Engum dylst að Emmanúel Macron, forseti Frakklands, mun setja baráttu fyrir menningarlegu sjálfstæði Frakklands á oddinn í sinni kosningabaráttu en eins og vikið var að hér í síðasta pistli verður kosið í Frakklandi að ári. Eins og síðast er gert ráð fyrir að Macron þurfi að berjast við Marine Le Pen leiðtoga Þjóðfylkingarinnar (Rassemblement nationa) sem hefur mælst sterk í könnunum undanfarið. Allt síðan Macron hélt ræðu sína í frönsku borginni Les Mureaux í byrjun október síðastliðins hefur verið ljóst að hann ætlar að taka einarða afstöðu gegn íslamskri öfgastefnu og því sem hann kallar aðskilnaðarstefnu íslamista í Frakklandi (Islamist separatism). Þar sagði hann að íslam væri vandamál vegna þess að baki byggi pólitísk og trúarleg sannfæring fólks sem tryði því að lög þeirra stæðu ofar lögum lýðveldisins. Nokkuð sem stór hluti Frakka á erfitt með að sætta sig við og það veit Macron en meðfylgjandi mynd er frá jarðarför franska kennarans Samuel Paty í október síðastliðnum þar sem Macron hélt eftirminnilega ræðu.
Um leið hefur Macron gagnrýnt ákveðna menningarlega einangrunarstefnu innan Frakklands sem byggðist á því að foreldrar múslímskra barna meinuðu þeim þátttöku í félags- og unglingastarfi sem skólakerfið og reyndar samfélagið allt byði uppá með kvöð um þátttöku. Tiltók hann sérstaklega tónlistarstarf, íþróttir og sund. Sem gefur að skilja kallaði þetta á hávær mótmæli meðal talsmanna íslamista í Frakklandi sem ásökuðu forsetann um fordóma. Undir það tóku margir menningarvitar í umræðunni og breska vinstra blaðið The Guardian fjallaði talsvert um þetta. Franski mannréttindafrömuðurinn Yasser Louati sagði að hótanir um þvinganir gagnvart múslimum væru nú orðnar að veruleika. En Macron lætur engan bilbug á sér finna enda ekki einn að velta hlutunum fyrir sér með þessum hætti.
Danir loka á öfgaöfl
Fyrr í þessum mánuði tóku gildi í Danmörku lög um varnir gagnvart erlendum öfgaöflum sem Danir telja grafa undan dönsku samfélagi eins og Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, benti á í grein á Vísi um helgina. Danskir þingmenn úr flestum stjórnmálaflokkum greiddu frumvarpi dönsku jafnaðarmannastjórnarinnar atkvæði sitt. Lögin leggja bann við því að taka við fé eða annars konar stuðningi frá erlendum aðilum sem taldir eru varasamir. Markmið hinna dönsku laga er að leggja bann við að einstaklingar eða lögaðilar, þar á meðal stjórnvöld erlendra ríkja eða stofnanir og fyrirtæki á þeirra vegum geti unnið gegn eða grafið undan lýðræði og mannréttindum með því að veita fjárframlög til innlendra aðila.
Þetta er nokkurn veginn það sem Frakkar eiga við að stríða núna því ljóst er að erlend áhrif streyma inn í landið í gegnum íslamista og trúarsamfélag þeirra. Macron sagði í Les Mureaux-ræðunni að skólar yrðu undir ströngu eftirliti og erlend ítök þar yrðu ekki liðin. Hann sagði að frönsk yfirvöld myndu starfa náið með Franska múslimaráðinu (French Council of the Muslim Faith (CFCM)). Orðrétt sagði Macron að ætlunin væri að „hreinsa íslam í Frakklandi af erlendum áhrifum.“
Eftirlit með trúarleiðtogum aukið
En þessu til viðbótar munu frönsk stjórnvöld meina íslömskum trúarleiðtogum (imams) frá Tyrklandi, Marokkó, Alsír og öðrum löndum að starfa í landinu eftir 2024. Þess í stað verði öllum trúarleiðtogum gert skylt að læra frönsku og gangast undir próf til að fá leyfi til stunda iðju sína. Með þessu hyggjast frönsk yfirvöld auka eftirlit sitt með íslömskum trúarleiðtogum. Þegar Macron er spurður út í þessi áform segist hann einfaldlega ætla að „vernda gildi lýðveldisins“ með því að halda trúarbrögðum utan hins veraldlega valds og utan skólakerfisins. Nokkuð sem flestir Frakkar ættu að vera sammála um.
En þetta er vandasöm umræða hja Macron. Orðið islamophobie (Islamophobic) er franskt orð og á uppruna sinn til meðhöndlunar Frakka á afrískum nýlendum sem flestar voru múslimskar. Samband Frakka við Alsír er enn viðkvæmt en í janúar síðastliðnum skilaði franski sagnfræðingurinn Benjamin Stora frá sér langþráðri skýrslu um nýlendutíma Frakka í Alsír. Heiti skýrslunnar er Minningar um franska nýlendustefnu og stríðið í Alsír. Stora er af alsírskum uppruna og með skýrslunni var ætlunin að ná ákveðinni sátt um þá sameiginlegu reynslu sem þjóðirnar deila. Hafi menn vænst þess að skýrslan myndi kalla fram sátt þá brugðust þær vonir.
Þetta er tekið sem dæmi um hversu viðkvæmt ástandið er í Frakklandi en þar lifa nú 6 milljónir múslima eða 8% landsmanna. Það er hæsta hlutfall múslima innan nokkurs þjóríkis Evrópusambandsins.