c

Pistlar:

13. desember 2020 kl. 12:24

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Andvaraleysi heilbrigðisráðherra

Allvarlegasta atvikið sem hefur komið upp í kórónufaraldrinum hér á landi tengist hópsmiti því sem kom upp á Landakoti. Í raun langalvarlegasta atvikið þar sem flest öll þau dauðsföll sem hafa orðið í seinni bylgju faraldursins má rekja til þess. Og þá í raun nálægt 60 til 70% allra dauðfalla sem hafa orðið vegna kórónuveirufaraldursins hér á landi. Það er kannski óþarfi að rekja þetta mál í þaula en ráðist var í rannsóknir á orsökum og afleiðingum hópsmitsins og þó að þær rannsóknir hafi að hluta til verið framkvæmdar af þeim sem báru ábyrgð á sóttvörnum á Landspítalanum þá ber að taka niðurstöðurnar alvarlega. Meðal annars að það hafi verið ónógt húsnæði, þrengsli og vont húsnæði sem höfðu mest með það að gera að smitið varð eins afdrifaríkt og raun bar vitni. Niðurstaðan var í raun eftirfarandi: „Það er mat skýrsluhöfundar að með tilliti til sýkingavarnasjónamiða sé ástand húsnæðis, loftskipta og aðbúnaðar á Landakoti ófullnægjandi fyrir þá mikilvægu starfsemi sem þar fer fram og líklega megin orsök þeirrar miklu smitdreifingar sem varð.“ Landlæknisembættið framkvæmir nú eigin rannsókn á smitinu á Landakoti.landak 

Sáu ekki útrétta hönd

Í nýliðinni viku var síðan upplýst að heilbrigðisyfirvöldum höfðu borist tilboð um að vinna á þeim vanda sem orsakaði hópsmitið. Fulltrúar nokkurra einkarekinna heilbrigðisstofnanna buðu fram húsnæði og starfskrafta til þess að létta álaginu af Landakoti. Þetta varð að fréttamáli í kjölfar umfjöllunar Læknablaðsins sem fjallaði um þetta með viðtölum við stjórnendur þeirra fyrirtækja sem buðu fram aðstoðina. Morgunblaðið tók þetta upp og málið varð að umfjöllunarefni í sölum Alþingis eftir að Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, gerði það að umræðuefni. Morgunblaðið fylgdi því eftir með harðorðum leiðara en undrast má að aðrir fjölmiðlar hafa lítið sinnt þessu. Þögn Ríkisútvarpsins er verður að skoðast í því ljósi að stofnunin stendur vörð um rekstur á vegum ríkisins og vill ógjarnan raska því.

En heilbrigðisráðuneytið hefur ekki gefið nein skýr svör um af hverju slegið var á útrétta hönd þessara fyrirtækja og en það hefur verið beinlínis átakanlegt að hlusta á fulltrúa hina ýmsu ríkisstofnanna útskýra að tæknilegir annmarkar hafi verið á því að taka tilboðið um húsnæði. Nú síðast hjá forstjóra Sjúkratrygginga sem umvefur mál sitt fyrirvörum og stofnanatali sem erfitt er að skilja.

Rekstrarformið ekki fyrirstaða

Í Morgunblaðinu á föstudaginn var upplýst að rekstrarform heilbrigðisstofnana hafi ekki verið til fyrirstöðu þegar kom að samningum við ríkið. Þetta segir í svari heilbrigðisráðuneytisins við skriflegri fyrirspurn Morgunblaðsins vegna málsins. Bent er á í svarinu að af tæplega 2.900 hjúkrunarrýmum á landsvísu reki ríkið 17%, sveitarfélög 39,5% og einkaaðilar og sjálfseignarstofnanir 48,9%. Af þessu má sjá að einkaaðilar eru þungamiðja í þessum rekstri.

Einnig er bent á að um mitt ár 2019 hafi verið gerður samningur við fyrirtækið Sóltún heima ehf. um rekstur hjúkrunarheimilisins Sólvangs í Hafnarfirði í kjölfar útboðs. Sömuleiðis er lögð á það áhersla í svörum ráðuneytisins að fara þurfi eftir lögum um opinber innkaup þegar gengið er til samninga um rekstur hjúkrunarrýma og að jafnréttis þurfi að gæta. En ekki hvað, má spyrja. En kemur það í veg fyrir að menn semji? Auðvitað ekki. Þessi svör útskýra ekki andvaraleysi ráðuneytisins eða er hér kannski um að ræða stefnu ráðherrans?

Voru enn að skoða erindið

Í svörum ráðuneytisins til Morgunblaðsins er staðfest að erindi frá Önnu Birnu Jensdóttur, fyrir hönd Sóltúns, og Teits Gíslasonar, fyrir hönd Heilsuverndar, hafi borist ráðuneytinu. Þau hafi verið til skoðunar og rétt sé að þeim hafi enn ekki verið svarað! Fyrirspurn Morgunblaðsins laut meðal annars að því hvort vilji væri fyrir hendi til að nýta sér þau hjúkrunarrými sem boðin hafa verið meðal annars á splunkunýtt Oddssonhóteli við Grensásveg og í Urðarhvarfi. Svar heilbrigðiráðuneytisins er auðvitað á stofnanamáli en þar kemur fram að gera þurfi mun á langtímaúrræðum og skammtímaúrræðum. Til skamms tíma hafi verið brugðist við brýnum vanda Landspítala vegna faraldursins í haust með fjölgun hjúkrunarrýma tímabundið í samstarfi við rekstraraðila heilbrigðisstofnana og hjúkrunarheimila. Markmið Landspítalans um útskriftir einstaklinga hafi náðst með færni- og heilsumati þeirra sem lokið höfðu meðferð á spítalanum.

Þá hafi verið sett á fót með samningi Sjúkratrygginga Íslands og Hlíðaskjóls ehf., sem er í eigu Eirar, sérstök deild fyrir íbúa hjúkrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu sem smitast höfðu af Covid-19. „Í þessu ljósi hefur ekki verið þörf á að ráðast í sérstaka samninga fyrir þjónustu eins og um er spurt til að mæta bráðavanda,“ segir í svari ráðuneytisins. Hvernig er hægt að láta svona frá sér eftir það sem á undan er gengið? Hér á þessum vettvangi hefur stefna ráðherra í þessum málaflokki verið gagnrýnd en sýnir þessi atburðarás, sem hér hefur verið rakin, ekki að hún er í mestu ógöngum? Og skuldar ráðherra ekki skýringu á þessum ákvörðunum sínum?