c

Pistlar:

29. maí 2021 kl. 16:50

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kúba og harðstjórn sósíalista

Ríkisstjórn Kúbu kúgar almenning og refsar fyrir alla gagnrýni og ágreining. Stjórnvöld víla ekki fyrir sér að beita öllum þeim ofbeldismeðölum sem finnast í bókum harðstjórnar, meðal annars barsmíðum, opinberum niðurlægingum, ferðatakmörkunum, fangelsun til lengri og skemmri tíma, sektum, einelti á netinu, eftirlit og þvinguðum starfslokum.

Kúbversk lög takmarka tjáningarfrelsi, félagasamtök, samkomur, málefnahreyfingar og fjölmiðla. Einnig hafa mannréttindasamtök lýst yfir áhyggjum af því hvort að landsmenn fái réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum. Á Kúbu ríkti opinbert trúleysi til 1992 sem hafði í för með sér ofsóknir gegn prestum og safnaðarstarfi. Slakað hefur verið á þeim ofsóknum en ríkisstjórnin hefur ennþá náið eftirliti með trúarlegum stofnunum, tengdum hópum og trúuðum einstaklingum. Ritskoðun á Kúbu hefur einnig lengi verið þyrnir í augum mannréttindasamtaka og var til dæmis miðpunktur kvartanna í skýrslu Human Rights Watch frá 2017.cuba-no-human-rights-tolerated

Illa þokkuð lagasetning

Í október 2019 var Miguel Díaz-Canel valinn sem forseti Kúbu, með næstum 97 prósent atkvæða þingmanna þjóðþingsins. Í forsetatíð hans hafa litlar breytingar orðið á stefnu ríkisstjórnarinnar í mannréttindamálum að því er segir í skýrslu skrifstofu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna (OHCHR (UN Office of the High Commissioner for Human Rights (OHCHR)). Handahófskennt farbann og áreitni gagnvart andhófsfólki heldur áfram. Undir stjórn Miguel Díaz-Canel hefur Kúba notað lög númer 370/2018, sem tóku gildi í júlí 2019 og takmarka málfrelsi verulega auk þess að veita heimildir til kyrrsetninga, áreitis, sekta og fangelsunar á alla þá sem gagnrýna stjórnvöld.

Ríkisstjórnin undir forystu Miguel Díaz-Canel hefur þannig haldið áfram þeim sið sósíalistastjórnarinnar, sem lengst af var undir stjórn Castro-ættarveldisins, til að beita handahófskenndum farbönnum í þeim tilgangi að áreita og hræða alla sem opna munninn til að gagnrýna stjórnvöld og skiptir þá engu hvort þeir eru sjálfstæðir aðgerðarsinnar, pólitískir andstæðinga eða aðrir þeir sem gagnrýna stjórnvöld. Frá janúar til ágúst 2020 voru 1.028 einstaklingar settir í fyrirvaralaust farbann samkvæmt kúbversku mannréttindavaktinni (Cuban Human Rights Observatory) sem eru mannréttindasamtök í Madríd.

Tilviljanakenndar handtökur

Öryggislögreglan á Kúbu (s. Policía Nacional Revolucionaria) leggur sjaldan fram handtökuskipanir til að réttlæta fangelsun andhófsfólks. Í sumum tilvikum er föngum sleppt að fenginni opinberri viðvörun, sem saksóknarar geta notað síðar í sakamálaréttarhöldum þegar þarf að sýna mynstur „brotlegrar“ hegðunar. Það má rifja upp að árið 1998 sagði Fidel Castro að stríðið gegn glæpum væri í aðra röndina stríð gegn heimsvaldastefnunni. Kúbverjar eiga þannig því að venjast að skilin á milli raunverulegra glæpa og andhófs geta verið óljós eins og dæmin sýna í öðrum sósíalískum ríkjum.

