Það styttist í loftslagsráðstefnuna í Glasgow (COP26 Climate Summit) og loftslagssérfræðingar heimsins eru að undirbúa sig. Eðlilega verður talsverð umræða um loftslagsmál í aðdraganda ráðstefnunnar og í gær var ágætt samtal við Halldór Þorgeirsson, formann Loftslagsráðs, í Ríkisútvarpinu. Halldór hefur það fram yfir marga að vera í jafnvægi þegar hann talar um loftslagsmálin þó framsetning hans bjóði vissulega upp á frekari umræðu. Hann kvartar til að mynda um að það skorti framtíðarsýn hjá íslenskum stjórnvöldum þegar kemur að loftslagsmálum. Það hlýtur að vekja athygli þar sem eindregin „loftslagssinni“ situr í stól umhverfisráðherra og hefur setið síðan 2017. En dugar ekki að vera með hlutfall grænnar orku í 85% (á meðan ESB er með þetta hlutfall 17%) og stefna á kolefnishlutleysi árið 2050? Markmið sem ætti auðveldlega að nást hætti menn að tregðast við að ráðast í kolefnisbindingu með skógrækt. Þá er augljóst að grænar lausnir eru að taka við sér og íslensk fyrirtæki mjög meðvituð um það eins og Júlíus Sólnes benti á í öðru viðtali í gær. Það má því hafa miklar væntingar um að Ísland haldi áfram að vera til fyrirmyndar þegar kemur að notkun grænnar orku og grænna lausna. Það má taka undir með Halldóri að margt í umhverfismálum eru sjálfsagðir hlutir og ættu að vera hluti af stefnumótun hverju sinni.
Öllu og engu lofað í París
Loftslagsráðstefnur Sameinuðu þjóðanna eru haldnar árlega en vekja mismikla athygli. Það virðist vera talsverð spenna fyrir loftslagsráðstefnuna í Glasgow sem hefst 31. október næstkomandi og eins og svo oft áður telja loftslagssérfræðingar að nú er komið að tímamótum. Reyndar er það svo að á fimm ára fresti eru stór tímamót í samningnum og þess vegna segir Halldór Þorgeirsson að Glasgow-fundurinn sé jafnmikilvægur og sá í París og á vissan hátt erfiðari.
Á Parísarfundinum 2015 var gengið frá samningnum um markmiðssetningu og rammanum utan um hana. Gagnrýnendur segja að það hafi falist í að raða saman ýmsu sem erfitt var að fylgja eftir og þá oft einhverju sem menn voru búnir að setja sér áður. Kína lofaði til dæmis að hætta að auka koldíóxíð (koltvísýringur, koltvíoxíð eða koltvíildi (Co2)) árið 2030 - en þeir voru búnir að gefa það út fyrir Parísarfundinn þannig að það var ekki loforð sem var veitt þar. Kínverjar stefna að kolefnishlutleysi árið 2060, 10 árum seinna en flestar aðrar þjóðir. Miðað við Indland var loforð Kínverja þó einhvers virði því Indland lofaði engu nema reyna að vera skilvirkara en í París lengdu Indverjar fyrri áætlanir þannig að með Parísar-samkomulaginu voru þeir í raun að hægja á sér! Pakistan átti þó óljósasta loforðið - þeir sögðust ætla að ná hámarki einhvertímann og eftir það ætluðu þeir að draga úr koldíóxíð!
Jarðgas í stað kola
En stjórnmálamenn fengu lof fyrir Parísar fundinn og menn eins og Barack Obama baðaði sig í sviðsljósinu sem heimsleiðtogi enda má segja að undir hans stjórn hafi Bandaríkin ætlað að taka á sig syndir heimsins. Hann lofaði að draga úr koldíóxíð um fjórðung og á þeim tíma framleiddu Bandaríkin tvisvar sinnum það sem Kína og Indland gerðu pr. mann. Þegar svo Donald Trump sagði sannleikann nokkrum árum seinna og dró Bandaríkin út úr samkomulagi var hann fordæmdur, þrátt fyrir að það væri að draga úr koldíóxíð á hans valdatíma tíma vegna aukinnar áherslu á jarðgas. Lykiláhersla næstu ára hlýtur að vera að draga eins hratt og mögulegt er úr kolanotkun og það er þá betra að leysa það tímabundið með auknu jarðgasi. Því miður virðast loftslagssinnar lítt trúaðir á slíka nálgun.
Ráðstefnan í Glasgow mun taka tvær vikur og gert er ráð fyrir að leiðtogar heimsins fái tækifæri í upphafi til þess að baða sig í sviðsljósinu og upplýsa um stefnumarkandi ákvarðanir. Ekki er gert ráð fyrir að ráðast í samninga eins og í París og því bakherbergjaplottið því minna. Þarna munu allir sem vettlingi geta valdið í loftslagsmálum mæta og ánægjulegt fyrir okkur Íslendinga hve stutt er að fara. Því má gera ráð fyrir að fulltrúar umhverfisverndarsamtaka mæti þarna og Ríkisútvarpið spjalli rækilega við þá. Umhverfismál verða því áfram í umræðunni.