c

Pistlar:

21. janúar 2021 kl. 17:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bandaríkin: Tékkinn er á leiðinni í pósti!

Joe Biden, 46 forseti Bandaríkjanna, ákvað 14. janúar síðastliðin, nokkrum dögum áður en hann tók við embætti, að senda öllum skattgreiðendum í Bandaríkjunum 1.400 dollara til að örva hagkerfið og styðja við almenning. Þetta jafngildir 180 þúsund íslenskum krónum. Þetta kostar um 1.900 milljarða Bandaríkjadala og er þriðji örvunarpakkinn (stimulus check proposal) sem stjórnvöld hafa samþykkt til að koma efnahagslífinu af stað í kjölfar kórónuverufaraldursins. Með þessum pakka verður búið að setja sem samsvarar tæplega þriðjungi landsframleiðslu Bandaríkjanna, eins og hún var fyrir kórónaveiruna, í stuðningsaðgerðir.

Þegar þú ert í þeim „business“ að gefa peninga þá er eins gott að gera það almennilega! Það vissi Donald Trump sem í október síðastliðnum lagði fram tillögu um að deila út 1.500 milljörðum Bandaríkjadala sem hann auðvitað vildi koma út til kjósenda fyrir kosningar. Demókratar í þinginu blokkeruðu frumvarp Trumps sem missti að lokum af lestinni. Þetta brást rétt eins vonir hans um að bóluefni yrði komið í umferð fyrir kosningar. Hvort það skipti máli er óvíst en ein höfuðástæða fyrir því að hann tapaði kosningunum verður að skrifast á viðbrögð hans við kórónuveirufaraldrinum. Með því að birtast í tíma og ótíma á skjá landsmanna að deila við andsnúna fjölmiðla varð hann andlit ósigursins gagnvart veirunni. Og dró þannig athyglina frá viðbrögðum og klúðri einstakra ríkja sem ráða mestu um hvernig heilbrigðiskerfið bregst við.dollar

En aftur að örvunaraðgerðum stjórnvalda. Dollararnir 1.400 sem til stendur að senda á kjósendur bætast við þá 600 dollara sem þingið var búið að samþykkja skömmu fyrir jól. Þá var gert mikið úr því að Trump vildi ekki samþykkja pakkann en ástæða fyrir því hafði upprunalega verið sú að hann vildi stærri pakka sem demókratar blokkeruðu. En einfaldari atburðarás en þetta getur skolast til í meðförum íslenskra fjölmiðla enda oft erfitt að ráða í þann hráskinnsleik sem stundaður hefur verið í báðum deildum þings í baráttunni við fyrrverandi forseta, Donald Trump.

Að senda fólki pening

En það er ekki einföld aðgerða að senda skattgreiðendum peninga en það er einmitt það sem á að gera. Fólk á að fá tékka í hendurnar og framkvæmdin er ekki einföld frekar en Leiðréttingin hér heima á sínum tíma. Sú aðgerð tókst þó vel enda var farin sú leið að greiða inná lán fólks, það fékk engin pening í hendurnar enda var í þeirri aðgerð miðað við að hleypa ekki af stað verðbólgu. Óhætt er að segja að það hafi gengið eftir. Allir sem höfðu haft verðtryggð lán yfir ákveðið tímabil, fengu greiðslu inná lán sín. Þannig var jafnræðis gætt og verðbólga fór ekki af stað.

Eins og áður sagði hóf Trump slíkar stuðningsaðgerðir strax í mars á síðasta ári og þá kom fyrsti stuðningspakkinn (The Coronavirus Aid, Relief, and Economic Security Act, einnig þekktur sem CARES Ac)í mars. Sá pakki var up á 2.200 milljarða dala og var undirritaður af forsetanum 27. mars 2020. Pakkinn var margskiptur en í honum var meðal annars eingreiðsla upp á ríflega 1.200 dali til fjölskyldna með börn og sá hluti pakkans kostaði 300 milljarða dala. Einnig voru 260 milljarðar dala notaðir til að auka við atvinnuleysisbætur.

Með þessu má segja að verið sé að beita nýjum útfærslum í hagsögunni til örvunar hagkerfisins og stuðnings við einstaklinga. Hvernig sem tekst skiptir miklu máli en líklega eru fá ríki í sömu aðstöðu og Bandaríkin til að ráðast í svona aðgerð. Uppbygging Evrópusambandsins útilokar hana líklega innan bandalagsins.