Loftslagsmál urðu ekki endilega að því stóra kosningamáli sem margir væntu hér á landi frekar en í kosningunum í Noregi vikuna á undan eða í Þýskalandi í gær. Það breytir því ekki að þau eru fyrirferðamikil í umræðunni og allir stjórnmálaflokkar eru krafðir sagna um hvað þeir ætli að gera í loftslagsmálum. Því getur verið erfitt að svara þar sem oft blandast saman almenn umhverfismál og það sem beinlínis getur fallið undir loftslagsmál. Þannig gast flokkur fengið lægri einkunn hjá ungum umhverfisverndarsinnum, í samantekt þeirra fyrir kosningar, ef viðkomandi flokkur var til að mynda ekki fylgjandi hálendisþjóðgarði. Margt annað sem ekki blasir beinlínis við að tilheyri loftslagsmálum gat þannig haft áhrif á einkunnagjöf flokka og ljóst að einkunnagjöfin var ansi matskennd á allan hátt og inn í hana dregnir fjölmargir þættir sem áttu ekki við.
Grunnþáttur í loftslagsumræðunni núna er að heimurinn hafi svo mikla þekkingarfræðilega vissu fyrir því að loftslagsmál stefni í eina átt að við því verði að bregðast. Til að ná þessari vissu þarf að safna saman gríðarlegu magni upplýsinga og þessar upplýsingar verða að vera nákvæmar og falla að þeim kenningum sem settar hafa verið um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Með aðkomu Sameinuðu þjóðanna og loftslagsnefndar hennar á að vera kominn grundvöllur að þekkingu í þessum málum sem verður ekki dregin í efa. Það sé einfaldlega svo, að svo stór hópur vísindamanna hafi ljáð þessari kenningu nafn sitt að hún sé hafin yfir vafa. Þar með hafi verið rutt úr vegi öllum mælingar- eða útreikningaskekkjum og aðleiðing sönnunarinnar sé skotheld. Á þessu byggja loftslagsvísindi nútímans og fullyrðingin sem rekin er framan í efasemdamenn segir einfaldlega; þetta er vísindalega sannað!
Börn og unglingar í angist
En í ljósi þessa er dálítið undarlegt að það eru fyrst og fremst börn og unglingar sem reka þessa baráttu frá degi til dags. Hér var áður vikið að tilraun ungra umhverfisverndarsinna til að gefa stjórnmálaflokkum einkunn eftir vægast sagt undarlegum kríteríum. Um leið hefur ungt fólk staðið fyrir mótmælum á Austurvelli og víða. Sumum kann að þykja þetta ánægjulegt og sýni áhuga ungs fólks á málinu en það breytir því ekki að orðræða unga fólksins er oft slagorðakennd og framsetning einstrengingsleg og varla í anda vísindalegrar umræðu. Þá vefst fyrir mörgum að finna takt í umræðu við þennan aldurshóp.
Þegar horft er til þess að daganna langa dynja á ungu fólki og jafnvel börnum alskyns fullyrðingar og ummæli um endalok heimsins vegna loftslagsmála þá hljóta menn eð verða hugsi yfir hvernig þessari umræðu er stýrt og hvað hún á að færa okkur. Það er einfaldlega orðið svo að börn og unglingar bera með sér ótta og angist yfir þróun þessa málaflokks. Við sem eldri erum þekkjum vel úr sögunni að það koma upp úrlausnarefni sem þarf að takast á við og mannkyninu hefur iðulega tekist það um leið og nýjar áskoranir steðja að. Vel getur verið að ungt fólk átti sig ekki á því en staðreyndin er sú að þetta sama unga fólk er af þeirri kynslóð sem aldrei hefur haft það betra.
Þekktir svartsýnis- og bjartsýnismenn
Það þýðir auðvitað ekki að það þurfi ekki að bregðast við í umhverfis- og loftslagsmálum. Mannkynið hefur gengið á auðlindir jarðar og hugsanlega fellst mesta ógnin í fjölgun mannkyns þó að hámarkið eða mannfjöldatoppurinn virðist ætla að vera minni en áður var ætlað. Við getum verið minnug þess að á átjándu öld dró klerkurinn Tómas Róbert Malthus (1766-1834) þá ályktun að mannfjöldinn yrði alltaf meiri en svo að nægur matur yrði til handa honum. Malthus var fyrsti þekkti svartsýnisspámaðurinn í röðum hagfræðinga og hér hefur áður verið fjallað um hann í pistlum.
Mannkynið hefur leyst fæðuvandann, tekist á við ógnir vegna margvíslegrar mengunar, súrs regns, eyðingu ósónlagsins og kjarnorkuvá. Það eru lausnir, gleymum því ekki. Hér í pistli hefur áður verið getið bókarinnar Project Drawdown eftir höfundinn Paul Hawken en hann hefur vakið athygli fyrir að nálgast umhverfismál með lausnir að leiðarljósi. Hawken hefur þannig sett fram innkaupalista sem inniheldur jákvæð áhrif á umhverfismál, einhverskonar framkvæmdaáætlun bjartsýnismannsins. Á þann hátt vill hann leggja áherslu á að hægt er að hafa jákvæð áhrif á umhverfi án þess að kalla eftir stórkostlegum efnahagslegum fórnum og stefna þannig fjárhagslegri velferð jarðarbúa í hættu. Það ætti að vera mönnum til umhugsunar.
Orkuspárnefnd Orkustofnunar gaf út nýja eldsneytisspá fyrir tímabilið 2021-2060. Starfandi eru þrír vinnuhópar á vegum Orkuspárnefndar, og sér hver þeirra um undirbúning orkuspár á sínu sviði, þ.e. eldsneytisspár, jarðvarmaspár og raforkuspár. Þessi spá og meðfylgjandi sviðsmyndir er áhugaverð og sýnir leiðir til úrlausnar sem unga fólkið getur vonandi sætt sig við. Ég mun gera hana að umtalsefni í komandi pistlum.