c

Pistlar:

19. ágúst 2021 kl. 12:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Einokun á framleiðslu lækna

Líklega ríkti neyðarástand á læknamarkaði ef Háskóli Íslands hefði áfram haldið einokunaraðstöðu sinni við að útskrifa lækna. Eins og flestir muna þá var læknadeild HÍ sú eina sem bauð upp á læknisfræðinám hér á landi og sárafáir reyndu lengst af að freista gæfunnar erlendis. Fjöldatakmarkanir (numerus clausus) einkenndu læknadeildina og þess voru dæmi að nemendur með fyrstu einkunn yrðu að hverfa frá námi. Þessi undarlegheit náðu einnig til tannlæknadeildarinnar. Röksemdirnar fyrir þessu voru að ekki væri hægt að tryggja fleiri læknanemum kennslu á spítölunum. Í tilviki tannlækna virtust kennslustólar vera takmörkunin, eins undarlegt og það er. Þannig var það skortur á aðstöðu og tækjum sem kom í veg fyrir eðlilega þróun í fjölda lækna hér á landi, miklu frekar en skortur á þekkingu því grunnnámið hérlendis var að flestra mati ágætt. Allt var þetta heldur nöturlegt í ljósi þess að mikið af afbragðsnámsfólki hafði áhuga á að læra til læknis en varð frá að hverfa. Nú getur þetta fólk þó leitað til útlanda og ekki hægt annað en að dáðst að áhuga þess og elju. Um leið geta landsmenn verið þakklátir því læknaskortur er viðvarandi vandamál hér.læknar

Enn erfiðleikar við að mennta lækna

Enn virðist íslenska heilbrigðis- og menntakerfið eiga í erfiðleikum með að mennta lækna eins og Morgunblaðið hefur vakið athygli á undanfarið. Vandinn liggur hjá Landspítalanum en ekki hjá Háskóla Íslands, að mati Þórarins Guðjónssonar sem tók nýverið við sem deildarforseti læknadeildar. Það upplýsti hann í samtali við Morgunblaðið í vikunni. Átti hann þá við þann vanda að ekki sé hægt að taka á móti nema litlum hluta þeirra nemenda sem hafa áhuga á að stunda nám við læknadeildina hvert ár þótt Landspítalinn standi frammi fyrir gríðarlegum mönnunarvanda og hafi gert það um alllangt skeið.

Í vor þreyttu 328 manns inntökupróf í læknisfræði við Háskóla Íslands en einungis efstu 60 próftökunum var boðið að hefja nám í haust segir í frétt Morgunblaðsins. Þannig var tæplega 82 prósentum þeirra sem vildu læra læknisfræði hafnað og munu þeir því ýmist þreyta prófið aftur að ári, snúa sér að öðru eða hefja nám í læknisfræði í háskólum annarra landa. Gera má ráð fyrir að margir þessara nema leiti til skólans í Martin í Slóvakíu sem hefur verið helsta námsstöð íslenskra læknanema erlendis undanfarin ár. Allir eru sammála um að þar hafi læknanemar notið góðrar kennslu við afbragðs aðstæður. Þessir nemendur þurfa þó að greiða nokkuð há námsgjöld.

Lengi vel fóru margir læknanemar til Danmerkur en einnig Debrecen í Ungverjalands sem er önnur stærsta borg landsins. Haustið 2018 voru íenskir lækna­nema í Slóvakíu um 160 talsins. Við það bæt­tust 60 lækna­nem­ar í Ung­verjalandi og í öðrum lönd­um. Nýrri tölur liggja ekki fyrir en á síðasta ári voru 54 Íslendinga við lækna- og tannlæknanám í Ungverjalandi. Þar er læknanámið mjög virt og alþjóðlegt og tekið út af ESB á tveggja ára fresti. Að loknu námi eru læknar þar komin með réttindi innan ESB. En námið þar var dýrt og skólinn í Martin nú talsvert ódýrari og fyrir vikið sækja íslensku læknanemarnir þangað. Þar hefur nú talsverður fjöldi íslenskra læknanema útskrifast og margir í námi. Um leið eru Íslendingar farnir að sækja í nám þar á sviði tannlækninga og hjúkrunar.

Landspítalinn við þolmörk en ekki hægt að taka við fleirum nemum

Eins og margoft hefur komið fram þá hefur Landspítalinn verið við þolmörk í sumar vegna kórónuveirunnar og þar ber mönnunarvanda einna hæst ásamt húsnæðis- og útskriftarvanda. Stjórn spítalans hefur biðlað til fólks að snúa heim úr sumarfríum sínum sökum manneklu og ekki er unnt að fullnýta legurými gjörgæsludeildar með núverandi mönnun.

Þórarinn segir í samtali við Morgunblaðið að flöskuhálsinn sé spítalinn sem geti ekki tekið við fleiri nemendum í klíníska kennslu, þær greinar séu yfirsetnar. Engu að síður sé mikill hugur hjá háskólanum að fjölga nemendum við læknadeild og vonar Þórarinn að með nýjum og bættum spítala verði það gerlegt. Það blasir við að ef hefði átt að bíða eftir nýjum spítala væri læknaskorturinn orðin skelfilegur hér á landi. Líklega væri fljótvirkasta ráðið til að fjölga læknum að hækka námslán til þeirra sem læra erlendis og beita örvandi aðgerðum til að fá þá heim. Sem betur fer vilja íslensku læknanemarnir koma heim og kunnugir segja að íslenska heilbrigðiskerfið væri ekki rekið án þeirra í dag. Ef einokun HÍ hefði ein ráðið för væri ófremdarástand á Íslandi.