Það er munur á veðri og loftslagi segja helstu talsmenn loftslagsvandans og eru þá að vanda um fyrir þeim sem telja sig bara ekki sjá nein sérstök merki um breytingar á loftslagi með vísun veður liðinnar viku. Þetta er svo sem þörf aðferðafræðileg nálgun og ekki veitir af. Menn geta ekki leyft sér að draga víðtækar ályktanir út frá sértækum atburðum sem einir og sér segja ekkert. Þessi sannindi hefði leiðarahöfundur Fréttablaðsins getað haft í huga í dag en rigningaveður undanfarinna daga og tilheyrandi skriðuföll urðu honum tilefni til að skrifa mikinn heimsendapistil. Byggt á rigningu eins dags. Vissulega var hún mikil og hafði sín áhrif en það er nú eðli óveðurs, hvort sem það snjóar eða rignir of mikið. Nú eða ef sólin skín of lengi og rigningin lætur standa á sér. Veður er fjölbreytt fyrirbæri.
Vísindamenn segja að veðurfarsveiflur séu meiri á Ísland en víðast hvar annars staðar á jörðinni. Slíkar sveiflur munu halda áfram jafnvel þó að meðalhitastig jarðar rísi vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum. Það væri þarft að hafa þetta í huga þegar menn íhuga að lýsa yfir neyðarástandi hér á landi.
Ef við viljum ræða loftslagsbreytingar er að mörgu að hyggja. Það má til dæmis hafa í huga að jöklar landsins eru taldir hafa verið í hámarksstærð um aldamótin 1900 og höfðu þá verið að stækka hratt áratugina og aldirnar á undan. Ruðst um leið yfir allt sem fyrir var. Erfitt er að segja með nákvæmni hve lengi þeir voru að ná þessari stærð en við vitum að fyrir svo sem 10 til 12 þúsund árum var jökulhella yfir Norður-Evrópu og mótaði landslag og veðurfar. Í jarðsögulegu tilliti er þetta stuttur tími en alls ekki mestu breytingar sem orðið hafa. Lítum aðeins á Íslandssöguna og allar þær breytingar sem rúmast innan hennar í veðurfari og þá um leið lífsskilyrðum hér á landi en einhverja hugmynd höfum við um að þegar kemur fram á 14. öld fer veðurfar og árferði að versna.
Lurkur tekur við af Píningsvetri
17. öldin hófst með miklum hörkum hér á landi, einum versta kafla sem um getur í gjörvallri Íslandssögunni skrifar Helgi Þorláksson sagnfræðingur í Sögu Íslands (VI. bindi) og bætir við: Veturinn 1600-1601 nefndist Píningsvetur, veturinn 1601-02 var nefndur Lurkur eða Þjófur, árið 1603 var nefnt Kynjaár, árið 1603 Blóðsóttarár og árið 1604 Eymdarár. Nöfnin segja sína sögu um það sem yfir þjóðina gekk, hvað skyldi hafa verið skrifað í leiðara Fréttablaðsins þá!
Af Skarðsannál má ráða að árið 1601 versnaði öll veðrátta mjög, sumarið var kalt og veturinn 1601-02 var með afbrigðum harður. Menn töldu að annaðs eins hallæri hefði ekki komið í 100 ár en eldra mundu elstu menn ekki. Árin á eftir varð mannfall um allt land og bæir og byggða eyddust. Árið 1605 sást hafís við Grindavík, já Grindavík! Árin 1610-13 var víða hallæri með sauðafelli, megrunarsótt (vaneldissjúkdómur) og bráðadauða.
Kuldaskeið 19. aldar og jöklar í hámarki
Seinni hluta 19. aldar stóð yfir eitt harðasta kuldaskeið á Íslandi frá landnámi, í það minnsta í um 350 ár eða frá árunum í kringum 1550, já tíðafar var jafnvel verra en í upphafi 17. aldar sem rakið var hér að framan. Það er rækilega skráð í íslenskar heimildir hve hart veðurfar var á Íslandi á 17. 18. og 19. öld. Á þessum árum var Ísland nær því óbyggilegt vegna harðæris. Í kjölfar Skaftárelda í lok 18. aldar fækkaði landsmönnum og búsmala gríðarlega. Það voru áhöld um hvort landið væri byggilegt. Jöklar stækkuðu gríðarlega á þessu harðæristímabili. Þegar kom fram yfir aldamótin 1900 tók að hlýnað en þrátt fyrir það hafa hita- og kuldaköst haldið áfram að vegast á. En þessi breyting hefur leitt til þess að jöklar hafa sannarlega hopað þó þeir séu fráleitt orðnir eins litlir og var við landnám. Enginn fræðimaður heldur því fram að það sé eitthvað til sem heitir kjörstaða eða jafnvægisstaða jökla. Í hugum sumra eru jöklar leifar eða minjar um verstu veðurfarstímabili sem íslensk þjóð hefur búið við frá landnámi. Sumir þakka fyrir að hafa verið uppi síðustu áratugi.
Nú vilja margir lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum og fólk tekur sér orðið hamfarir í munn nokkuð reglulega. Nánast eins og það sé orðið keppni í að fara á taugum. Væri ekki ráð að reyna að efla rannsóknir og umræðu í stað þess að kasta frá sér öllum vísindalegum nálgunum og aðferðafræði í þessum loftslagsleik sem sumir ástunda af mikilli ástríðu.