c

Pistlar:

7. október 2021 kl. 14:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Farsælt orkuskiptaferli á Íslandi

Grunnþáttur í stefnu Íslands í loftslagsmálum byggir á orkuskiptum en við blasir að við Íslendingar erum í að mörgu leyti einstakri stöðu til þess að ráðast í slík skipti, með alla okkar grænu orku. Þannig hefur Samorka áætlað að orkuskipti í samgöngum geta sparað hverju heimili um 400 þúsund krónur á ári þegar markmið aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum hafa náðst.

Í raun ætti ekki að vera neinn sérstakur ágreiningur um það markmið en menn geta hins vegar deilt um leiðir. Augljóslega eru að eiga sér stað miklar breytingar og orkuskipti þannig að verða nánast sjálfkrafa að veruleika en harðlínufólk í loftslagsmálum vill gjarnan knýja áfram breytingar áður en tækni eða forsendur hafa skapast. Oft virðist þessi áhugi spretta af þeirri þörf harðlínufólksins að innleiða ákveðna þjáningar yfir landsmenn, líklega sem einhverskonar refsingu eða jafnvel sjálfspyntingu til friðþægingar í heimi sem virðist ekki vera stjórnað eins og þeim líkar.orkuskipti

Ártöl til að miða við

Í nýrri eldsneytisspá Orkuspárnefndar Orkustofnunar kemur fram að sannarlega hefur verið aukin áhersla á að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis undanfarin ár. Stjórnvöld hafa sett sér markmið um hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum og haftengdri starfsemi og eru hér nokkur ártöl til að miða við. Þá hafa verið sett markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til að mæta skuldbindingum Íslands gagnvart Parísarsáttmálanum, en þar er miðað við árið 2030. Stjórnvöld hafa ennfremur lögfest að Íslands skuli vera kolefnishlutlaust eigi síðar en árið 2040.

Í samþykktri orkustefnu fyrir Ísland, sem unnin var þverpólitískt, er stefnt að því að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti á lofti, láði og legi fyrir árið 2050. Þessi ártöl eru þær vörður sem við Íslendingar miðum við þegar kemur að því að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar. Hér er ekki verið að gera athugasemd við loftslagsvísindin sem slík, hér hafa verið sett út viðmið og sjálfsagt að miða við þau.

Gríðarlegur samdráttur í grunnatvinnugreinum

Höfum í huga að heildarlosun á koldíóxíðmagni (koltvísýringur, koltvíoxíð eða koltvíildi) frá sjávarútvegi og matvælaiðnaði var 55% minni árið 2017 en árið 1995. Langstærsti hluti þessa er vegna minni olíunotkunar í sjávarútvegi, en hún hefur dregist saman um tæp 50% frá árinu 1990. Við erum nú þegar að sjá miklar breytingar sem gerast vegna kröfu greinanna sjálfra um hagræðingar og getu þeirra til að fjárfesta í nýrri tækni., Framundan er að rafvæða sjávarútveginn en frekar en til þess þarf hann að hafa getu til að fjárfesta. Það gerir hann ekki ef hann verður bundin í fjötra ofurskattlagningar.

Grunnspá Orkuspárnefndar sýnir þróun miðað við óbreyttar forsendur (e. business as usual) sem í meginatriðum felur í sér að horft er til þeirrar framfara sem orðið hafa í orkuskiptum hingað til og ólíklegt er að snúi til baka en á móti gerir ekki ráð fyrir mögulegum aðgerðum til að flýta fyrir orkuskiptum í geirum sem eru skammt á veg komnir. Í spánni segir að ljóst sé að forsendur munu þurfa að breytast mikið ef stjórnvöld ætla sér að ná markmiðum sínum í orkuskipta- og loftslagsmálum. Því hafa verið útbúnar ólíkar sviðsmyndir um innleiðingu sem tilraun til að skoða hvernig þróunin þurfi að líta út til að ná þeim markmiðum. Þessar sviðsmyndir gefa okkur Íslendingum enga ástæðu til svartsýni. Því væri fráleit niðurstaða núna að lýsa yfir neyðarástandi og trufla þannig það ferli sem við erum nú þegar í.