c

Pistlar:

21. febrúar 2021 kl. 18:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Mikilvæg sýn á innviðauppbyggingu

Allt síðan bankahrunið dundi yfir árið 2008 hefur verið rætt um að hinir aðskiljanlegustu innviðir á Íslandi séu í lélegu ástandi eða jafnvel ónýtir. Auðvitað má alltaf deila um þarfirnar en staðreyndin er sú að stundum verður þróunin í hagkerfinu þannig að þarfirnar skapast áður en þeim er fullnægt. Þannig má segja að straumur ferðamanna hingað til lands hafi kallað á ákveðin viðbrögð í samgöngukerfinu, bæði því sem tengist flugi og bílaumferð. Um skeið fengu landsmenn djarfar myndir af stórfenglegri uppbyggingu hins opinbera rekstrarfélags Ísavía á Keflavíkurflugvelli sem miðaðist við að taka á móti margfalt þeim fjölda sem þá kom til landsins. Nú er ljóst að kórónuveirufaraldurinn seinkar öllu um mörg ár og jafnvel áratugi þannig að það verður tæpast knýjandi að byggja upp þessa aðstöðu strax. Og kannski þakkarvert að framkvæmdir skyldu ekki hafa verið farnar af stað.umferð

Mikilvægi Sundabrautar

Sama má segja um vegakerfi landsins, á tíma virtist sem það gæti illa fullnægt þörfum þeirrar miklu aukningar umferðar sem fylgdi ferðamönnum. Þar eiga sömu rök við og með flugvöllinn, innrásinni hefur verið blásin af eða í það minnsta frestað. En þar er hins vegar þörf á að taka til hendinni til að styðja við okkur sem búum hér að staðaldri og þá sérstaklega það atvinnulíf sem hér er. Hér á þessum vettvangi hefur alloft verið vikið að þessu áður og sérstaklega bent á uppbyggingu Sundabrautar og mikilvægi hennar. Í henni birtast safnast saman margvísleg tækifæri sem ástæða er til að gefa gaum.

Augljóslega dugar ekki sú stefnumörkun sem birtist í Samgönguáætlun og fær stimpil frá fjármálaráðuneytinu. Þörf er að taka til hendinni og nýlegt innlegg Samtaka iðnaðarins þar um er mikilvægt en í síðustu viku kynntu samtökin nýja skýrslu og efndu til umræðu um hana. Þar er bent á að uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða er umtalsverð hér á landi. SI áætla hana 420 milljarðar króna eða 14,5% af landsframleiðslu og 9,3% af endurstofnvirði innviðanna. Þetta eru vissulega háar upphæðir en ástæða til að halda að þær skili sér margfalt til baka. Þrátt fyrir allt erum við ekki mjög mörgum árum á eftir og undanfarið höfum við lokið stórum verkefnum sem munu skila til baka næstu áratugi.

Vegir og fráveitur standa verst

Í skýrslunni er bent á að með uppsafnaðri viðhaldsþörf sé átt við hvað þarf til að koma viðkomandi þætti innviða í ástandseinkunn 4, þ.e. í ástand þar sem staða þeirra er góð og eðlilegt viðhald þarf til að halda stöðu þess óbreyttri. Tæplega 57% af uppsafnaðri viðhaldsþörf má rekja til þátta innviða sem fá ástandseinkunnina 2. Af þeim er uppsöfnuð viðhaldsþörf mest í vegakerfinu eða um 160–180 milljarðar króna þar sem um er að ræða uppsafnaða þörf bæði í þjóðvegakerfinu og á sveitarfélagavegum. Einnig er umtalsverð uppsöfnuð viðhaldsþörf í fráveitum, 50-85 milljarðar króna. Viðhaldi innviða hefur verið ábótavant á þessum sviðum. Segir í skýrslunni.

Mikil þörf á höfuðborgarsvæðinu

Víða um land eru hættulegir vegkaflar svo dæmi sé tekið og á höfuðborgarsvæðinu er þörf á því að bæta samgöngur talsvert segir í skýrslunni. Þar er bent á að stór hluti fráveitukerfisins yfir 50 ára gamall og er afkastagetu þess víða ófullnægjandi. „Í síðustu niðursveiflu sem hófst 2008 slógu stjórnvöld á frest nauðsynlegu viðhaldi innviða og öðrum fyrirhuguðum framkvæmdum. Fjárfesting hins opinbera var í mörg ár langt undir langtímameðaltali. Átak hins opinbera í þessum málum allra síðustu ár hefur skilað auknum fjárfestingum. Þrátt fyrir aukninguna hefur hlutfall þessara fjárfestinga af landsframleiðslu verið undir eða við langtímameðaltal og fer nú lækkandi,“ segja skýrsluhöfundar.

Þeir telja að þetta geri það að verkum að ástandið hefur ekki lagast frá því síðast var lagt mat á uppsafnaða þörf í innviðakerfinu árið 2017. Matið á uppsafnaðri viðhaldsþörf innviða hefur hækkað um 2% á föstu verði á tímabilinu frá 2017 og farið úr 14,2% af landsframleiðslu í 14,5%. Má því segja að verkefnið sé viðlíka stórt nú og það var árið 2017. Semsagt; mikið verk bíður en ekki óyfirstíganlegt. Við getum gjarnan horft til stórhug Færeyinga ef okkur vantar hvatningu.