Gæsluvarðhald eða hótun um farbann er oft notað til að koma í veg fyrir að fólk taki þátt í friðsamlegum göngum eða fundum til að ræða stjórnmál. Fangar eru oft barðir, þeim ógnað og þeir beittir ofbeldi tímum eða dögum saman. Lögregla eða ríkisöryggisfulltrúar leggja reglulega í einelti, elta uppi og handtaka meðlimi samtaka eins og Konur í hvítu (Ladies in White (Damas de Blanco)) - hópi sem stofnaður var af konum, mæðrum og dætrum pólitískra fanga en þær hittast gjarnan fyrir eða eftir að þær sækja messu á sunnudögum. Skilaboð kvennanna eru skýr, synir, eiginmenn og bræður mega ekki gleymast. Samtökin hafa verið heiðruð víðsvegar og fengið meðal annars Milton Friedman verðlaunin fyrir að efla frelsi árið 2017.blanco

Aðgerðasinnar handteknir

Í maí á síðasta ári var aðgerðarsinninn og lögfræðingurinn Enix Berrio Sardá settur í varðhald fyrir meint brot á ferðatakmörkunum vegna Covid-19 en þá var hann að leggja fram greinargerð og stefnu vegna áðurnefndra laga númer 370/2018 sem hann taldi stangast á við stjórnarskránna.

Í júní höfðu yfirvöld í haldi eða hótuðu að handtaka fjölda fólks til að koma í veg fyrir mótmæli gegn ofbeldi lögreglu í Havana. Lögregla áreitti að minnsta kosti 80 manns, hringdi í þá eða mætti á heimili þeirra til að vara þá við afleiðingum þess að mæta á mótmælin. Í sumum tilvikum biðu yfirmenn fyrir utan heimili fólks allan mótmæladaginn til að koma í veg fyrir að þeir færu. Að minnsta kosti 50 manns voru handteknir þegar þeir reyndu að fara á mótmælasíður og voru í haldi tímabundið. Sumir voru sakaðir um að „dreifa faraldrinum“.

8. september síðastliðnum handtóku yfirvöld fjölda fólks um allt land (og hótuðu mörgum handtöku) til að bæla niður mótmæli til stuðnings lýðræði sem voru fyrirhuguð og áttu að vera á sama tíma og vinsæl trúarhátíð. Blaðamenn og baráttumenn fyrir lýðræði greindu frá því að lögregla væri fyrir utan heimila þeirra um morguninn og stjórnarandstæðingar greindu frá fjölda fólks sem var í haldi, þar á meðal José Daniel Ferrer, stofnandi og leiðtogi Þjóðríkjasambands Kúbu, helsta stjórnarandstöðuflokksins og stærsta og virkasta afl lýðræðissinna.

Stjórnvöld drottna yfir fjölmiðlum

Ríkisstjórnin stjórnar nánast öllum fjölmiðlum á Kúbu og takmarkar aðgang almennings að utanaðkomandi upplýsingum. Samkvæmt skýrslu mannréttindasamtaka um Kúbu er hvergi í Ameríku erfiðara fyrir frjálsa fjölmiðla að starfa. Þetta var áréttað í skýrslu nefndar (Committee to Protect Journalists) frá 2019 um vernd blaðamanna.

Litlum fjölda sjálfstæðra blaðamanna og bloggara tekst þó öðru hvoru að birta greinar, myndskeið og fréttir á vefsíðum og samfélagsmiðlum, svo sem á Twitter og Facebook. Ríkisstjórnin lokar reglulega fyrir aðgang að Kúbverja að mörgum fréttavefjum og bloggsíðum. Árið 2019, í kjölfar meingallaðrar atkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá, lokuðu stjórnvöld á nokkrar fréttasíður sem taldar voru gagnrýnar á stjórnvöld, þar á meðal 14ymedio, Tremenda Nota, Cibercuba, Diario de Cuba og Cubanet. Síðan þá hefur það haldið áfram að loka á ýmsar fréttaveitur. Almenningur á Kúbu lifir í upplýsingamyrkri eins og tíðkast gjarnan í sósíalískum ríkjum. Því miður virðast skoðanafélagar þeirra hér á landi og á Vesturlöndum vera illfáanlegir til að gagnrýna þetta ástand.