Danska þingið samþykkti í dag lög sem heimila að umsækjendur um alþjóðlega vernd séu sendir til ákveðins ríkis utan Evrópu á meðan þeir bíða niðurstöðu umsókna sinna. Þegar er búið að semja við Afríkuríkið Rúanda og viðræður eru við fleiri ríki, þar á meðal Túnis, Eþíópíu og Egyptaland. Þar með segja Danir að þeir hælisleitendur sem banka á dyrnar hjá þeim geti allt eins farið með næstu flugvél til Afríku þar sem settar verða upp móttökustöðvar fyrir hælisleitendur. Danir munu bera kostnaðinn af rekstri þessara stöðva. Flóttamenn sem sækja um hæli í Danmörku munu því ekki dvelja í Danmörku á meðan umsóknin er tekin fyrir. Fái hælisleitandi synjun yrði það þriðja ríkið sem sæi um brottvísun viðkomandi þótt Danmörk standi straum af kostnaðinum eins og áður segir. Að sjálfsögðu er margir undrandi og eiga eftir að melta þessa niðurstöðu. Þegar dómsmálaráðherra Íslands var spurður um málið í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag varð henni svaravant. Skilja mátti hana þannig að hún biði leiðsagnar frá Evrópu.
Danska leiðin fæddist
En Danir virðast nokkuð einhuga um þetta og lögin voru samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða, voru samþykkt með 70 atkvæðum gegn 24. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur og formaður danska Jafnaðarmannaflokksins, hefur verið ódeigur baráttumaður fyrir þessari lagasetningu. Vissulega heyrast raddir um að þetta sé í senn ósiðlegt og ómögulegt en dönsk yfirvöld ætla augljóslega að senda sterk skilaboð til hælisleitenda; Danmörk er ekki lengur opin fyrir óheft flæði þeirra. Þetta er niðurstað af mikilli og langvinnri umræðu í Danmörku, umræðu sem einnig á sér stað í Svíþjóð og Noregi og reyndar einnig fleiri löndum Evrópu. Þess undarlegra var að hlusta á fréttaflutning Ríkisútvarpsins í kvöld, það var eins og ákvörðun Dana ætti sér enga forsögu, hún hefði bara allt í einu birst og Evrópusambandið og mannréttindasamtök hefðu verið slegin köld og væru að hugsa málið.
Þegar hefur vaknað umæða í Noregi um að slík tillaga verði flutt á þinginu en Siv Jensen, formaður Framfaraflokksins og fyrrverandi fjármálaráðherra, flutti tillögu í þessa átt árið 2013 en hún fékk ekki brautargengi þá. Afstaða til innflytjenda í Noregi hefur breyst síðan þá þó ómögulegt sé að segja hvort sé meirihluti fyrir því að fara dönsku leiðina.
Engir jaðarflokkar
Hafa verður í huga að það eru ekki einhverjir jaðarflokkar sem standa að þessu heldur sósíaldemókratar, þeir sem hafa hvað harðast varið danska velferðarkerfið (og hælisleitendakerfið) til þessa. Og Venstre stóð með þeim í málinu. Alger umskipti hafa orðið orðið í afstöðu þessara helstu flokka Danmerkur en lengst af var það aðeins Dansk Folkeparti sem rak innflytjendastefnu í Danmörku. Flokkurinn sem var stofnaður 1995 var stöðugt að vaxa fiskur um hrygg þar til sósíaldemókratar snéru við blaðinu, stálu stefnu Dansk Folkeparti í útlendingamálum og hafa bætt stöðu sína jafnt og þétt. Nú kemur harðasta afstaðan í útlendingamálum úr þeirra ranni.
Þegar hafa menn bent á að við Íslendingar höfum alltaf horft til Norðurlandanna og ekki síst hvað sósíaldemókratar eru að gera í útlendingamálum og félagsmálum yfirleitt. Sumum finnst því tilvalið að íslenskir stjórnmálaflokkar á þingi samþykki nú breytingar á útlendingalögum þannig að þau séu á svipaðri línu og Danir eru með. Ómögulegt er að segja hvernig málin munu þróast en Danir eru mjög einbeittir. Hugsanlega munu önnur ríki óska eftir því að fá að komast inn í ráðagerð þeirra og rekstur móttökustöðvanna. Tíminn mun leiða það í ljós.
Þá ber að hafa í huga að Danir hafa nýlega samþykkt lög sem ætlað er að koma í veg fyrir að erlend öfgaöfl grafi undan dönsku samfélagi með því að veita fjárframlögum inn í landið. Breið sátt var um setningu laganna og þingmenn úr flestum stjórnmálaflokkum Danmerkur studdu þau. Markmið laganna er að hindra að einstaklingar eða lögaðilar, þar á meðal stjórnvöld erlendra ríkja eða stofnanir og fyrirtæki á vegum þeirra, vinni gegn eða grafi undan lýðræði og mannréttindum með því að veita aðilum í Danmörku fjárframlög.