„Það er sósíalismi sem hefur kallað 62 ár af eymd yfir Kúbúbúa, sagði Alejandra Franganillo í samtali við hlaðvarp Þjóðmála í vikunni. Alejandra túlkar þá hörðu gagnrýni sem yfirvöld á Kúbu sitja nú undir um leið og þau reyna með harðri hendi að berja niður mótmæli íbúa í landinu. Framferði þeirra er mótmælt um allan heim, meðal annars á Íslandi og margir vona að nú sé komið að endalokum einræðisstjórnar kommúnista á Kúbu og lýðræðislegt stjórnarfar taki aftur við. Vonandi marka mótmælin sem hófust sunnudaginn 11. júlí síðastliðin upphaf endalokanna.
En mótmælin á Kúbu og hugsanlegt fall kommúnistastjórnarinnar (mætti segja öfga-vinstrimenn?) kallar á uppgjör við sósíalismann um allan heim. Kúba er að mörgu leyti lykilríki í ört minnkandi heimi sósíalísks stjórnarfars. Því má segja að það sé óvenju sársaukafullt fyrir sósíalista að sjá þetta „fyrirmyndaríki“ við það að falla. Það á við um sósíalista á Íslandi sem stefna á innkomu inn á Alþingi í haust og vilja gera sig gildandi í umræðunni, meðal annars út á slagorðið „sósíalismi er í tísku“.
Ekki hægt að kenna viðskiptabanninu um
Það getur því verið vandasamt að útskýra hvernig eigi að selja þetta stjórnlyndisfyrirkomulag meðan Kúbverjar eru að reyna að hrista af sér hlekkina og losna undan 62 ára eymd. Því þarf í senn að útskýra hvað fór úrskeiðis á Kúbu og hvað er síðan ólíkt með íslensku og kúbversku útfærslunni. Haldreipið er að kenna viðskiptabanni Bandaríkjanna um efnahagsástandið á Kúbu þó flestum sé ljóst að það hefur engin úrslitaáhrif og hefur sannarlega ekkert með fangelsanir, ofbeldi og bönn heima við að gera. Lyf og aðrar nauðsynjavörur berast og peningasendingar frá Kúbverjum í Bandaríkjunum halda lífi í ættingjum á Kúbu. Viðskiptabannið er sannarlega truflandi en það er Kommúnistaflokkur Kúbu sem ber ábyrgð á ástandinu í landinu.
En út á hvað gengur íslenski sósíalisminn? Í raun virðist hann helst sækja dæmi til sósíaldemókratískra flokka og þá um leið stjórnarfars á Norðurlöndunum en þar eru rekin markaðssinnuð kapítalísk samfélög. Í Svíþjóð og Danmörku eru meira að segja aðalsættir í fullu fjöri og gera sig gildandi í viðskiptum og stjórnmálum. En til að selja sósíalisma í dag þarf að tóna niður einræðisaflið sem er innbyggt í kenningaheiminn sem yfirleitt leyfir bara einn flokk eins og hefur verið á Kúbu og reyndar öðrum sósíalískum ríkjum. Hér verður sósíalistum hlíft við að útskýra uppbyggingu Norður-Kóreu en stjórnendur þar hafa engar efasemdir um að þeir stýri ríki sínu í anda góðs sósíalisma. En til að fela eðli sósíalismans þá er forskeytinu „lýðræðis“ skeytt framan við. Þannig á lýðræðislegur sósíalismi að vera fær um að taka þátt í nútímastjórnmálum án þess að bera ábyrgð á hörmulegri sögu sósíalismans í gegnum tíðina. Brátt verða íslenskir kjósendur að gera upp við sig hvort þeir trúa þessu.
Ekki pláss fyrir drauma í kommúnísku þjóðfélagi
Undanfarið hafa íslenskir fjölmiðlar átt mörg viðtöl við Kúbverja og er fróðlegt að lesa lýsingar þeirra. „Ríkið byggir glæsileg hótel meðan göturnar eru ónýtar, vatn skilar sér ekki inn á heimilin og rafmagnið er stopult,“ sagði Juan Carlos Suarez Leyva ferðamálafrömuður samtali við mbl.is í vikunni. Hann bendir á að Kúba sé í raun með tvo gjaldmiðla, einn fyrir ferðamenn, annað fyrir heimamenn og svo einnig svartan markað til hliðar við hagkerfin tvö. Hagkerfi Kúbu byggir að mestu leyti á ferðamönnum og því hefur Covid leikið Kúbverja grátt þar sem landamæri hafa verið lokuð. Orð Juans ættu að vera sósíalistum lexía: „Ég er fyrst og fremst Kúbverji. Ég flutti frá Kúbu því ég á mér drauma og það er ekki pláss fyrir drauma í kommúnísku þjóðfélagi,“ segir Juan. „Fidel Castro drap drauma Kúbverja með því að láta þá bara hugsa um mat. Fólk getur ekki hugsað um pólitík þegar það er alltaf svangt.“
Í viðtalinu vísar Juan í gamalt kúbverskt slagorð „landið okkar eða dauði“ sem átti að ramma inn styrk byltingarinnar, að fólkið var reiðubúið að deyja fyrir hana. „Við viljum ekki deyja við viljum lifa. Landið okkar og lífið!,“ segir Juan en það eru þau einkunnarorð sem komu mótmælaöldunni af stað. Margar lýsingar Juans eru ekki fyrir viðkvæma. Í öðru viðtali sagði Íslensk-kúbverski Everestfarinn Yandy Nuñez Martines að kúbverski herinn sé að drepa þjóð hans. Á Kúbu séu þeir sem mótmæla skotnir af hernum.
Áhrif samfélagsmiðla
Alejandra Franganillo, sem vísað var til hér í upphafi, hefur verið áberandi á samfélagsmiðlun vestanhafs að undanförnu og talað fyrir málstað þeirra sem vilja losna undan oki kommúnistastjórnarinnar á Kúbu. Hún býr í Flórída í Bandaríkjunum en afi hennar og amma flúðu frá Kúbu á 7. áratugnum og faðir hennar síðar. Í viðtalinu við Þjóðmál segir hún frá daglegu lífi á Kúbu, mýtunni um fyrirmyndar heilbrigðis- og menntakerfi og hvað það var sem ýtt af stað þeim mótmælum sem nú standa yfir í landinu. Þá er forvitnilegt að heyra lýsingar á því hvernig samfélagsmiðlar hafa ýtt mótmælum af stað, loksins þegar opnað var á þá og fólk gat farið að tala saman og skipuleggja sig. Og mótmælendur úti á götum eru ekki að mótmæla viðskiptabanninu, þeir eru að mótmæla sósíalismanum á Kúbu. Þeir vilja ekki sjá meira af honum.