c

Pistlar:

14. október 2021 kl. 16:06

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vísindi en ekki endilega nákvæmnisvísindi

Þeir sem vilja halda áfram að ræða aðferðafræði, hugsanlegar mælingaskekkjur, meðhöndlun tölfræðigagna og almennar ályktanir á annan hátt en hin viðteknu loftslagsvísindi segja til um eru gjarnan sagðir „þröngsýnir afneitunarsinnar.“ Þessi orð eru reyndar tekin beint frá umræðuhópi um loftslagsmál (Loftslagsbreytingar - umræða og fréttir) sem telur sig hafa höndlað nokkuð endanlega vissu um hvað eina er varðar þennan málaflokk. Til er önnur síða með íslenskum umræðuhópi sem virðist stofnuð sem viðbrögð við hinni fyrri, meðal annars með vísun í að þar séu allar umræður leyfðar (Loftslagsbreytingar - opin umræða og allar skoðanir leyfðar!). Á báðum þessum síðum hefur skapaðist fjörug umræða í kjölfar birtingar Helga Tómassonar á grein sinni „Tölfræðilegt sjónarhorn á skýrslur IPCC“. Helgi er prófessor í tölfræði og hagrannsóknum og með doktorspróf í þessum fræðum.loftslag11

Þessi grein er forvitnileg en eins og fyrirsögnin gefur til kynna þá er Helgi að rýna í tölfræðilega meðhöndlun þeirra gagna sem stuðst er við þegar kemur að spám um breytingar á loftslagi. Hann er ekki aðeins að reka forsendur og meðhöndlun þessara gagna heldur gerir hann einnig ágætlega grein fyrir þeim vísindamönnum sem hafa orðað efasemdir af líkum toga. Hvað sem segja má um loftslagsvísindi þá verða þau seint talin nákvæmnisvísindi. Grein Helga verður því að teljast áhugaverð og ákveðin vonbrigði hvernig sumir hafa kosið að svara henni.

Efast um gagnanotkun IPCC

Það má rifja upp að IPCC er skammstöfun á skýrslum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál og nýlega er komin sjötta skýrsla þeirra. Helgi fylkir sér í flokk þeirra vísindamanna sem efast um gagnanotkun IPCC. Hann bendir þannig á að um eldri skýrslu IPCC hafi tölfræðidoktorinn og fyrrverandi hagstofustjóri Ástralíu, Dennis Trewin, gert alvarlegar athugasemdir strax árið 2008 í OECDskýrslu í kafla 32: Gagnrýni Dennis Trewins gekk út á að því miður hafi vantað tölfræðinga í sérfræðingateymi IPCC. Útkoman innihaldi því alvarlega galla. Þessir gallar séu til þess fallnir að ýkja loftslagsbreytingar framtíðarinnar.

Helgi bendir á að Trewin hafi lofað framtak IPCC fyrir að hafa komið saman stórum hópi vísindamanna og fengið þá til að vinna saman. Hann segi þó að tölfræðilegir gallar hafi tilhneigingu til að ýkja útkomuna og að IPCC þverskallist við að leiðrétta gallana. Trewin kallar eftir því að traustur aðili eins og OECD fái það verkefni að leiðrétta vinnu IPCC svo ríkisstjórnir fái áreiðanlegar vísbendingar sem nýtist til stefnumótunar. Þetta síðasttalda er auðvitað mjög mikilvægt og það á einnig við um íslensk stjórnvöld en í síðasta pistli hér var rætt um að loftslagsmálin gegndu stóru hlutverki við stjórnarmyndun núna. Við höfum séð að vondar ákvarðanir hafa verið teknar í gegnum tíðina, ákvarðanir sem hafa óljósan ávinning en mikinn kostnað í för með sér.

Efast um tímaraðalíkangerð hjá IPCC

Hér verður ekki farið í grein Helga í smáatriðum, stundum er hún fremur fyrir sérfræðinga í tölfræðivísindum og við leikmenn í þeim fræðum leggjum við hlustir og reynum að meta gagnsemi og áreiðanleika umræðunnar. Forvitnilegt er að lesa þá ábendingu Helga að tölfræðin (statistical theory) ætti hugsanlega að heita ástandsfræði þar sem líkindafræði er notuð til að álykta um ástand út frá mælingum.

Helgi bætir við: „Önnur hagnýting á líkindafræði er ákvörðunarfræði (decision theory). Það er fræðin um hvað best sé að gera. Tölfræðingar eru oft furðu áhugalausir um það. Hvað er besta hitastigið, eða besta koltvísýringshlutfallið? IPCC-skýrsla, AR6 sem liggur fyrir, er um 4.000 blaðsíður. Leit að tímaraðahugtökum eins og sjálffylgni (autocorrelation) í textanum gefur ekki vísbendingar um þróaða tímaraðalíkangerð hjá IPCC.“

Það er eðlilegt að lagt sé við hlustir þegar vísindamenn eins og Helgi (og aðrir) koma með rökstudda greiningu á meðhöndlun tölfræðigagna. Væri ekki áhugavert ef Íslendingar reyndu meira til að leggja sjálfstætt mat á þau gögn sem öllu eiga að breyta?