c

Pistlar:

9. janúar 2021 kl. 16:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vald til að slökkva á umræðunni


Það er hægt að hafa mörg orð um þau undarlegheit sem undanfarna daga hafa átt sér stað í bandarískum stjórnmálum. Ofbeldisfull mótmæli fóru úr böndunum og lita síðustu valdadaga fráfarandi forseta sem hverfur úr embætti fullkomlega einangraður. Það er einstakur atburður að uppvöðslusamur skríll (pro-Trump mob skrifar The New York Time) skyldi komast inn í bandaríska þinghúsið en það er líklega ofsagt að kalla það valdarán. Fólk í búningum sem gengur um og tekur sjálfur (e.selfie) er kannski ekki líklegt til stórræðanna en minnir þó á múginn sem braust inn í Versali á sínum tíma og speglaði sig svo í kjólum Mariu Antoinette. Atburðarásin þá og nú markast af hughrifum frekar en rökhugsun.valdarán

En þó að heimsbyggðin fylgist með atburðum sem þessum í beinni útsendingu þá getur verið erfitt að komast í gegnum kliðinn sem hljómar í kjölfarið. Hvað gerðist í raun og veru og hver ber ábyrgð á því sem gerðist? Frásagnir fréttamanna skipta minna máli en áður þar sem allir hamast við að skrifa sína sögu á samfélagsmiðlunum og myndamagnið er gríðarlegt. Fjöldi lifandi myndskeiða er yfirþyrmandi, upplýsingamagnið svo mikið að það elur af sér upplýsingaóreiðu, eins mótsagnakennt og það nú er. En augljóslega er hafið kapphlaup um að segja söguna af því sem gerðist. Þetta sjáum við frá einni stund til annarrar en hér heima á Íslandi hafa atburðirnir vestra orðið mörgum tilefni til að rifja upp þá sársaukafullu atburðarás sem varð í tengslum við búsáhaldabyltinguna í kjölfar bankahrunsins 2008. Forvitnilegt hefur verið að fylgjast með tilraunum til að ramma inn ákveðna söguskoðun um þessa tíma eins og bent hefur verið á hér áður í pistli. Líklega skrifa sigurvegararnir söguna eftir allt saman.

Valdaskipti hér - ofbeldi þar

Á þeim tíma voru samfélagsmiðlar ekki eins fyrirferðamiklir en menn gerðu sitt besta til að skrá söguna. Eftirminnilegt var til dæmis að fylgjast með sagnfræðingum (sem vanalega bíða heldur lengur eftir að þeirra tími komi) setja upp vefsíður og spjallahópa þar sem hraðsoðin sagnfræði fékkst fyrir lítið, þetta varð svona innlifunarsagnfræði sem virtist ganga vel upp á þeim tíma en hefur lítið spurst til síðan. Þar varð til bergmálshellir stundarumræðunnar sem átti ekkert skylt við sagnfræði. Pistlaskrifari lenti fyrir stuttu á spjalli við mann sem studdi þá sem réðust á Alþingishúsið og aðrar opinberar byggingar á sínum tíma hér á landi og sá lítið athugavert við það. Í framhaldi þess vöknuðu vangaveltur um hvort margir litu svo á að þeir sem réðust á alþingishús væru mótmælendur hér á Íslandi en ofbeldismenn í henni Amaríku? Umræddur maður er áhugaljósmyndari og tók mikið af myndum á dögum búsáhaldabyltingarinnar. En augljóslega bregst hlutlægnin honum því enn þann dag í dag birtir hann aðeins þær myndir sem honum henta. Hann skuldar engum skýringar á því, er ekki „viðurkenndur“ upplýsingamiðlari í þeim skilningi en sannarlega frekur til fjörsins í umræðunni. Og hefur sín áhrif.

Ekki tíst frá Trump

En víkjum sögunni aftur til Bandaríkjanna. Fráfarandi forseti, Donald Trump, beinlínis hófst til vegs og virðingar fyrir tilstyrk samfélagsmiðla. Um notkun hans á Twitter þarf kannski ekki að hafa mörg orð. Með Twitter að vopni sneiddi hann framhjá hliðvarðahlutverki fjölmiðla og talaði beint til kjósenda. Þetta gekk svo vel hjá honum að á sama tíma fyrir ári síðan benti ekkert annað til en að hann hefði mjög góða möguleika á að vera endurkjörinn. En í dag er hann einangraður og forsmáður og hefur þar að auki verið sviptur kjóli og kalli á samfélagsmiðlum. Það er einfaldlega búið að slökkva á honum! Ríkustu menn heims, sem eiga samfélagsmiðlana og í sumum tilfellum fjölmiðlana einnig, hafa ákveðið að nú sé komið nóg. Síðustu daga í embætti mun ekki heyrast tíst frá Trump! Þegar haft er í huga að þessir sömu aðilar létu miklu meiri fjármuni renna í kosningasjóði Joe Bidens en Trump birtist önnur hlið á þessu máli. Og á því eru margar hliðar nú þegar spyrst að ekki hafi aðeins verið slökkt á Trump heldur einnig tugum þúsunda manna sem sem styðja hann.

„Þetta er í raun eins og einkafyrirtækið Sýn myndi tilkynna að Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar mætti ekki lengur hringja í farsíma vegna þess að hann leggur til eignaupptöku,“ sagði annar Tvítari og vissulega velta menn fyrir sér hvernig það gangi fyrir sig að slökkva á sjálfum forseta Bandaríkjanna þó orð og athafnir hans síðustu vikur hafi farið út yfir allan þjófabálk. En uppákomur sem þessar eru ekki einstakar þó við eigum ekki að venjast þeim frá Bandaríkjunum.

Út um allan heim eru einræðisherrar og ólýðræðisleg stjórnvöld að loka á þjóðfélagsumræðu um leið og þau nýta sér sjálf samfélagsmiðla. Ekki þarf að hafa mörg orð um hvernig íslömsku hryðjuverkasamtökin Al-Kaída nýttu sér samfélagsmiðla til að afla sér fylgjenda, liðsmanna og koma áróðri sínum á framfæri. Óumdeilt er að Kínverjar hafa náð hve mestum árangri í að stýra umfjöllun um sig en stjórnvöld þar hafa öll vopn á hendi enda engin lýðræðisleg umræða í Kína. Þeir einfaldlega gera tilraun til að stýra allri umræðu um sjálfan sig og hafa má í huga að um leið og atburðirnir gerðust í Washington gengu Kínverjar og Evrópusambandið frá risavöxnum viðskiptasamningi, í báðum tilfellum án mikillar opinberrar umræðu.