c

Pistlar:

15. mars 2021 kl. 11:45

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fjarvinna og Borgarlínan

Allir þeir sem gefa sig út fyrir að rýna í framtíðina og hið óorðna reyna nú að meta hvaða áhrif kórónuveirufaraldurinn hefur á líf okkar og samfélag þegar mesta fárinu slotar. Eitt virðast flestir sammála um og það er að vinnuumhverfi fólks mun breytast. Það mun síðan hafa veruleg áhrif á byggðaþróun og samgöngur. Um langt skeið hafa menn verið að velta fyrir sér og spá fyrir um að starfsstöð fólks geti þróast frá því að vera í stórbyggingu einhversstaðar miðsvæðis í eitthvað allt annað. Jafnvel heima hjá viðkomandi. Nú virðist þetta ætla að raungerast. Stór hluti vinnu nútímamannsins fer fram fyrir framan tölvuna og svo getum við haft samskipti hvernig sem við kjósum. Þetta hefur orðið reyndin í faraldrinum og mun hafa gríðarleg áhrif í framtíðinni. Segja má að sú þróun sem margir hafa verið að spá fyrir um hafi skyndilega orðið að veruleika.fundur

Á næstunni munu fyrirtæki því verða að endurmeta þörf sína fyrir húsnæði og þó að áfram verði nauðsynlegt að hittast öðru hvoru þá getur fólk nú starfað heima hjá sér hluta vinnuvikunnar. Það hefur mikil áhrif á samgöngur en nú erum við Íslendingar (já ekki bara Reykvíkingar) að taka afdrifaríkar ákvarðanir um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Hugmyndir um Borgarlínu voru kynntar í svæðisskipulagi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu árið 2015 og síðan hefur verið unnið að útfærslu hugmyndarinnar. Stundum virðist sem svo að með Borgarlínu sé ætlunin að skipuleggja borgina út frá samgöngunum i stað þess að skipuleggja samgöngur eftir þörfum borgarinnar. Talsmenn Borgarlínu segja þessu án efa öfugt farið en þetta virðist samt vera raunin. Framkvæmdin hefur verið gagnrýnd hér áður í pistlum, meðal annars vegna þess hve óljós ávinningur er af henni þrátt fyrir að hún muni augljóslega kosta mikla fjármuni.

Verðum að treysta á einkabílinn

Það er sjálfsagt að stuðla að þéttingu byggðar og styrkja almenningssamgöngur og ýta undir að fólk noti reiðhjól. En við lifum ansi norðarlega og það sem virðast vera heppilegar lausnir annars staðar eru það ekki hér. Við verðum alltaf að treysta á einkabílinn að verulegu leyti. Þá má velta fyrir sér hvort fullreynt sé með strætisvagnakerfið? Hefði ekki verið unnt að auka tíðni strætó og jafnvel fella niður gjaldtöku? Miðað við kostnað af Borgarlínu væri hægt að gera ýmsar tilraunir áður en farið er að umbylta gatnakerfinu fyrir Borgarlínuna. Þá er eins og menn átti sig ekki á að flestir notendur Borgarlínu verða að ganga í allnokkurn tíma áður en þeir geta komist um borð. Leiðarkerfið verður mjög brotakennt og virðist miða við að búa til einfalt streymi fólks frá tilteknum punktum niður í bæ. En það má hafa í huga að nú er í gildi samkomulag um 10 ára tilraunaverkefni til eflingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu í samkomulagi við ríkisvaldið. Eftir er að fá endanlega niðurstöðu úr því verkefni en tölur nýliðins árs gætu mótast af aukinni fjarvinnu.


Ný byggð - nýjar áherslur

Við sjáum einnig að verulegar breytingar eru að eiga sér stað í nágranasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins, bæði úti á Reykjanesi, fyrir austan fjall og uppi á Akranesi. Segja má að með bættum samgöngum og núna breyttum áherslum í fjarvinnu þá séu þessir staðir fýsilegri kostir fyrir ungt fjölskyldufólk sem vill geta búið í einbýli og átt auðveldara með að sækja þjónustu. Helstu uppbyggingastaðir Reykjavíkur virðast ekki henta fyrir slíkt. Heldur sérkennilegt er að ganga um nýtt hverfi á Valssvæðinu svokallaða við Reykjavíkurflugvöll. Þar er byggt hátt og þétt. Þannig virðist önnur hver íbúð hafa litla sem enga möguleika á að njóta sólar. Bílastæði eru nánast engin þannig að gestir eiga óhægt um vik. Er þetta hugsað til enda? Í viðtali í þættinum Sprengisandi um helgina benti Pétur H. Ármannsson arkitekt á að þegar hús væru komin upp fyrir fjórar hæðir þá væri verið að taka sólina í burtu. Þær hæðir sem koma ofaná eru til þess að sinna þörfum verktaka um arðsemi en um leið er verið að fórna lífsgæðum íbúanna.

Það er því ekki nema von að fólk leiti annað. Sveitarfélögin fyrir austan fjall njóta þess nú og íbúar á Selfossi eru komnir yfir 9.000. Pistlaskrifari heyrði af því að um 1.500-2.000 manns sæki daglega til Reykjavíkur vegna vinnu. Nú þegar fjarvinnan hefur tekið yfir þá þarf þetta fólk ekki að fara nema einu sinni til tvisvar í viku til Reykjavíkur, jafnvel sjaldnar. Miðað við uppbygginguna á Selfossi, áherslu á framboð lóða og fyrirhugaðar samgöngubætur þá virðist íbúum geta haldið áfram að fjölga hratt. Með tilkomu Sundabrautar gæti svipuð þróun orðið á Akranesi. Það munar mikið um 10 til 15 mínútna styttingu vegalengdarinnar niður í miðbæ. Þarf ekki að hugsa til þess?