c

Pistlar:

30. október 2021 kl. 16:09

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Óvissuferð til Glasgow

Það má vissulega henda gaman að því að svo mikið sem 50 Íslendingar skuli leggja leið sína á loftslagsráðstefnu SÞ í Glasgow (COP26 Climate Summit) sem hefst um helgina og stendur í hálfan mánuð. Það ættu flestir að gera sér grein fyrir því að þetta fólk fer þangað á kostnað skattgreiðenda, svona að mestu leyti. Auk embættis- og stjórnmálamanna verða þarna fulltrúar Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Íslands og Ungra umhverfissinna. Sjálfsagt er hér verið að gleyma samtökum sem telja sig eiga erindi þangað. Öll þessi samtök njóta ríkulegra styrkja opinberra aðila. Þá verða þarna fulltrúar frá Loftslagsráði sem er að mestu skipað pólitískum fulltrúum en ekki vísindamönnum í loftslagsmálum. Satt best að segja virðast Íslendingar ekki vera neitt sérstaklega framarlega í þessum fræðum og hafa sætt sig við að taka við upplýsingum annars staðar frá. Hér voru fyrir stuttu vangaveltur um það hver skrifaði loftslagsræður forsætisráðherra þar sem engin sérfræðiþekking er á málinu í forsætisráðuneytinu frekar en víðast annars staðar í stjórnkerfinu. Þegar farþegalistinn er skoðaður núna sést að með forsætisráðherra fara pólitískir aðstoðarmenn. Þetta snýst því að mestu um að þýða niðurstöður annarra í þessum málum og taka undir „viðtekin sannindi“ hver svo sem þau eru. Kjarninn í því öllu er að algóritmísk rannsókn á ritrýndum greinum á að hafa sýnt að 99,9% allra fræðimanna trúa á loftslagsvanda af mannavöldum, hvað svo sem nákvæmlega felst í því. Nú síðast hefur íslenska kirkjan og páfinn í Róm stokkið upp á þennan vagn. Ekki nema von að sumir tali um loftslagskirkjuna.climate

Gamlir kunningjar hittast

Með þessum orðum er ekki verið að leggjast gegn því að fólk hittist og ræði saman, aðeins þeirri sýndarmennsku sem birtist í risaráðstefnum eins og þeirri sem er að hefjast í Glasgow. CoP stendur fyrir Conference of Parties, sem þýðir aðildarríkjaþing og því er ekki aðeins um ráðstefnu að ræða. Í tengslum við þingið verða því haldnar allskonar minni ráðstefnur vísindamanna, sérfræðinga úr orkugeiranum og áhugafólks undir ýmsum formerkjum. Gamlir kunningjar hittast og stappa stálinu í hvorn annan. Þangað telja margir sig eiga erindi og hér á landi eru fræðimenn og tæknifólk sem hefur margt fram að færa og á vissulega erindi á þingið. Það breytir ekki þeirri fullyrðingu sem kom fram hér að framan að allt þetta fólk fer þangað á kostnað skattgreiðenda. Það er einnig rétt sem Sigríður Andersen hefur bent á að margt þetta fólk sem telur sig eiga erindi til Glasgow myndi dags daglega ekki víla fyrir sér að vanda um fyrir öðrum af minna tilefni.

Misvísandi upplýsingar

Hér hefur undanfarið í pistlum birst vangaveltur um margt er varðar loftslagsmál. Þar hefur verið nefnt til sögunar margvísleg óvissa í spálíkönum og hinni tölfræðilegu aðferðafræði sem meðal annars Helgi Tómasson prófessor í tölfræði gerði að umtalsefni fyrir skömmu. Það er einungis eitt atriði af mörgum. Ekki skiptir síður máli að mikil mælingaleg og reikningsleg óvissa ríkir um CO2 útstreymi Íslendinga og hvar orsakanna sé að leita. Það er nánast sama hvar er gripið niður, daglega birtast misvísandi útlistanir á þessu, en réttar upplýsingar eru auðvitað lykilatriði ef á að vera unnt að bregðast við. Segja má að þeir sem rýni í þessi fræði sjái stöðugt mismunandi tölur og upplýsingar þegar kemur að því að meta hvaðan CO2 mengun kemur og þá ekki síður hvernig á að bregðast við því.loftslags

Það er meðal annars vegna þess að menn hafa nú þegar fjárhagslega ávinning af því að bregðast við. Einn vill selja skógrækt til losunar, annar vill moka ofan í skurði. Þeir sem eru vísinda- og tækniþenkjandi vilja selja grænar lausnir og sá iðnaður sogar til sín mikla fjármuni. Menn hafa því mikla fjárhagslega hagsmuni í öllu þessu ferli.

Ráðstefnan í Glasgow mun taka tvær vikur og gert er ráð fyrir að leiðtogar heimsins fái tækifæri í upphafi til þess að baða sig í sviðsljósinu og upplýsa um stefnumarkandi ákvarðanir enda pólitískur þrýstingur um sumt af því heima fyrir. Ljóst er að leiðtogar stærstu mengunarvaldanna munu ekki láta sjá sig. Eins og áður sagði verður dágóður hópur frá íslenskum umhverfisverndarsamtökum þarna og Ríkisútvarpið mun sjálfsagt spjalla daglega við þá. Efasemdamenn fá því um margt að hugsa.