Í liðinni viku fengum við að fylgjast með samspili loftslagsvísinda og stjórnmálamanna á ráðstefnu Arctic Circle í Hörpunni. Þetta er áhugaverður samstarfsvettvangur sem að þessu sinni virtist að stórum hluta vera helgaður loftslagsmálum. Gestir ráðstefnunnar komu allstaðar að úr heiminum en þó má segja að engin úr efsta lagi valdamanna heimsins hafi mætt. Líklegt er að þeir séu að hvíla sig fyrir átökin í Glasgow (COP26 Climate Summit) eftir nokkra daga þar sem án efa þarf að semja mikið bak við tjöldin til að bjarga heiminum. Nú þegar hafa margir lýst yfir áhyggjum sínum af því að ekkert komi út úr þeirri ráðstefnu.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, var einn af aðalræðumönnum nú í Hörpu og ræða hennar var helguð loftslagsmálum. Ræðan var á ensku og útgáfu hennar má finna á vef forsætisráðuneytisins ásamt íslenskum útdrætti. Það segir sig sjálft að Katrín er ekki sérfræðingur í loftslagsmálum, hennar sérfræðisvið er bókmenntafræði með áherslu á glæpasögur. Það hittir kannski ágætlega á þar sem einn helsti talsmaður loftslagsógnarinnar hér á landi er prófessor í bókmenntum við Háskóla íslands.
Forsætisráðherrar njóta þess að hafa aðstoðarmenn og aðgang að sérfræðingum. Það gæti verið umhugsunarvert að þrátt fyrir yfirlýst mikilvægi loftslagsmála og áhuga forsætisráðherra á málaflokknum þá er engin í forsætisráðuneytinu sem getur talist sérfræðingur í loftslagsmálum. Allmargir nýir starfsmenn hafa verið ráðnir inn í forsætisráðuneytið síðan Katrín kom inn, stór hluti þeirra á sviði jafnréttismála enda hefur ný skrifstofa um þann málaflokk verið sett upp eins og fréttir hafa verið af. En það er engin sem getur talist sérfræðingur í loftslagsmálum starfandi í forsætisráðuneytinu.
Tengsl Landverndar og umhverfisráðuneytisins
Einhver gæti sagt að það sé nóg að hafa þekkingu á þessum málum í umhverfisráðuneytinu en þar hefur ríkt maður sem kom beint inn í ráðuneytið úr framkvæmdastjórastóli hjá Landvernd. Landvernd hefur talsverðan áhuga á loftslagsmálum í dag þó að samtökin hafi ekki verið stofnuð utan um það þegar þau voru stofnuð árið 1969, heldur fyrst og fremst landgræðslu- og umhverfisvernd. Núverandi umhverfisráðherra og fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar hefur verið duglegur að dæla fjármagni í Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands. Samkvæmt heimasíðu Landverndar starfa þar 15 manns, 12 konur og þrír karlar. Hjá Landvernd eru skráðir 6000 félagsmenn. Hjá Náttúruverndarsamtökum Íslands eru skráðir 1700 félagsmenn, hvoru tveggja byggt á upplýsingum á heimasíðu samtakanna. Bæði þessi samtök hafa fengið styrki frá stjórnvöldum til að senda fólk á alþjóðlegar loftslagsráðstefnur og líklega verða fulltrúar þeirra í Glasgow með reglulegum viðtölum í Ríkisútvarpinu um framvindu mála.
Meirihlutavísindi - sameiginleg vitund
Það er reyndar svo að það eru ekki endilega sérfræðingar sem eru að fjalla um lofslagamálin, það er nóg að vitnað sé til sérfræðingaskýrslna þar um. Mikilvægast af öllu er að geta sagt að meirihluti sérfræðinga styðji þau vísindi sem liggja að baki ákvarðanatökum þegar kemur að loftslagsmálum. Við blasir að undanfarin ár hafa mikilsverðar ákvarðanir verið teknar þegar kemur að stefnumótum samfélaga byggð á þessum vísindum. Því getur verið áhugavert að skoða og heyra í þeim sérfræðingum sem bakka upp ákvarðanir stjórnmálamanna. Þeir sem hafa lesið pistla mína undanfarið sjá að talsverðu rými er varið í að fara yfir umræðuna og reynt að meta þau gögn sem liggja fyrir. Í því felst ekki afneitun á því að breytingar geti átt sér stað, þetta er fremur tilraun til að standa fyrir gagnrýnni umræðu.
Það dylst engum að það er til einhverskonar „opinber“ afstaða þegar kemur að loftslagsmálum og Ríkissjónvarpið gerir til dæmis sitt besta við að halda henni við. Frægur umræðuþáttur fyrir tveimur árum sýndi að Ríkisútvarpið á í vandræðum með að gæta hlutleysis. Þáttagerð og umræða aðra daga sýnir það sama. Skýrt dæmi er sýning á þáttaröð um ferðalag Gretu Thunberg og þáttaraða með efnistökum eins og birtast í Hvað höfum við gert. Það er ekki verið að að amast við sýningu þáttar um Gretu en það má þá hugsanlega sýna andstæð sjónarmið. En það kveður svo rammt að þessari samsemd umræðunnar að meira að segja Nóbels-verðlaunin í eðlisfræði fóru til loftslagsmódelasmiða mörgum eðlisfræðingum til undrunar og jafnvel gremju.