c

Pistlar:

21. desember 2020 kl. 15:51

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sagan af bóluefninu dýrmæta

Um fátt er meira rætt þessa daganna en væntanleg bólusetning vegna kórónuveirunnar en árangursrík þróun og framleiðsla á bóluefni hefur blásið fólki þá von í brjósti að unnt verði að stöðva framrás veirunnar og gera líf fólks aftur eðlilegt. Það er því ekki nema von að almenningur fylgist grannt með fyrirhugaðri bólusetningu hér á landi enda mátti skilja stjórnvöld fyrir skömmu þannig að með vorinu yrði komið hér almennt hjarðónæmi og þannig yrði hættunni bægt frá okkar samfélagi sem og öðrum. En tíðindi undanfarna daga hafa verið þannig að nú er afskaplega erfitt að greina hvað verður og það er skiljanlegt að fyrrverandi menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, tali um „upplýsingaóreiðu“ um bólusetningaráformin. Það eru reyndar mjög alvarlegar athugasemdir en sóttvarnayfirvöld og heilbrigðisráðuneytið hafa lítið gert til að skýra stöðu mála síðan Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, upplýsti síðasta miðvikudag að meðal landsmanna væru óraunhæfar væntingar um hjarðónæmi. Það kallaði á hörð viðbrögð um allt þjóðfélagið og augljóst var að þetta var önnur nálgun en stjórnvöld höfðu gefið til kynna áður.covid

Satt best að segja eru yfirlýsingar ráðmanna óljósar og fréttatilkynningar opinberra aðila líka. Það að forsætisráðherra skyldi ræða við Ursula von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í morgun í síma virkar eins og það eigi að bjarga málum á æðstu stöðum núna. Í fréttum segir að þær Katrín og Ursula hafi farið „yfir dreifingu bóluefna til Íslands.“ En þessar fréttir gera lítið til að útskýra hver ber ábyrgð á öflun og dreifingu bóluefnisins til Íslendinga og tilkynningin sem birtist á vef Stjórnarráðsins í dag segir í raun ekkert nýtt.

Ákvarðanatökuóreiða ESB


Íslendingar eru jákvæðir gagnvart bólusetningu en 92% þjóðarinnar hyggst taka þátt í henni. Forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sagði að það væri hægt að bólusetja 70 þúsund manns á dag og klára þannig bólusetninguna á viku. En til þess þarf bóluefnið að vera til staðar og þegar þessi ummæli féllu hjá forstjóranum héldu landsmenn almennt að bólusetning myndi klárast eða fara langleiðina á fyrsta ársfjórungi 2021. Nú eru hins vegar áhöld um hve hratt við fáum bóluefni og auðvitað verðum við að fylgjast með því hvaða efni eru leyfð. Augljóslega er vaxandi óánægja innan Evrópusambandsins um þróun mála eins og birtist í grein þýska tímaritsins Der Spiegel sem endurbirt var að hluta á mbl.is. Sú grein afhjúpar ákvarðanatökuóreiðu innan Evrópusambandsins þar sem hin einstöku lönd berjast fyrir hagsmunum sínum bak við tjöldin. Það er óþolandi ef við erum að dragast inn í þá baráttu.

Í frétt heilbrigðisráðuneytisins í dag segir: „Framkvæmdastjórnin kveður á um hve mikið ríkin fá og er þar alfarið byggt á hlutfallslegri úthlutun miðað við höfðatölu hverrar þjóðar. Þetta á við um bóluefni Pfizer líkt og annarra framleiðenda. Allar þjóðir fá til að byrja með 10.000 skammta. Síðan hefst úthlutun samkvæmt afhendingaráætlun.“ Þessar upplýsingar segja okkur það eitt að hver þjóð verður að sækja fram og tryggja sér efni. Evrópusambandið veitir hugsanlega ákveðna tryggingu og í gegnum það hafa íslensk stjórnvöld tryggt sér aðild að sex bóluefnum. Það leysir ekki málið ef menn vilja ná hjarðónæmi hratt en það þarf ekki að taka fram hvaða áhrif það hefur á efnahaginn að það takist. Segja má að ferðamannavertíðin næsta sumar sé undir.

