c

Pistlar:

6. desember 2020 kl. 16:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hallir athafnamanna

Það er að sumu leyti forvitnilegt að lesa að frumkvöðulinn Davíð Helgason hafi fest kaup á húsi athafnamannsins Skúla Mogensen í Hrólfsskálavör á Seltjarnarnesi fyrir á sjötta hundrað milljónir króna. Þetta gæti virst nokkuð hátt kaupverð þar til það er sett í samhengi við verðmæti eignarhlutar Davíðs í Unity fyrirtækinu en hann er nú talin vera um 200 milljarða króna virði í og hækkar hratt í verði. Ævintýralegur uppgangur Unitys og auðlegð Davíðs var gerð að umtalsefni hér fyrir stuttu en síðan hefur auður hans aukist um ríflega 50 milljarða! Það er dálítið merkilegt að sjá viðskiptasöguna vefjast svona saman í gegnum persónur og leikendur og svo húsakost þeirra en auðvitað þurfa allir þak yfir höfuðið. Og þannig er það oft, við fylgjumst með risi og falli þekktra persóna í þjóðlífinu í gegnum húsakaup þeirra enda eru samkvæmissíður netmiðlanna duglegar að rekja þessi vistaskipti en slíkar fréttir virðast njóta nokkrar eftirspurn meðal lesenda. Innlit og útlit hjá frægum er í senn uppspretta aðdáunar og öfundar. Þannig getum við fylgst með risi og falli, gleði og sorg þekkts fólks sem hamast við að pakka og flytja á milli þess að það vinnur viðskiptasigra.glæsi

Ris og fall atvinnugreina

Það að tæknigúrúinn Davíð skuli kaupa glæsihús flugrekstrarmannsins Skúla sem áður hafði keypt það af kaupmanninum Eiríki Sigurðssyni rekur einnig hvernig viðskiptin geta þróast og gefur um leið upplýsingar um ris og fall einstakra atvinnugreina. Allt á þetta sér forsögu því þegar Eiríkur var að hefja rekstur 10-11 verslanasamstæðunnar, eftir að hafa jafnað sig á gjaldþroti verslunarinnar Víðis, var Skúli að hamast við að koma hugbúnaðarhúsinu OZ á laggirnar í gömlu húsnæði Mjólkursamsölunnar við Snorrabrautina. Engin vissi almennilega hvað OZ var að gera en þó töldu allir sig vita að þar væri mikið af snjöllu fólki við störf. Það reyndist rétt þó að hluthafar OZ hafi ekki notið eldanna sem þeir kveiktu. Til OZ er síðan rakið upphafið að tölvuleikjaiðnaðinum íslenska en Davíð og Unity sérhæfa sig einmitt í að búa til tækin fyrir tölvuleikjafólkið. Það virðist vera nokkuð ábatasöm starfsemi, í það minnsta nýtur hún tiltrúar fjárfesta í henni Ameríku sem hafa gert Davíð að næst ríkasta manni landsins á nánast svipstundu. Með áframhaldandi hækkun Unity bréfanna verður Davíð orðið ríkastur íslenskra stráka í vor.frík

Ríkmannlegasta húsið

Í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins var rifjað upp að samkvæmt auðmannalista Forbes er Björgólfur Thor Björgólfsson, sem lengi vel hefur verið ríkastur allra Íslendinga, metinn með eignir upp á um 2,3 milljarða dollara. Í krónum talið er það um 300 milljarðar króna eða rúmlega 40% prósentum meira en hlutur Davíðs í Unity er metinn á núna. Björgólfur Thor rekur upphaf auðs síns til viðskipta í Rússlandi enda má segja að slíkar upphæðir verði ekki teknar upp af gólfinu hér í íslensku viðskiptalífi. Hann hefur reyndar kynnst risi og falli viðskiptaheimsins eins og fjallað var um hér í eina tíð. Samkvæmt áðurnefndum lista er Björgólfur nú um stundir 1.063 ríkasti einstaklingur heims. Auður hans var metinn á um 3,5 milljarða dollara þegar mest var árið 2007. Hin seinni ár hafa afskipti hans af íslenskum málum einmitt helst snúist um að gera upp hús langafa síns Thors Jensens við Fríkirkjuveg 11. Það hús lét Thor Jensen, athafnamaður, reisa á árunum 1907-1908 en þau misserin var hann líklega ríkastur Íslendinga, eða í það minnsta sá umsvifamesti. Húsið þykir vera með glæsilegri timburhúsum í Reykjavík. Reisuleg hús verða þjóðargersemar að lokum.

Framan af voru ríkmannlegustu hús Íslands reist fyrir embættismenn. Þegar kom fram á 20. öldin tóku atvinnustéttir landsins að efnast. Skipstjórar reistu sér eiguleg hús í vesturbæ Reykjavíkur, apótekarar byggðu vel yfir sig og starfsemi sína. Kaupmenn og heildsalar byggðu módernísk stórhýsi í Laugarásnum og úti á Arnarnesi. Á uppgangstíma bankamanna var það vinsælt að kaupa hús í Fossvoginum og endurnýja þau og var þá engu til sparað. Þannig má segja að hver uppgangstími skilji eftir sig ummerki í byggingasögu þjóðarinnar.