Vísindamiðlarinn Sævar Helgi Bragason, umsjónarmaður margra þátta um loftslagsmál hjá Ríkisútvarpinu, skrifar á tvít sitt í dag: „Í Mbl í dag er vandræðalegur leiðari, hlægilegir staksteinar og grátleg grein eftir þingmann (sic!).“ Hann fylgir tvítinu eftir með grein á Vísi þar sem hann reynir að afsaka flugskömm vegna móður allra loftslagsráðstefna (COP26 Climate Summit). Frá ráðstefnunni í Glasgow má sjá myndskeið af fréttamanni GB sjónvarpsstöðvarinnar þar sem hann eltir John Kerry, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og þráspyrja hann hvort það sé í þágu loftslagsins að hann kom á einkaþotu til Glasgow. John Kerry steinþegir bak við grímuna. Forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, sagði í ræðu sinni í Glasgow að niðurstöður vísindanna óyggjandi að sönnunargildi, loftslagsmarkmiðin samkvæmt Parísarsáttmálanum hrykkju ekki til við að halda hnattrænni hlýnun innan öryggismarka. Ísland hefði í fyrra hækkað markmið sitt um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda úr 40 í 55 prósent fyrir árið 2030. Og bætti svo við: „Við þurfum að láta orkuskiptin ná til skipa og flugvéla. Við þurfum að gera betur í náttúrulegum lausnum. Síðastliðin þrjú ár höfum við hert róðurinn sem nemur tvöföldun. En við þurfum meira – miklu meira,“ sagði forsætisráðherra og flaug svo með fylgdarlið sitt á Norðurlandaráðsþing í Kaupmannahöfn.
Neyðarástand strax
Í Fréttablaðinu eiga aðgerðarsinnar á sviði loftslagsmála (ætti maður að segja loftslagssinnar?) sviðið og svara ræðu Katrínar og stefnu íslenskra stjórnvalda. Þar kemur fram að hin óþreytandi rödd Náttúruverndar samtaka Íslands, formaðurinn Árni Finnsson, er gagnrýninn á leiðtogaávarp Katrínar frá því í gær. Hann fullyrðir að Ísland ekki hafa uppfært sitt markmið og breytir engu þó forsætisráðherra segi að það hafi verið gert í fyrra. Tinna Hallgrímsdóttir, formaður Ungra umhverfissinna, tekur í sama streng í Fréttablaðinu og segir að Íslendinga skorti sjálfstæðan metnað en samtök hennar berjast fyrir því að lýst verði yfir neyðarástandi strax hér á landi í loftslagsmálum. Slíkt skref virðist ekki fjarri vilja margra stjórnmálamanna á vinstri væng stjórnmálanna. En er þá ekki nærtækt að spyrja hvernig slík yfirlýsing lítur út að nokkrum árum liðnum? Leiðarahöfundur Fréttablaðsins í dag, Aðalheiður Ámundadóttir, vill að Íslendingar setji efnahagslegan þrýsting á Rússland og Kína og spyr: „En er sambandið þess virði að horfa upp á tortímingu jarðarinnar frekar en setja þeim stólinn fyrir dyrnar?“ Miklir menn erum við Hrólfur minn! Um leið póstar Ágúst H. Bjarnason verkfræðingur vísindagreinum á frægri efasemdasíðu þar sem bent er á að jörðin sé að verða talsvert grænni vegna aukins CO2 í andrúmsloftinu. Úti í Glasgow er sjálfur David Attenborough á mælendadagskrá.
Woodstock umhverfissinna
Íslenskir og erlendir fjölmiðlar eru eðlilega uppfullir af fréttum um loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna en satt best að segja er samkoman að vekja stöðugt meiri undrun. Hún er að breytast í einhverskonar Woodstock umhverfissinna, miklu frekar en skynsamlegan samráðsvettvang þar sem reynt er að stilla saman strengi, vinna að stefnumótun og skapa vettvang fyrir vísindalega ákvarðanatöku. Allt sem ætti að stuðla að upplýstum ákvörðunum. Koma ýmissa ráðamanna og fjölmiðlafígúra minnir á rauða dregilinn í Cannes eins og myndskeið af því þegar leikarinn Leonardo DiCaprio og auðmaðurinn Jeff Bezos komu á COP26 í gær. Þeir sem eru ferðafærir úr bresku konungsfjölskyldunni eru þarna og fjölmiðlar halda úti listum um frægðarfólk í Glasgow. Það sást jafnvel enn betur þegar loftslagsbarnið Greta Thunberg mætti umvafin lögreglu og „aðdáendum“. Undir þessu dynja trumbur heimsendaspámanna þar sem hver étur upp eftir öðrum og stjórnmálamenn gera sig að viðundrum með lítin vísindalegan bakgrunn. Allt á hverfanda hveli - síðustu forvöð og allt það. Og svo flogið heim í hefðbundin störf. Þetta birtist skýrt í aðkomu okkar forsætisráðherra, því miður.
Aðgerðaleysissinnar og hamfarasinnar
Halldór Björnsson, hópstjóri veðurs og loftslags hjá Veðurstofunni, skrifaði grein í Fréttablaðið í gær þar sem hann notaði orðið „aðgerðaleysissinnar“ um þá sem hann telur vilja tefja en hann telur að tíminn sé að renna út. Hann sjálfur er því á mörkum þess að geta talist „hamfarasinni“, en til þess hóps mætti telja fólk sem talar eins og við séum komin fram af björgunum. Umræða sem Al Gore ber að hluta til ábyrgð á en hann lýsti því yfir er hann tók við Nóbelsverðlaununum í desember 2007 að Norðurpóllinn yrði líklega bráðnaður að fullu árið 2013. Með mynd sinni Óþægilegur sannleikur (An Inconvenient Truth) sem kom út 2006 stimplaði sig inn sem helsta talsmann loftslagsvandans og viðbragða við honum. Um leið átti hann hlut í að skapa myndmál vandans sem var til þess fallið að vekja áhyggjur (jafnvel skelfingu) meðal áhorfenda.
En hugtök og skilgreiningar skipta máli. Það mætti til dæmis horfa til prófessor Judith A. Curry sem er loftslagsfræðingur, gjarnan kölluð „neo-skeptic“ (ný-efasemdarmanneskja) eða jafnvel villitrúarmanneskja en hún flytur áhugaverða nálgun á loftslagsvísindin. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að fellibyljum, fjarkönnun, lofthjúpslíkönum, pólloftslagi, víxlverkun lofts og sjávar, loftslagslíkönum og notkun ómannaðra loftfara til lofthjúpsrannsókna. Það er því óhætt að segja að Judith A. Curry hafi talsvert til málanna að leggja þegar kemur að loftslagsmálum og ferilsskrá hennar talsvert öðru vísi en hjá til dæmis Gretu Thunberg. Judith A. Curry er ein af stórum hópi vísindamanna sem komið hafa með málefnalega gagnrýni á skilgreiningar IPCC eins og þær birtast í skýrslum ráðsins. Hún fylgist með Glasgow úr fjarlægð.