Það er merkilegt að venju að rýna í íslenska hagkerfið og þá kannski sérstaklega eins og það birtist í fyrirtækjaumhverfinu þessa daganna. Enn heldur kauphallarvísitalan áfram að hækka og flest félög þar hafa hækkað umtalsvert frá því kórónufaraldurinn skall á okkur fyrir ári síðan. Á sama tíma hefur ferðaiðnaðurinn, okkar helsta útflutningsgrein, nánast stöðvast. Stóran hluta af síðasta ári beindust áhyggjurnar að því hvernig Icelandair myndi reiða af en eftir óvenju velheppnað hlutafjárútboð í september síðastliðnum virðist fyrirtækið hafa komist í skjól og skiptir litlu þó starfsemin sé ekki nema brot af því sem áður var. Fjárfestar, stórir sem smáir, þyrptust að félaginu og útboðið virðist hafa endurvakið áhuga smærri fjárfesta á íslenskum hlutabréfamarkaði. Nú laumuðust þeir út úr sprengjuheldum kjöllurunum og réttu deyjandi flugfélagi krónurnar sínar.
Því má velta fyrir sér hvort hækkun í kauphöllinni sé ekki fremur því að þakka að nú eru fleiri krónur að eltast við hlutabréfin fremur en að afkoma fyrirtækjanna kalli á hækkanir? Auðvitað er það ekki einhlítt en það vantar ekki mikið uppá að hægt sé að tala um bóluástand. Sem felur í sér efasemdir um að það sé innistæða fyrir þessum hækkunum. Um leið verðum við að horfa til hinnar þyngri undiröldu hagkerfisins þar sem skiptast á veruleiki fyrirtækjaumhverfisins,sem virðist sigla inn í gjaldþrot og endurskipulagningu, og loftkennt ástand peningastefnunnar þar sem vegast á seðlaprentun og óljósar verðbólguvæntingar. Ekki þýðir að reyna að ráða í stemmningu á peningastefnufundum Seðlabankans, þar eru allir búnir að bera hressir og brattir síðasta árið. Og því ekki, því þrátt fyrir veiru og ytri óáran hafa peningar aldrei verið ódýrari og lánskjör aldrei betri sem ætti að koma hinum skuldugu vel. Það þýðir á hinn bóginn að það er erfitt að fá ávöxtun, já nema þá á hlutabréfamarkaðinum sem blæs nú út. Að geyma peninga undir koddanum virðist ekki lengur tóm vitleysa þó það sé það vissulega!
Summa lastanna
Það er kannski klisja að kalla þetta ástand bólu en það er erfitt að rýna í hið raunverulega ástand hagkerfisins. Margir efast um allt og telja að spilling fylgi öllum aðgerðum á markaði og þó aðferðunum sé breytt þá breytist bara spillingin og sé jöfn og áður. Það fylgir því spilling að ríkið eigi Íslandsbanka og það fylgir því spilling ef hann er seldur, að ekki sé talað um ef kaupandinn myndi nú hagnast. Með öðrum orðum; mannlegir plúsar eigi jafnan mínusa sem spegli þá. Þetta er lögmálið um summu lastanna, sem sögð er vera núll þegar upp er staðið. Þeir sem hugsa svona geta efast um allt og efasemdarmaðurinn virðist oft hafa nokkuð til síns máls. Það er gagnlegt að draga það sem gætu verið viðtekin sannindi í efa en það er líka ódýrt að standa í sporum tómhyggjumannsins og benda ekki á neina aðra valkosti. Það er erfitt að selja ríkisbanka í slíku ástandi. Þannig virðist Samfylkingin alltaf vera á móti sölu ríkisbankans, bara rökin breytast.
Páll Skúlason heimspekingur velti mann mest fyrir sér gagnrýnni hugsun og sagði í bók sinni Pælingar: „Er hugsanlegt að skynsemin sé áhrifalaus þegar á reynir, að sjálfstæð gagnrýnin hugsun manna sé tóm blekking þegar upp er staðið?“ Þó að almennt sé gagnrýnni hugsun hampað þá getur hún leitt menn í ógöngur, sérstaklega þeir sem láta annað hvort þrjósku eða fordóma stýra för og sveipa um hana skikkju gagnrýnar hugsunar. Við verðum nefnilega að gera kröfur til gagnrýnnar hugsunar, sumir eru einfaldlega fljótir að finna öllum málum allt til foráttu. Þegar upp er staðið segir það kannski fátt.
Hagkerfið er ekki ein heild
Því er það svo að eftir því sem rýnt er nánar í hagkerfið og af meiri þekkingu, þess erfiðara finnst mörgum að sjá að það gangi upp í heild sinni. En það er röng nálgun. Hagkerfið er ekki ein heild eða einhverskonar afrakstur af línulegum vexti byggðum á skynsömum ákvörðunum. Hagkerfið er safn margra skoðana og ólíkrar nálgunar ótölulegs fjölda fólks sem hefur hvert og eitt ólíka sýn og skoðun. Þeir sem halda öðru fram eru í leit að kenningum sem ná yfir heildarhugsun, einhverskonar alræðishyggju eins og birtist í sósíalískum hagfræðikenningum. Þó þær geti útskýrt félagsleg tengsl þá hafa þær ekkert forspárgildi um hagkerfi sem byggist á frjálsri hugsun og sjálfstæðum ákvörðunum.