Þegar notkun stærstu samskiptamiðla heims er skoðuð sést hve gríðarleg ítök samfélagsmiðlar og önnur samskiptaforrit hafa á daglegt líf fólks. Segja má að heimurinn bindist böndum í gegnum þessa miðla sem eru nánast upphaf og endir alls í umræðunni. Allir eru að skrifa og tjá sig og allt er vistað í gagnabankanna. Sumu dreifir fólk af fúsum og frjálsum vilja, annað er dregið fram og varðveitt. Einstaklingur sem gerir glappaskot einhversstaðar á lífsleiðinni getur nánast gengið að því vísu að myndband af því verður til áfram og er innan seilingar ef einhver telur sér hag í að nýta það síðar. Sama má segja um fréttir og umfjallanir, allt varðveitist, slúðrið líka. Sumir fjölmiðlar gera sér það beinlínis að leik að setja upp skrítnar fréttir um einstaklinga og þegar þeir eru komnir með nokkur ásættanleg tilvik í sarpinn þá er skrifuð fréttaskýring sem ætlað er að afhjúpa hegðunarmynstur viðkomandi eins og það birtist í fréttum! Það er ekki nema von að til er fólk og samtök sem berjast fyrir réttinum til að gleymast í hinni stafrænu veröld sem umlykur nútímamanninn. Varla er nokkur svo aumur að hann sé ekki tengdur með einhverjum hætti. Stundum er snjallsími það eina sem flóttamenn nútímans eiga þegar þeim skolar að ströndum nýs lands.
Hér í pistli var fjallað um getu samfélagsmiðlanna til að slökkva á umræðunni og stýra henni þannig eftir vilja þeirra sem yfir þeim ráða. Á meðan ekki liggur fyrir hvernig ákvarðanir um að slökkva á fólki eru útskýrðar verður að telja að það sé einfaldlega vilji viðkomandi fyrirtækis. Kaldhæðið fólk hefur reyndar bent á að í hinum alsjáandi stafræna heimi hafi þó ekki tekist að vernda börnin okkar fyrir níðingum, hverju sem það sætir. Ef hægt er að slökkva nánast algerlega á valdamesta manni heims er þá ekki hægt að finna þá sem dreifa glæpsamlegu efni, efni sem gengur geng siðferði alls hugsandi fólks?
Kínverjar loka og loka
En dags daglega munu um 2,7 milljarðar manna nota Facebook með einum eða öðrum hætti eða um 35% jarðarbúa. Þetta er helmingi fleiri en búa í fjölmennasta ríki heims. Sjálfsagt væru þeir fleiri ef Kínverjar hefðu ekki brugðið á það ráð að takmarka og nánast loka fyrir veituna á sínu yfirráðasvæði í viðleitni til að stýra sjálfir hvað er skrifað og hugsað á þeim samfélagsmiðlum sem Kínverjar hafa aðgang að. Kínversk yfirvöld beita öllum þeim meðölum sem finnast í vopnabúri einræðisríkisins til að hefta og takmarka tjáningu fólks. Þeir sem eru velviljaðir Kínverjum segja að ritskoðunaráráttan snúi aðeins að pólitík en hver skilgreinir það?
Næst á eftir Facebook kemur myndbandadreifiveitan YouTube sem hefur verið í eigu Google auðhringsins síðan 2006. YouTube er með um tvo milljarða notenda eða jafn mikið og samskiptaforritið WhatsApp sem er í eigu Facebook. Mark Zuckerberg, stofnandi og aðaleigandi Facebook, keypti WhatsApp, 2014 en einhverjir hafa gert athugasemdir við að það hefur aldrei skilað hagnaði og krafið Mark Zuckerberg um skýringar á því. Hann svarar með því að tala um hagræði og samlögun en aðra grunar að hann hafi einfaldlega viljað kaupa samkeppni í burtu. Í það minnsta stýra henni. Skammt undan er svo Facebook Messenger forritið með 1300 milljónir virkra notenda, einnig undir stjórn Zuckerberger.
Kínverska samskiptaforritið TikTok hefur mikið verið í fréttum undanfarin misseri, meðal annars vegna baráttu fráfarandi forseta Bandaríkjanna, Donalds Trump, gegn því að starfsemi þess sé leyfð í Bandaríkjunum. Trump hélt því fram að TikTok væri í raun kínverskt njósnaforrit sem meðal annars hefði það hlutverka að dreifa röngum upplýsingum, afvegaleiða umræðuna og safna gögnum um Bandaríkjamenn sem kínversk yfirvöld gætu nýtt sér. TikTok hefur rækilega hefnt sín undanfarna daga og stokkið á vagninn með öðrum samfélagsmiðlum sem banna dreifingu efnis frá Trump. Hefndin hlýtur að vera sæt þegar þeir segjast ekki geta ábyrgst efni frá Trump! Hatursfull ummæli og hvatningar til ofbeldis eiga ekki heima á síðum TikTok, segir í yfirlýsingu félagsins sem ætlar að leyfa andstæðingum Trump að tjá sig áfram.
Ekki vera vondur!
Google, sem nánast ræður því hvað við gerum á netinu og hvað vil finnum þar, fór af stað með mottóið; ekki vera vondur („don’t be evil“). Það var slegið af fyrir rúmum tveimur árum og nú ætlast enginn til þess að félagið leiði þá siðabót sem eigendur þess virtust ætla sér í árdaga. Voru þeir nokkurn tímann góðir, bjuggu þeir ekki bara til gott dót, segja fyrrverandi aðdáendur þeirra, eilítið kalnir á hjarta. Þeir Larry Page og Sergey Brin, sem stofnuðu fyrirtækið Google árið 1998, stigu til hliðar fyrir rúmu ári síðan og stýra veldinu nú í gegnum Alphabet, móðurfyrirtæki Google. Þeir eru undantekningalaust á lista yfir 10 ríkustu menn heims ásamt Mark Zuckerberg sem stofnaði Facebook árið 2004. Efstur trónir Jeff Bezos, stofnandi, Amazon og mikilvirkur fjölmiðlaeigandi og gagnrýnandi Trumps eins og vikið var að hér.
Lokunin undanfarið minnir okkur að samfélagsmiðlar eru tæki og tól fyrir þá sem ætla sér að hafa pólitísk áhrif. Mótmælagöngur og mótmælastöður spretta ekki upp af sjálfu sér. Hugsanlega hefði búsáhaldabyltingin orðið smærri í sniðum ef ekki hefðu verið samfélagsmiðlar. Fyrirbæri eins og Jæja-hópurinn virðist þannig geta blásið til mótmæla án þess að vera krafinn skýringa á því hver stendur að baki honum. Fjölmiðlar segja hópinn vel til vinstri, en sé ekki með neinn opinberan talsmann og skrif í hans nafni séu ávallt nafnlaus. Þetta er tekið sem lítið dæmi um þá þeytivindu sem staðreyndir og upplýsingar þurfa að ferðast um í umræðu dagsins í dag. Þannig vaknar heimurinn inn í veruleika samfélagsmiðlanna á hverjum degi og sofnar út frá honum að kvöldi. Hugsanlega má taka undir með meistara Þórbergi sem sagði í Bréfi til Láru:
„Á hverjum morgni, er eyru mín fagna lífi nýs dags, á hverju kvöldi, þegar ég loka augum mínum frá ljósi þessa ljúfa heims, þá bið ég föður minn á himnum að gefa öllum mönnum vilja, mátt og vizku, vilja til þess að leita sannleikans, vizku til þess að finna hann og mátt til þess að bera honum vitni.“