c

Pistlar:

11. ágúst 2021 kl. 16:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Andstæður skerpast fyrir kosningarnar

Undanfarin misseri höfum við séð umtalsverða hækkun markaðseigna í íslenska hagkerfinu eins og vikið var að hér í pistli fyrir skömmu. Þó að hugsanleg bóla í eignaverði væri þar útgangspunkturinn þá er það svo að ýmsir þættir hafa stuðlað að þessari hækkun og flestir ágætlega þekktir í hagfræðinni. Samhliða þessu hefur eignafólki farnast nokkuð vel, bæði þeim sem treysta á hækkun á mörkuðum og þeir sem fjárfesta í rekstri og atvinnulífi. Þessi hópur getur ekki kvartað þó að fyrirkomulag skattheimtu geti alltaf verið til umræðu. Lægri skattar geta stuðlað að meiri verðmætasköpun sem geta nýst öllu samfélaginu til langs tíma en á hverjum tíma þarf hið opinbera á fjármagni að halda til þess að sinna sínum nauðsynlegu verkum. Nákvæmlega hvar hin hagkvæmi skurðpunktur liggur getur verið umdeilanlegt og stærð og umfang hins opinbera rekstrar verður vonandi alltaf til umræðu. Það er helst í lokuðum hagkerfum sósíalískra ríkja sem slökkt hefur verið á slíkri umræðu.andst

Átökin frá miðjunni út á vinstri kantinn

En um leið og efnahagslífið sýnir ágættan styrk þá eru pólitískar andstæður að skerpast og þeir sem héldu kannski að barátta stjórnmálanna snérist um miðjuna gætu þurft að horfast í augu við að mesti hiti umræðunnar hefur færst til vinstri eins og Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, bendir ágætlega á í grein í Morgunblaðinu í dag. Þannig virðist vera að herðast á umræðu um einhverskonar sósíalískt rekstrarform þar sem markaðshagkerfinu er kippt úr sambandi og sósíalísk hugmyndafræði og framkvæmd tekur yfir. Skiptir litlu þó menn reyni að skreyta sig með orðinu lýðræðislegur sósíalismi, merkin sýna verkin. Þessi umræða er ekki endilega að endurvarpa áhuga samfélagsins á sósíalískum lausnum heldur sýnir þann hávaða sem slyngir áróðursmenn geta kallað fram. En hugsanlega eru þetta einnig vísbendingar um að andstæður í umræðunni eru að skerpast um leið og efnafólk á Íslandi hefur það sannarlega nokkuð gott. Hugsanlega svo gott að borgarstéttin uggir ekki að sér gagnvart þeirri pólitísku hættu sem glittir nú í á Íslandi og mun geta eitrað umræðuna næstu misseri. Ólíklegt er þó að íslenskt samfélag sé tilbúið að taka pólitíska kollsteypu en þetta mun án efa hafa nokkur áhrif.

Um hvað verður kosið?

Nú 45 dögum fyrir kosningar er erfitt að koma auga á hvað beinlínis verður kosið um. Stjórnarheimilið virðist í upplausn og áframhaldandi stjórn núverandi flokka ekki endilega líkleg þó augljóslega falli forystumönnunum samstarfið vel. Tveir flokkar á Íslandi, Viðreisn og Samfylking, hafa báðir talað fyrir aðild að Evrópusambandinu en virðast ekki hafa þrek til að koma því inn í umræðuna. Sem er synd, það væri án efa ánægjulegt fyrir stuðningsmenn íslenska fullveldisins að takast á við aðildarumræðu á þessari stundu. Heilbrigðiskerfið og furðuleg stefna ráðherra og þá um leið ríkisstjórnarinnar gæti verið þarft umræðuefni og svo er augljóst að loftslagsmálin verða einhverjum hugleikinn þó þau starfi ekki beinlínis eftir flokkspólitískum línum.

Ég kæri mig ekki um að tala við mann sem hefur skrifað meira en hann hefur lesið, var haft eftir Samuel Johnson skáldi. Staðreyndin er sú að næstu vikur munu menn segja meira en þeir hafa innistæðu fyrir og hugsanlega verður kosningabaráttan ómarkvissari og ruglingslegri en við höfum áður séð enda margir mættir til þess að vera fyrst og fremst með hávaða. Það er áskorun fyrir kjósendur að greina þarna á milli og festast ekki inni í bergmálshellum samfélagsmiðlaumræðunnar. Það getur vafist fyrir mörgum.