c

Pistlar:

12. september 2021 kl. 14:02

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sóun og þjáningar í heilbrigðiskerfinu

Það er augljóst að heilbrigðismálin eru ofarlega í hugum fólks núna skömmu fyrir kosningar. Margt stuðlar að því en í grunninn upplifa margir landsmenn að ákveðið stefnuleysi hafi ríkt í málaflokknum undanfarin ár, stefnuleysi sem birtist í því að mikilvægum þáttum sé ekki sinnt og stórir sjúklingahópar orðið útundan. Þetta er dálítið merkilegt því á sama tíma eru Íslendingar í miðju kafi við stærstu fárfestingu sem þeir hafa ráðist í í þessum málaflokki, nefnilega að reisa nýjan Landspítala. Sem ýmist hefur vetrið kallaður Þjóðarsjúkrahúsið nú eða Hátæknispítali. Augljóslega er það tilfinning flestra að húsið sé að rísa allt of seint, alltof hægt gangi við bygginguna og svo fjölgar þeim sem trúa því að það rísi á röngum stað. Allt þetta sýnir mikið stefnu- og dugleysi í málaflokknum.heilbrigðisk

En hvernig stendur á því að fólk upplifir almennt skipulagsleysi í þessum málum sem eru okkur svo mikilvæg? Jú, við höfum augljóslega verið með ríkisstjórn sem er ósamstíga og hefur mjög ólíka sýn á hvernig eigi að standa að málum. Svo er ekki hægt að horfa framhjá verkum heilbrigðisráðherrans sem virðist hafa verið einstaklega lánlaus í stefnumörkum og aðgerðum. Framkvæmdin varðandi krabbameinsskimanir kvenna hefði að öllu eðlilegu átt að kalla á afsögn, þar hafa einfaldlega hneykslanlegir hlutir gerst.

Sáttin sem hvarf

Það eru ekki nema tvö ár síðan þessi sami ráðherra kynnti nýja heilbrigðisstefnu sem átti að marka sátt í þjóðfélaginu. Hér á þessum vettvangi var þá spurt: Sátt fyrir hverja? Sú spurning blasti þá strax við og hefur komið á daginn. Blásið var til blaðamannafundar og ráðherra sagði að um mikilvæg tímamót væri að ráða og í tilkynningu sem hún lét senda út við sama tækifæri er staðhæft að stefnan verði „mikilvægur leiðarvísir“ fyrir forstjóra í heilbrigðiskerfinu. Þvílíkt rangnefni en staðreyndin er sú að sjaldan eða aldrei hefur verið meira ósætti innan heilbrigðiskerfisins. Engin hefur stuðlað meira að því en ráðherrann sem ber ábyrgð á málaflokknum.

Ráðherra hefur ráðist í ýmsar aðgerðir sem hafa byggt á vondri stefnu og vanhugsaðri. Þannig hefur heilbrigðisráðherrann fengið að sveigja heilbrigðiskerfið í átt að auknum ríkisrekstri á kostnað sjálfstætt starfandi aðila og félagasamtaka. Þetta hefur haft í för með sér skerðingu á heilbrigðisþjónustu við almenning og viðhaldið og aukið við biðlista þegar kemur að ýmsum algengum aðgerðum. Dæmin blasa við, þannig er fólk látið bíða endalaust eftir liðskiptaaðgerðum á hné og mjöðm í stað þess að semja við innlendan einkaaðila sem hafa verið tilbúnir að gera fjölda slíkra aðgerða. Síðan er fjöldi fólks sendur á einkasjúkrahús í Svíþjóð vegna sömu aðgerða. Kostnaðurinn er tvö og hálft til þrefaldur miðað við það sem er í boði hér á landi. Aðrir bíða og bíða og neyðast að lokum til að kosta sjálft aðgerðir sem ríkið þó á að gera.

Sóun og þjáningar

Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir á Landspítala (LSH), sagði í þættinum Sprengisandi í morgun að það væri „borin von“ sé að spítalinn geti sinnt öllum verkefnum sínum miðað við núverandi fjárveitingar og telur að ýmsar valkvæðar aðgerðir, líkt og mjaðma- og hnéskiptaaðgerðir, ættu að geta farið fram annarsstaðar en á LSH. Þá gæfist meira svigrúm til að sinna þar sérhæfðari þjónustu. Orðrétt sagði hann: „Það er bara fáránlegt að sjúklingar sem eru að bíða eftir mjaðmaskiptaðgerð eða hnjáskiptaaðgerð þurfi að fara til Svíþjóðar og jafnvel láta íslenskan lækni framkvæma aðgerðina á klíník þar í stað þess að það sé gert hérna heima.“ Það er ekki nema vona að starfsfólki heilbrigðiskerfisins blöskri þessi sóun. Á meðan svona er staðið að málum er líklega tilgangslítið að dæla meiri fjármunum inn í kerfið.