c

Pistlar:

13. október 2021 kl. 13:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Leysa vísindin loftslagsmálin?

Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands og Verkfræðistofnun Háskólans standa fyrir viðburði í dag í tengslum við Hringborð norðurslóða 2021. Um er að ræða fyrirlestraröð um hreinsun og förgun/notkun koldíóxíð (koltvísýringur, koltvíoxíð eða koltvíildi) úr lofti og útblæstri stóriðju- og orkuvera. Hér eru semsagt verkfræðingar að kynna til leiks þær lausnir sem standa til boða og eru í þróun þegar kemur að förgun koltvíoxíðs en margir horfa til þess sem leiðar til þess að vinna gegn loftslagsbreytingum eins og þær birtast í spám sérfræðinga. Það er vissulega ánægjulegt að sjá að miklar breytingar hafa orðið á þessu sviði og við Íslendingar höfum kynnst því í gegnum ýmis þróunarverkefni hér en þar er Carbfix-tæknin fyrirferðamest en um það hefur verið fjallað sérstaklega hér í grein.föngun

Áður en lengra er haldið er þó ekki annað hægt en að benda á náttúrulegustu og ódýrustu leiðina til að fanga koldíóxíð nefnilega skógrækt en á það hefur verið bent margoft í pistlum hér. Það er leið sem ætti að henta okkur Íslendingum vel ef við getum einbeitt okkur að markmiðunum frekar en að deila um leiðir. Og það þarf ekki að efast um að vísindamenn á sviði skógræktar hafa nú þegar fært okkur mikilvæga þekkingu á þessu sviði, t.d. varðandi hvaða trjáplöntur henta best og við hvaða skilyrði. Við getum því sagt að vísindin hafi þegar varðað þá leið.

Breytt gróðurfar vegna aukins hita og koldíóxíð

Það er heldur ekki hægt annað en orða þá hugsun að með auknu koldíóxíð í andrúmsloftinu eykst vöxtur plantna verulega og þá um leið geta þeirra til að taka upp koldíóxíð. Þetta er að sumu leyti jákvætt fyrir okkur Íslendinga enda hefur gróður vaxið talsvert og hylur nú meira land en áður og gefur nýja möguleika til landgræðslu sem hefur svo aukna bindingu í för með sér. Ekki er langt síðan jarðvegseyðing var álitið alvarlegasti umhverfisvandinn hér á landi. Þá hefur gróðurlína færst talsvert hærra upp sem hefur auðvitað líka jákvæð áhrif á upptöku koldíóxíð.

En áskorunin er mikil og þó að áfram megi efast um margt í loftslagsvísindum og sérstaklega hin áróðurskennda hluta þeirra sem meðal annars birtist í tali samtaka eina og Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands undanfarið. Það er ljóður á ráði margra þessara samtaka og talsmanna þeirra að þeir eru ekki sjálfum sér samkvæmir. Þannig virðast þeir berjast gegn lausnum sem hafa sannarlega jákvæð áhrif á gróðurhúsalofttegundir á heimsvísu, svo sem notkun okkar Íslendinga á okkar grænu orku.

Áfram gagnrýnar spurningar

En aftur að hinum vísindalegu lausnum. Nú þegar grænn iðnaður og græn tækni orðið fyrirferðamikil og fjármunir virðast streyma í slíkar lausnir. Sumar eru nánast óraunverulegar í einfaldleik sínum. Það mun án efa leiða til einhvers fjárausturs því ekki eru allar ferðir til fjár. En þær munu líka hafa jákvæð áhrif og það er alveg hægt að hafa væntingar til þess að með skynsamlegum vísindalegum aðgerðum sé hægt að takmarka koldíóxíð í andrúmsloftinu. En til þess að það verði verðum við að halda áfram að spyrja gagnrýnna spurninga um allt er lítur að forsendum og framkvæmd viðbragða okkar við loftslagsvandanum eins og hann er kallaður.