c

Pistlar:

23. júní 2021 kl. 20:27

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kommúnistar leysa upp veldi Jack Ma

Það er dálítið erfitt að taka Kínverja alvarlega í samfélagi þjóðanna en þeir verða ekki hundsaðir. Eftir því sem árin líða og vöxtur og uppgangur hins kínverska ríkis verður meiri, því meiri athygli hlýtur að verða á afstöðu þeirra til mannréttinda og lýðræðis. Hér hefur oft í pistlum verið lýst yfir ánægju og undrun á hinum mikla vexti sem við höfum séð í kínverska hagkerfinu undanfarna áratugi. Ótrúlegur fjöldi fólks hefur risið úr fátækt og nýtur nú velmegunar sem var óhugsandi í þessu landi. Efnahagslegur styrkur Kína er gríðarlegur og fer stöðugt vaxandi. Því fylgja aukin pólitísk áhrif á hinu alþjóðlega sviðið samfara vaxandi hernaðaruppbyggingu. Um leið hringir viðvörunarbjöllum á ótalmörgum sviðum.

Afstaða kínverskra yfirvalda til frelsis einstaklinga, tjáningarfrelsis, eignarréttar og annarra mannréttinda virðist enn vera á reiki og stjórnvöld virðast tilbúin til að grípa til harkalegra aðgerða til að tryggja völd og stöðu Kommúnistaflokksins og þeirra sem þar ráða ríkjum. Allt með heldur óljósum rökum um að Kommúnistaflokkurinn einn geti tryggt framtíð landsins. Við höfum þannig í forundran fylgst með framferði kínverskra yfirvalda gagnvart þjóðarbroti múslima í Xinjian héraði. Alþjóðlegar mannréttindastofnanir hafa um langt skeið reynt að vekja athygli á afbrotum kínverskra yfirvalda en það virðist ekki hafa mikil áhrif. Stjórnvöld í Kína hafa verið staðin að því að brjóta á fólki af Uighur þjóðflokki ásamt öðrum minnihlutahópum múslima svo að jarðar við þjóðarmorð. Lýsingar alþjóðlegra samtaka eru skelfilegar og verða ekki hundsaðar. Því miður virðist vera hér um að ræða samskonar ferli og Kínverjar ástunduðu í Tíbet og hefur leitt til þess að heimamenn eru í minnihluta í eigin landi. Þá er ótalið framferði Kínverja í Hong Kong þar sem einræðisöflin hafa markvisst reynt að þrengja að öllu tjáningarfrelsi og pólitísku starfi. Um leið sjáum við furðulega tilraun kínverskra fulltrúa, meðal annars hér á landi, til að fegra umræðuna og snúa sannleikanum á haus eins og Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, hefur bent á með ágætum. Áróðurinn er blygðunarlaus.jack ma

Efnahagurinn skiptir öllu

En allt er þetta gert með vísun í að efnahagsleg velferð sé tryggð og Kínverjar geti þrátt fyrir allt orðið ríkir ef þeir bara stilla sig um að skipta sér af pólitík. - Að engu skipti hvort kötturinn sé svartur eða hvítur, svo framarlega hann veiði mýs eins og Deng Xiaoping, leiðtogi Kína sagði þegar efnahagslífinu var gefin frjáls taumurinn á áttunda áratug síðustu aldar. En líklega er þetta ekki með öllu rétt lýsing. Margt bendir til þess að kínversk stjórnvöld virði þetta grunnatriði ekki einu sinni. Sést það best af framferði þeirra gagnvart athafnamanninum Jack Ma, sem fyrir ári síðan var talin ríkasti maður Kína. Jack Ma setti á stofn Alibaba, stærsta tæknifyrirtæki Kína og The Ant Group, stærsta fjártæknifyrirtæki í heimi. Fyrirtækisveldi hans hafði á til þess að gera skömmum tíma náð stórveldisstöðu innan kínverska einkageirans, til jafns við vestrænu tæknirisana. Alibaba eitt og sér var meira virði en nokkurt bandarískt fyrirtæki að undanskildum Apple, Amazon og Google.

Frægastur núlifandi Kínverja

Ma var einnig heimsþekktur og vel liðinn fyrir alþýðlega framgöngu og í raun frægastur núlifandi Kínverja. Samkvæmt könnunum var hann þekktari utan Kína en sjálfur Xi Jinping formaður kínverska Komúnistaflokksins. Jack Ma var í raun Jeff Bezos, Elon Musk og Bill Gates, allir í einum manni eins og bent er á í úttekt í bandaríska viðskiptatímaritinu Forbes. Hann var í raun andlit hins nýja Kína, táknmynd þess að alþýðufólk gæti efnast. En nú hafa kínversk yfirvöld í raun sundurlimað Jack Ma fyrirtækjaveldið og óvíst hvernig stofnandanum sjálfum mun reiða af. Hann hefur horfið í lengri eða skemmri tíma og flestir gefið sér að stjórnvöld beri ábyrgð á því.hvar er

Skráningu Ant-hópsins var slegið á frest á síðustu stundu en talið var að útboðið hefði sett heimsmet. Hafa verður í huga að skráning og hlutafjárútboð Alibaba árið 2014 var það stærsta sem þá hafði sést. Talið var að skráningarvirði Ant yrði að minnsta kosti 40% hærra.

Nú er svo komið að veldi Ma er helmingi minna virði en það var fyrir 9 mánuðum, allt vegna aðgerða yfirvalda. Ferlinu virðist ekki lokið. Stjórnvöld í Bejing afhenda nú ábatasömustu sneiðarnar af viðskiptaveldi Ma til nýrra „samstarfsaðila“ að eigin vali, og skiptir engu þó margir þeirra hafi verið staðnir að spillingu segir Forbes. Það hefur í raun verið átakanlegt að fylgjast með skyndilegum viðsnúningi á gæfu Ma. Eignir hans hafa verið klipptar niður og leystar upp. Hið altumlykjandi miðstjórnarvald kínverska kommúnistaflokksins hefur látið öxina falla á einn sinn besta mann.