c

Pistlar:

30. ágúst 2021 kl. 20:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hvað býr að baki rekstri sjávarútvegsfyrirtækis?

Það eru margir sem starfa í miðbæ Reykjavíkur sem brenna fyrir því að breyta sjávarútvegi í landinu. Sjávarútvegi, sem er að mestu stundaður úti á landi og býr við margar og ólíkar forsendur þegar kemur að rekstrarumhverfi og starfsemi. Allt nokkuð sem getur verið erfitt að setja sig inní. Um helgina var fróðlegt fylgiblað með Morgunblaðinu, 200 mílur, sem sagði margar sögur úr sjávarútveginum. Það er víst nóg að nefna sjávarútveginn og Morgunblaðið í sömu andrá til þess að hroll setji að fólki sem sólar sig í blíðunni á Austurvelli. En látum það liggja milli hluta.bátur

Það er hins vegar fróðlegt að beita smá rannsóknaraðferð á viðtal sem blaðið á við Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóra Ísfélags Vestmannaeyja. Svona hálfgerðri meigindlegri rannsókn sem gengur út á að rýna í hvað Stefán er að segja um fyrirtæki sitt og dýpka um leið skilning á því hvað við er að eiga í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja. Fyrst er til að taka að nýtt fiskveiðiár hefst um komandi mánaðamót og útgerðirnar eðlilega spenntar fyrir því en nýlega fengu þær bæði slæmar og góðar fréttir þegar tilkynnt var um breytingar á aflaheimildum. Það er kannski ofrausn að segja góðar því að fyrir sumar útgerðir voru þær afleitar og hafa það í för með sér að á meðan stjórnmálamenn þeytast um landið verða stjórnendur almargra sjávarútvegsfyrirtækja að leggja nótt við dag við finna leiðir til þess að láta reksturinn ganga upp í ljósi þess að þær fá mun minni fisk að veiða. Sumar útgerðir munu þurfa að fækka vinnudögum sem hefur í för með sér verulegt rekstrartap og er auðvitað bagalegt fyrir starfsmenn þeirra.

Á komandi fiskveiðiári skerðist þorskkvótinn um 13% og mun það augljóslega valda greininni tekjutapi enda þorskurinn algjör lykiltegund og ber reyndar höfuð og herðar yfir aðrar fisktegundir. Þá bæði hvað varðar það verð sem kaupendur eru tilbúnir að greiða og eins hve auðvelt er að veiða þorskinn. Þorskurinn er sú tegund sem skilar yfirleitt mestri afkomu og sá stofn sem við þekkjum best og höfum rannsakað hvað lengst. En þetta varpar um leið ljósi á hve ófyrirsjáanlegur sjávarútvegurinn er. Það segir sig sjálft að það er erfitt að fjárfesta og stunda markaðsstarf í slíku umhverfi en pistlaskrifari hefur rekið sig á það að landsmenn hafa lítinn skilning á eðli og mikilvægi markaðsstarfs sjávarútvegs upp á að fá gott verð fyrir vörur okkar. Líklega myndi það vefjast fyrir mörgum á Austurvelli að átta sig á þessum þáttum, ekkert gerist af sjálfu sér þar.stefán

Reksturinn á að þola sveiflur

Ísfélagið hefur byggt sinn rekstur upp til þess að hann þolir sveiflur betur. Félagið stundar veiðar á bæði uppsjávar- og bolfiski en uppsjávartegundirnar mynda um það bil þrjá fjórðu af tekjum félagsins. Um það segir Stefán í áðurnefndu viðtali: „Uppsjávarfiskurinn hefur verið mjög sveiflukenndur og loðnan – sem skiptir okur mestu máli – verið í niðursveiflu undanfarin ár. Núna hefur sú þróun snúist við, útlit fyrir góða loðnuvertíð og bjartar horfur fram undan. Eins líta veiðar á makríl og norsk-íslenskri síld ágætlega út, og þá hafa stjórnvöld tvöfaldað kvótann úr íslenska síldarstofninum.“

Stefán bendir á að undanfarin ár hafa verið nokkuð erfið fyrir útgerðir sem reiða sig á loðnuveiðar og segir Stefán en það lífsspursmál fyrir Ísfélagið að hafa bolfiskveiðar og -vinnslu einnig sem stoð í rekstrinum. Fyrir vikið hafi gengið ágætlega að skapa bæði störf og verðmæti en sum fyrirtæki halda úti störfum í bolfiskvinnslu til að tryggja að starfsmenn séu tiltækir þegar uppsjávarfiskurinn mætir. Það er í raun byggðastefna en ljóst er að bæði fyrir fyrirtækið og fyrir starfsfólkið er það loðnan sem er langmikilvægust. Stefán bendir á að blessunarlega hafi verið ágætis gangur í makríl- og síldveiðum þau ár sem voru loðnulaus. Já, það koma heilu árin án hráefnis. Til að þola það verða sjávarútvegsfyrirtækin að hafa sterka eiginfjárstöðu skyldi það vefjast fyrir einhverjum.

Ísfélagið hefur í smáum skrefum styrkt sig í vinnslu og veiðum á bolfiski, bæði með kaupum á aflaheimildum og með bættum búnaði í landi. Auðvitað fara ekki allir svona að og til eru félög sem sem stóla nær eingöngu á uppsjávarveiðar og reiðir ágætlega af hafi þau á annað borð fjárhagslegan styrkleika. Þau þurfa einfaldlega að hafa borð fyrir báru svo þau geti tekist á við sveiflurnar bendir Stefán á.

Þarf að setja meiri kraft í rannsóknir

En lykilatriði fyrir sjávarútveginn er að hafa áreiðanlegar upplýsingar þegar kemur að veiðiráðgjöf sem er í höndum opinberrar stofnunar, Hafrannsóknarstofnunar. Algengt er að stjórnendur útgerðarfélaga séu ósammála ráðleggingum stofnunarinnar og telji stærð og ástand fiskstofnanna betra en ráða má af mælingum.

Að mati Stefáns væri hægt að stórbæta ákvarðanatöku um fiskveiðar og um leið auka svigrúm til veiða ef meira fjármagni væri varið í hafrannsóknir. Segir hann vísindamennina hafa úr mjög takmörkuðu magni gagna að moða og öll óvissa sé túlkuð á þá vegu að minnka veiðar frekar en hitt. Það segir sig eiginlega sjálft, óvissan dregur úr Hafró að gefa út ráðgjöf. Stefán segir réttilega að Íslendingar eyði allt of litlu í rannsóknir á lífríkinu í hafinu umhverfis landið og segist þess fullviss að með auknum framlögum til rannsókna, og bættri þekkingu á þeim fiskstofnum sem við nýtum, myndu vísindamenn Hafrannsóknastofnunar treysta sér til að mæla með aukningu veiðiheimilda sem síðan myndi skila sér í viðbótartekjum fyrir þjóðarbúið sem væru langt umfram kostnaðinn við rannsóknirnar. Þetta er merkilegt að lesa og sýnir glögglega hve líffræðilega viðkvæm þessi grein er.