þingmanna. Nú bíða flestir sjálfsagt eftir því hvað þeir vilja gera við skýrsluna sem hefur án efa kostað sitt að gera.

Erfitt er að meta hvað þessi skýrsla mun hafa í för með sér, líklega mun hún vekja litla athygli nema í hópi hörðustu stjórnsýslunörda og það þó að vinna við hana hafi staðið yfir í ríflega þrjú ár. Að sumu leyti sýnist manni að með henni sé verið að reyna að ljúka þessu máli og koma til móts við heldur óvenjulega ósk um skýrslu. Á sínum tíma var þess óskað að forsætisráðherra flytti Alþingi skýrslu um ábendingar sem vörðuðu stjórnsýsluna í rannsóknarskýrslum Alþingis um orsakir falls íslensku bankanna 2008, orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna og Íbúðalánasjóð og viðbrögð við þeim.frettabl

Með þessari skýrslu sem nú birtist hefur verið farið í gegnum allar rúmlega 5.000 blaðsíðurnar sem skýrslur rannsóknarnefndanna þriggja telja og ábendingar afmarkaðar og dregnar fram. Það verður að teljast vel af sér vikið.

Vopnunum lagt inn í kviku

Hér í lokin má rifja upp þessa gömlu greining á því íslenska ættarmóti, sem setti svip sinn á samskipti þeirra Bjarna Thorarensen og Magnúsar Stephensen, varpar ljósi á  umræðuhefðina á Íslandi nútímans:

„Saga Íslendinga hefur frá öndverðu verið gædd ríkum einstaklingsblæ, átökin verið svo persónuleg, vopnunum lagt inn í kviku. Fámennið, frændsemin og kunningsskapurinn hefur valdið því, að oft er erfitt að greina hina djúpu ála þjóðarsögunnar. Það er engin tilviljun, að saga Íslands hefur um aldir og allt fram á þennan dag verið saga um einstaka menn, í vitund íslenzkra sagnfræðinga hefur skógurinn horfið fyrir stökum trjám. Þegar dýpra er skyggnzt, má þó greina strauminn og kvíslarnar frá dropunum, hið almenna frá hinu einstaka. En hitt fær ekki dulizt, að söguleg þróun okkar hefur verið mörkuð mikilli persónulegri heift og ástríðum, sem oftar en ekki eru sprottnar af lágkúru og smámennsku.“*

Þar með er ekki verðið að segja að umrædd lýsing einkenni þessa skýrslu né beiðnina um hana. En margt í eftirmála hrunsins einkennist sannarlega af þessu.

*(Sverrir Kristjánsson, Fannhvítur svanur. Þáttur um Bjarna Thorarensen, í : Sverrir Kristjánsson & Tómas Guðmundsson, Gullnir Strengir. Íslenzkir örlagaþættir, Reykjavík 1973, bls. 192)