Óljós afhendingaáætlun

Í sérstakri umræðu á Alþingi um afhendingu bóluefnisins á föstudaginn var sagði Svandís Svavarsdótt­ir heil­brigðisráðherra að afhendingaráætlun á bóluefni frá Pfizer hér á landi lægi fyrir, fyrir fyrsta ársfjórðung 2021. Að meðaltali munu berast til Íslands 3.000 skammtar á viku af bóluefni frá Pfizer frá 27. desember og út mars. 3.000 skammtar á viku nægja fyrir 1.500 manns, miðað við að bólusetja þurfi hvern og einn tvisvar. Til að ná hjarðónæmi þarf að bólusetja um 65 til 70% þjóðarinnar að því er komið hefur fram hjá landlækni, eða um 250.000 manns. Augljóslega mun taka mjög langan tíma að ná hjarðónæmi ef bara á að treysta á Pfizer. Sem betur fer má hafa vonir um fleiri efni en aðeins Pfizer og Moderna eru komnir með leyfi fyrir sínum lyfjum, reyndar aðeins það fyrrnefnda innan Evrópusambandsins.

Við sama tilefni sagði ráðherra að bóluefni frá AstraZeneca og Moderna mun að öllum líkindum einnig vera tilbúið til afhendingar á fyrsta ársfjórðungi og bætti við: „Hér er um að ræða vöru sem að er meiri eftirspurn eftir heldur en nokkurri vöru á nokkrum tíma í sögunni. Það er að segja bóluefni gegn Covid-19 sem hvert einasta mannsbarn horfir eftir og bíður eftir með eftirvæntingu.“ Orð að sönnu en hvar stöndum við og hafa íslensk yfirvöld gætt hagsmuna landsmanna af nógu mikilli einurð? Og þá er ljóst að virkni efnanna er ólík. Eru íslensk yfirvöld að treysta um of á AstraZeneca-bóluefnið sem hefur minni virkni? Þeir hafa lent í hinum mestu vandræðum með prófanir á sínu bóluefni og virkni þess ekki næstum því jafn góð og hjá öðrum. Eðlilegt er að menn spyrji sig hverjum heilbrigðisyfirvöld ætli bóluefni með 62% virkni þegar önnur bóluefni eru til með 95% virkni?

Langt á eftir nágranalöndunum

Fréttir Bloomberg fréttastofunnar frá því um helgina hafa eðlilega valdið miklum óróleika en þar var því haldið fram að Íslendingar væru langt á eftir öðrum varðandi „þekju“ bóluefnisins, þ.e.a.s. hve mikið hefði verið tryggt fyrir landsmenn. Á þeim tíma voru Íslendingar sagðir með aðeins 28% landsmanna dekkaða á meðan aðrar norðurlandaþjóðir væru með 170 til 180% dekkun. Kanadamenn höfðu farið lengst í að tryggja sér efnið með ríflega 500% dekkun. Íslensk stjórnvöld sendu athugasemd til Bloomberg sem uppfærði frétt sína, þannig að Ísland fór í 61% dekkun. Enn erum við þó verulegir eftirbátar Evrópu og hinna norðurlandanna. Af hverju staðan er svona hefur ekki verið svarað.

En eins og staðan er núna virðumst við Íslendingar þurfa að treysta á bóluefnið frá Pfizer á fyrsta ársfjórungi næsta árs en þær sendingar geta dugað til að bólusetja 85 þúsund manns. Við verðum þá að vona að annað bóluefni komi hratt inn á öðrum ársfjórðungi til þess að við töpum ekki hálfu ári í efnahagslegri endurreisn landsins.