Hlutabréf Síldarvinnslunnar voru skráð í Kauphöllina í dag með hefðbundnum klukknahringingum. Þar með eru tvö sjávarútvegsfyrirtæki skráð á hlutabréfamarkað sem er kannski ekki alveg vísbending um stöðu sjávarútvegsins í íslensku samfélagi. Með réttu ættu þau að vera fleiri en skráning Síldarvinnslunnar markar þó ákveðin tímamót og virðist hafa styrkt stöðu Brims sem var skráð fyrir. Bréf Brims hafa hækkað skarpt í kjölfar þess að fjárfestar tóku að bera gengi þeirra saman við útboðsgengi Síldarvinnslunnar. Sjálfum fannst mér bréf Síldarvinnslunnar dýr en fjárfestar virðast ekki sammála mér og þau hækkuðu um 10% í fyrstu viðskiptum dagsins. Síldarvinnslan er óneitanlega glæsilegt fyrirtæki með gríðarlegar fjárfestingar og traustvekjandi rekstrarstöðu og hefur kauphallarlíf sitt með markaðsvirði upp á ríflega 110 milljarða króna. Það þarf ekki að hafa mörg orð um mikilvægi þess fyrir atvinnulíf á Neskaupsstað og reyndar öllu Austurlandi og margir í þeim landshluta eignast nú verðmæti sem geta gengið kaupum og sölum á markaði. Það er óskandi að félagið fái að reka sig í friði fyrir öfgafullum stjórnvaldsákvörðunum en pólitískur stöðugleiki er nauðsynlegur til að skapa traust á viðskiptalífi og draga að erlenda fjárfesta.
Regluverksáþján
Samkvæmt nýrri skýrslu Viðskiptaráðs, sem var opinberuð í dag er einmitt skortur á erlendum fjárfestum um leið og skýrslan bendir á að regluverksáþjánin er mikil hér á landi. Að venju bendir Viðskiptaráð á fjölmörg atriði sem gera Ísland síður fýsilegt fyrir erlenda fjárfesta en það má ekki gleyma að innlendir fjárfestar líða vegna þeirra alla daga. Stjórnvöld verða að fara að bregðast við stöðugt vaxandi áþján á viðskiptalífið í vegna þunglamalegs stjórnkerfis og regluverks. Að því leyti er áminning Viðskiptaráðs mikilvæg og heiti skýrslunnar, Hugsum stærra, viðeigandi þó það sé kannski ekki frumlegt. Skýrslan afhjúpar fjölda vísbending um að regluverk hér á landi sé meira íþyngjandi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.
Sjávarútvegurinn er og verður kjölfestan
En aftur að sjávarútveginum, þar eru nefnilega gríðarleg tækifæri ef við höldum áfram að fjárfesta í þekkingu, tækni og markaðsstarfi eins og íslensku sjávarútvegsfyrirtækin gera. Ný skýrsla unnin fyrir sjávarútvegsráðuneytið opinberaði að það er hægt að auka verðmæti íslensks sjávarútvegs gríðarlega. Já, það er reyndar merkilegt að á meðan miklum fjármunum er dælt í allskonar sprotastarfsemi þá virðist sjávarútvegurinn skila bestri ávöxtun, mestri framlegð og halda áfram að byggja undir útflutningsverðmæti þjóðarinnar. Það ætt að vera einhverjum umhugsunarefni.
Hafa má í huga að árið 2019 var samanlagt virði framleiðslu í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum um 332 milljarðar króna. Þar af námu útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða 260 milljörðum króna og höfðu hækkað um 60% á tveimur áratugum. Á tímabilinu 2009 til 2019 jókst aflaverðmæti um 45 milljarða króna og útflutningsverðmæti um 97 milljarða króna á föstu gengi. Ríflega helming aukinna útflutningsverðmæta má rekja til aukinnar verðmætasköpunar í vinnslu, en tæplega helming til hærra aflaverðmætis.
Tækifæri til vaxtar
Í skýrslunni kom ennfremur fram að mikil tækifæri eru til vaxtar í sjávarútvegi, fiskeldi og tengdum greinum og mögulegt að auka útflutningsverðmæti þessara atvinnugreina verulega á næstu árum. Að gefnum forsendum, sem lýst er nánar í skýrslunni, gæti virði framleiðslu allra þessara greina aukist í um 440 milljarða króna árið 2025 og í 615 milljarða króna árið 2030. Virði framleiðslunnar árið 2030 yrði þannig 85% meira en virði framleiðslunnar árið 2019. Það þarf ekki að taka fram að Ríkisútvarpið efndi ekki til mikillar umræðu um skýrsluna. Þar á bæ er ekki mikill áhugi á að flytja fréttir af rekstrarstöðu sjávarútvegsins.
Í morgun datt inn um póstlúguna 10 ára afmælisrit Sjávarklasans sem oft hefur verið til umræðu hér. Tilvist hans sýnir glögglega þá möguleika sem eru í sjávarútvegi og áhugavert að uppbygging hans og þekking er öðrum þjóðum hvatning. Flestir sem horfa á málin hlutlaust sjá hve mikil tækifæri eru í íslenskum sjávarútvegi fái hann að reka sig á skynsaman hátt.