Það hafa verið rauðar tölur í íslensku kauphöllinni síðustu tvo daga og fáir efuðust um orsakir þess. Hertar sóttvarnaraðgerðir draga úr bjartsýni um endurreisn hagkerfisins og rekstrarforsendur þeirra fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustunni. Kjarkurinn brestur og margir fjárfestar vilja losa um stöður, sérstaklega þeir skuldsettu. Bólur á hlutabréfamarkaði lúta sérkennilegum lögmálum vegna þess að engin leið er að sjá bóluna þegar þú ert í henni miðri! Menn geta frá einum tíma til annars slegið um sig með varnaðarorðum efasemdamannsins og gagnrýnt verðþróun hlutabréfa. Besta fjárfestingaráðið er jú; ef það er of gott til að vera satt er það of gott til að vera satt! Spádómurinn rætist þannig af sjálfu sér en þó að fjárfestar geti breyst í spákaupmenn á augabragði og fræðimenn grípi gjarnan til þess ráðs að útskýra óstöðuga markaði með spákaupmönnum þá er það svo að við getum ekki vitað neitt fyrir víst. Markaðurinn stýrist eftir sem áður að mestu af græðgi og hræðslu þó við reynum að fela það með greiningum, skýrslum og upplýstri umræðu. Eftir sem áður stýrist markaðurinn að mestu af óttanum við að missa af hækkun og hræðslunni við að festast inni í lækkun og tapa öllu.
Kauphallarlíf
Að þessu sögðu er erfitt að segja nokkuð um ástandið í íslensku kauphöllinni núna. Vissulega hefur hún skilað ríflegri ávöxtun á meðan þjóðfélagið allt hefur þurft að glíma við faraldur sem við höfum ekki séð áður. Þannig virðist kauphöllin lifa eigin lífi, að hluta til óháð örlögum þeirra sem missa vinnu eða eignir en vissulega má spyrja hversu raunhæft það sé? Verður ekki ávöxtun á einhverjum tilteknum markaði ekki að lokum að vera í einhverjum tengslum við raunhagkerfið? Getur kauphöll lifað eigin lífi óháð því sem er að gerast utan veggja hennar? Auðvitað ekki, allt hefur það áhrif og að endingu hlýtur verðlagning allar almennra markaðsvara að vera í einhverjum tengslum við hagkerfið sem umlykur þær. Þannig hlýtur hagvöxtur og stærð þjóðarbúsins að lokum að hafa áhrif á hlutabréfaverð.
Mönnum er gjarnt að tala um að svokallað „misvægi í efnahagslífinu“ verði stöðugt meira áberandi. Sérstaklega er það vinsælt meðal vinstri manna og eftir því sem þeir eru lengra til vinstri því öfgafyllra telja þeir að markaðshagkerfið sé. Sósíalistar lifa í heimi stjórnlyndis, miðstýringar og fimm ára áætlana. Fyrir þá er markaðurinn vondur í sjálfu sér, eins og aðskotahlutur í samfélagi manna einfaldlega vegna þess að hann er stjórnlaus og ófyrirséður. En þó að hagkerfi séu háskaleg og markaðir varasamir þá eru þeir eigi að síður besta og skilvirkasta leið til að koma saman upplýsingum um framleiðslu og þörf neytenda. Samfélög sem ekki hlíta markaðslögmálum verða að þola skort og óhagkvæmni sem að endingu hefur verri stöðu fyrir alla í för með sér.
Temprun eða örvun
En vissulega geta markaðir hagað sér með ófyrirséðum og allt að því óskynsamlegum hætti. Í það minnsta um stundarsakir þó markaðssinnar telji að allt leiðrétti þetta sig að lokum. Við sáum ýktustu einkenni þess fyrir rúmum áratug þegar mesta bankabóla vestrænna hagkerfa sprakk nánast beint framan í okkur Íslendinga. Hliðstæður mátti sjá víða og svo vildi til að sömu einkenni komu fram á Íslandi og á Írlandi fyrir hrun. Þessi einkenni birtust meðal annars í því að gengi gjaldmiðilsins hækkar stöðugt og samhliða því jókst innflutningur og eyðsla í útlöndum. Einhversstaðar í ferlinu var markaðurinn hættur að virka og verðlagning gjaldmiðilsins var ekki í samræmi við framleiðslugetu hagkerfisins. Þetta gerðist bæði á Íslandi og Írlandi. En höfum í huga að verðlagningu gjaldmiðilsins er stýrt miðlægt, þar sem lærðustu menn hvers hagkerfisins reyna að meta ástandið og tempra eða örva það með þeim meðulum sem bjóðast.
Afleiðingarnar eru þekktar. Innlend framleiðsla varð dýrari og dýrari og störf í útflutningsgreinum byrja að tapast. Það reynist stöðugt vandasamara að verðleggja fjármagn og vaxtastefnan hentar hvorki útflutningsfyrirtækjum né húsnæðismarkaðinum en hann er sá markaður sem skilar mestum sársauka út í hagkerfið. Smám saman verður eyðsla meiri en aflafé. Það er ekki til að bæta það ef hagkerfið á sama tíma verður sífellt háðara einni atvinnugrein. Á Íslandi var það bankarekstur, í Noregi olíuvinnsla.
Að þessu sögðu getum við ekki sagt mikið til um hvernig hagkerfið eða hlutabréfaverð þróast. Sumir geta hallað sér aftur og sagt að það jafni sig út til lengri tíma en það segir ekkert til um hvenær og hvernig við upplifum bólu á markaði. Kannski er að síga úr einni slíkri núna.