Það má auðvitað velta fyrir sér hvernig hægt átti að vera að halda uppi framleiðslu í ríkið þar sem leiðtoginn talaði aldrei skemur en fimm tíma og allir þurftu að hlusta! Byltingaforinginn Fidel Castro (1926-2016) hafði háar hugmyndir um hlutverk sitt í alheimsbyltingu kommúnismans eftir að hafa hrifsað völdin á Kúbu 1959 og staðið af sér Svínaflóainnrásina árið eftir. Eins og margir af því taginu rak hann lengst af heimagerðan sósíalisma sem hafði á sér heldur skárra yfirbragð en víða annars staðar, hugsanlega af því að mannlíf er ljúft og náttúran gjöful á Kúbu. Smám saman herti Castro tökin á þjóðlífinu og að lokum breytti hann stjórn landsins í ættarveldi. Landsmenn hafa furðu lengi haft þolinmæði fyrir óstjórn sósíalista á Kúbu sem hefur því miður ekki fært þeim annað en hörmungar og skort, stundum svo að það liggur við hungri.
Þessa daganna eru augu heimsins á mótmælaöldu sem gengur yfir Kúbu. Hún er að mörgu leyti einstök þar sem mótmæli og almenn lýðréttindi hafa ekki verið virt þar um árabil. Þrátt fyrir orð hér að framan um skaplegri sósíalisma þá var hann slæmur - samanburðurinn er bara svo hrikalegur eins og í Kambódíu þar sem fjórðungur þjóðarinnar var drepin á 44 mánuðum. Að ekki sé talað um það sem gerðist annars staðar eins og stórverkið Svartbók Kommúnismans rekur. Þar er kafli um morð og kúgun á Kúbu, svartur eins og aðrir kaflar þessa verks.
Skortur og hungur
En nú eru Kúbverjar búnir að fá nóg, skorturinn og hungrið rekur þá út á götu og skiptir litlu þó einræðisstjórn sósíalista beiti öllum brögðum til að þagga mótmælin niður. Lyfjaskortur hefur verið viðvarandi en nú keyrir um þverbak og kórónuveirufaraldurinn illstöðvandi. Í sjúkrahúsum og lyfjaverslunum Kúbu eru ekki til nein lyf lengur, til dæmis hvorki pensilín né aspirín. Rafmagn er af skornum skammti og almenningur er oft og lengi án þess. Þetta er þess tilfinnanlegra þar sem sósíalistastjórnin hefur lengi stært sig af heilbrigðiskerfinu og gjarnan sent lækna sína og hjúkrunarfólk til annarra landa í nafni sósíalismans. Í mars á síðasta ári mættu skyndilega ríflega 50 kúbverskir læknar, hjúkrunarfræðingar og aðrir sérfræðingar á heilbrigðissviði til Norður-Ítalíu til að hjálpa þeim á meðan kórónuveiran geisaði hvað mest. Það kom á heimamenn, vissulega var vandinn mikill en tæknistig hjálparmannanna var kannski ekki á pari við það sem heimamenn kröfðust. Menn tóku viljann fyrir verkið en þetta var ekki í fyrsta sinn sem Kúbustjórn sendir svokallaðar „hersveitir í hvítum sloppum" á hamfarasvæði, fram að þessu höfðu þær sveitir einkum verið sendar til fátækustu ríkja heims. En nú er heilbrigðiskerfið hrunið heima við.
Hvað gera Kúbverjar í Bandaríkjunum?
Engin veit hvað verður. 35% Kúbverja búa núna í Bandaríkjunum og um allan heim er fólk sem hefur flúið ástkært heimaland sitt vegna óstjórnar og harðræðis sósíalista. Stjórnvöld bregðast við með hefðbundnum aðferðum, lokunum á samfélagsmiðlum og ríkisreknir fjölmiðlar látnir dreifa áróðri. Forseti Kúbu, Miguel Díaz-Canel Bermúdez, segir mótmælendur ógna tilvist ríkisins. „Vilji þeir eyðileggja byltinguna verða þeir að ganga yfir lík okkar,“ sagði forsetinn á forsíðu flokksblaðsins Granma í gær og hótaði: „Við munum gera allt sem gera þarf og við munum berjast á götum úti.“ Um leið hefur hann og stuðningsmenn kennt viðskiptaþvingunum Bandaríkjanna um. Vissulega eru þær mistök að áliti pistlaskrifara en þær skýra ekki ástandið á Kúbu, hann er heimatilbúinn. Mótmæli hafa nú verið bönnuð og útgöngubann í gildi.
Engin stjórnarandstaða
Ekki er að sjá að hér sé um skipuleg mótmæli að ræða enda engin stjórnarandstaða leyfð á Kúbu. Bandaríkjamenn af kúbverskum uppruna hafa í gegnum tíðina leynt og ljóst barist gegn ríkistjórn sósíalista en ákall þeirra er yfirleitt um inngrip alþjóðsamfélagsins. Nú þegar hefur harðnað á dalnum í hinu sósíalíska samfélagi Mið- og Suður-Ameríku er ljóst að Kúba er eitt síðasta vígið. Hér hefur margoft verið fjallað um vandræðagang sósíalistastjórna í Venesúela og Níkaragva. Ef sósíalistastjórnin fellur á Kúbu er hætt við að alvarlegir brestir komi í blokk Ameríkusósíalista enda íbúar landanna búnir að fá nóg. Fleiri lönd gætu fyllt á eftir og allt gerir þetta ákall um sósíalisma á Íslandi heldur hjákátlegt.
Atvinnu- og efnahagsstefna þessara landa hefur algerlega brugðist. Þau geta ekki tryggt fjárfestingu eða uppbyggingu mikilvægra atvinnugreina. Að lokum eyðileggur hið sósíalíska stjórnkerfi efnahagslífið meðal annars með því að standa gegn öllu einkaframtaki og markaðsvæðingu hagkerfisins. Reynt hafði verið að hleypa einkaframtaki af stað á Kúbu en þær tilraunir voru vanmáttugar. Nú getum við bara vonað að gagnbyltingin verði friðsamari en byltingin.