Í Morgunblaðinu í gær voru tvær fréttir sem vöktu athygli. Annars vegar var sagt frá því að búið væri að verja tæplega 1.400 milljónum króna í að draga að kvikmyndaverkefni og hins vegar var greint frá því að loðnuleit hefði skilað tæplega 22.000 tonna veiðikvóta. Loðna og kvikmyndir - á það eitthvað sameiginlegt? Ekki við fyrstu sýn en það gæti þó verið freistandi að bera saman þessi tvö verkefni, loðnuleit og leit að kvikmyndaverkefnum og hvernig þau tengjast okkar sameiginlegu fjármálum.
Loðnuleitin núna fór þannig fram að fjögur veiðiskip sáu um mælingarnar, uppsjávarveiðiskipin Kap VE, Jóna Eðvaldsdóttir SF, Ásgrímur Halldórsson SF og grænlenska skipinu Ilvid. Mælingarnar eru að sjálfsögðu skipulagðar af Hafrannsóknarstofnun en Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) kostuðu verkefnið. Ha, nú gætu einhverjir hváð við! Borgar útgerðin sjálf fyrir leitina? Já, því ekki, þeir hafa hag af henni. Reyndar skiptir hún einnig nokkru máli fyrir þjóðarbúið en góð loðnuvertíð getur skilað á milli 25 og 30 milljörðum króna í útflutningsverðmæti. Munar um minna. Það er yfirleitt svo að útgerðin sér að stórum hluta um leitina, sérstaklega ef hún dregst á langinn og Hafrannsóknarstofnun er búin með peninginn og kýs að láta rannsóknarskip sín liggja við viðleigukantinn.
Segja má að menn hafi verið orðnir nokkuð örvæntingafullir enda ekki veiðst nein loðna síðustu tvö ár. Það kostar auðvitað útgerðina mikla fjármuni að liggja með flota og fjárfestingar óhreyfðar ár eftir ár. Einnig er sú hætta fyrir hendi, að ef ekki fæst loðna inná markaði í langan tíma þá tapist markaðssvæði varanlega. Og auðvitað dettur ríkisvaldinu ekki í hug að styrkja það. En samkvæmt niðurstöðum loðnumælinga í síðustu viku hefur veiðiráðgjöf í loðnu í vetur verið endurskoðuð. Mælingin leiðir til veiðiráðgjafar upp á 21.800 tonn og kemur í stað ráðgjafar frá því í október um engan afla. Þessum verður íslenska útgerðin að deila með Norðmönnum vegna samninga um gagnkvæma veiðireynslu. Loðnan sem íslenska útgerðin finnur fá Norðmenn að veiða.
Bíóstyrkir upp á 1,4 milljarð
En í leit að réttu kvikmyndaverkefnunum háttar öðru vísi til. Í frétt Morgunblaðsins kom fram að endurgreiðsla vegna kostnaðar við kvikmyndaframleiðslu hér á landi á árinu nemur tæpum 1,4 milljörðum króna. Framleiðendur kvikmynda og sjónvarpsefnis eiga kost á endurgreiðslu úr ríkissjóði á allt að 25% framleiðslukostnaðar sem fellur til hér á landi. Miðað við það hlutfall má áætla að kostnaður við framleiðslu þeirra kvikmyndaverkefna sem nutu endurgreiðslu hér í fyrra hafi alls verið ríflega 5,4 milljarðar króna segir í fréttinni. Útlit er fyrir að árið í ár verði það þriðja stærsta frá upphafi þegar horft er til endurgreiðslu, samkvæmt yfirliti á vef Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.
Síðustu 10 ár hafa þannig verið greiddar 9.540 milljónir í kvikmyndastyrki af þessu tagi. Það er gert til þess að draga að verkefni. Nokkuð sem allir græða á, er okkur sagt. Nú er því reyndar haldið fram að þessir styrkir séu of lágir, það þurfi að hækka endurgreiðsluna verulega vegna þessa að aðrar þjóðir veita enn meiri styrki og endurgreiðslur. Eða eigum við að kalla þetta skattaafslátt? Svona til að fá réttu stemmninguna en þetta er oft stórauðugt fólk úr henni Hollywood sem stendur að þessum verkefnum. Tom Cruise og fleiri. Þess má geta að á síðasta ár greiddi útgerðin á Íslandi 6.629 milljónir í veiðigjöld og þótti mörgum of lítið. Það kemur ofan á allar aðrar skattgreiðslur sem útgerðin borgar eins og önnur fyrirtæki.
Þannig er nú það. Kvikmyndaiðnaðurinn eins og mörg önnur starfsemi hér á landi fær feikilegan stuðning frá skattgreiðendum til að afla sér verkefna á meðan útgerðin þarf sjálf að kosta leitina að loðnunni. Og greiðir svo sérstakt auðlindagjald fyrir að veiða þann fisk sem hún finnur sjálf. Kæmi til greina að setja auðlindagjald á kvikmyndaiðnaðinn, nú eða aðra sem nota þá auðlind sem fellst í náttúru landsins? Það er ekki verið að mælast til þess hér, aðeins að benda á samanburðinn.