c

Pistlar:

1. mars 2021 kl. 21:46

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hvað varð um kínverska sendiherrann?

„Svona alræðisríki kemst upp með allt. Eins og þetta með Ma Jisheng sendiherra,“ segir Unnur Guðjónsdóttir ferðamálafrömuður í helgarblaðsviðtali við Fréttablaðið. Blaðamaðurinn sem tekur viðtalið segist verða að viðurkenna að hann kemur af fjöllum. Hvað með hann, spyr blaðamaðurinn forviða? Og Unnur svarar.

„Hann var sendiherra hér í upphafi síðasta áratugar. Ég hef alltaf átt alveg sérstaklega góð samskipti við sendiráðið hérna á Íslandi. Hann Ma Jisheng var búinn að koma hingað heim til mín og sendiráðið búið að gefa mér ægilega fallega jólagjöf, ekta silkiefni. Svo hélt ég upp á kínverska nýárið hér heima árið 2014, eins og ég geri alltaf, og var búin að bjóða þeim hjónum hingað skriflega,“ segir Unnur í viðtalinu og bætir við: „Ég var alltaf að bíða eftir að sendiherrabíllinn kæmi en þau létu aldrei sjá sig, sem var mjög ólíkt þeim. Þá er ekki annað en ég kemst að því seinna, hvort það var þennan sama dag eða daginn áður, að þá fóru þau úr landi. Og það hefur ekki spurst til þeirra síðan.“

Hvað varð um Ma Jisheng?

Nú? Ekki heldur úti? - spyr blaðamaður og Unnur svarar: „Þeir í Kína segja ekki neitt. En það fóru svo að berast fréttir af þessu og ég held að það hafi einmitt verið Fréttablaðið sem skrifaði í september „Hvað varð um Ma Jisheng?“. Sagt er að þau hafi verið tekin föst fyrir njósnir fyrir Japan. Það þýðir bara eitt,“ segir Unnur og dregur nú vísifingurinn þvert yfir
hálsinn á sér, væntanleg heldur óhugnanlegt fyrir blaðamanninn.org

En svona er þetta. Ma Jisheng var sannarlega kynntur hér til leiks sem sendiherra og svo bara hvarf hann. Það er talsvert til af fréttum af honum fram í september 2014 en svo hættir það bara, það er meira að segja Wikipedíu-síða með upplýsingum um hann. En engar fréttir eftir 2014 að því manni sýnist. Vitaskuld urðu fréttaskrif um hvarfið, heima og erlendis. Hann var tengdur við njósnir við Japan einhverra hluta vegna en þar hafði hann verið sendifulltrúi. En svo bara hvarf hann og fjölskyldan líka. Nýr sendiherra birtist, hélt heljarinnar veislu og allir gleymdu Ma Jisheng. Svona er lífið í alræðisríki eins og Unnur bendir á en hún þekkir þetta alræðisríki öðrum betur eins og kemur fram í viðtalinu. En auðvitað er þetta hvarf Ma Jisheng sérstakt og ekki verður séð að helstu Kínasérfræðingar landsins geri það að umtalsefni, ekki einu sinni fyrrverandi forseti Ólafur Ragnar Grímsson, sem þó fjallar mikið um Kína í bók sinni, Sögur handa Kára.

Fólk á leið í aftökur

En frásagnir Unnar hljóta að vekja athygli enda hafði hún mikil samskipti við Kína. Þannig rifjar hún upp atvik úr ferð sinni þangað árið 1991 og tiltekur að það atvik hafi setið í henni. Þá horfði hún upp á lest hertrukka keyra í gegnum borgina Lanzhou með fanga á leið til aftöku. Hún smellti mynd af þessum hjálparvana sálum sem pistlaskrifari leyfir sér að birta hér með.trukkar

Unnur rekur söguna: „Þeir eru teknir af lífi fyrir eiturlyfjabrask. Þeir eru látnir bera skömmina utan á sér og þess vegna eru þeir með þetta skilti um hálsinn. Fyrir ofan er greint frá glæpnum en nafnið þeirra er fyrir neðan. Svo er keyrt með þá í gegnum bæinn til að vara aðra við,“ segir Unnur í viðtalinu og bætir við: „Þeir eru ekki með þessar sýningar í dag, enda ekki vinsælar í hinum vestræna heimi, en taka samt jafn hart á þessum brotum enn þá.“

Þessar frásagnir minna á hve mannréttindi standa höllum fæti í Kína. Á það hefur verið bent í pistlum hér áður. Þó hægt sé að gleðjast yfir efnahagslegum uppgangi í Kína og því að algerri örbirgð hefur verið útrýmt eiga Kínverjar enn eftir að sýna fram á vilja sinn til að virða mannréttindi. Það hlýtur að móta öll samskipti við þá.