„Á árunum fyrir hrun þótti það svo mikil frétt ef einhver var ríkur. Það hefur breyst. Ég held að Íslendingar eigi miklu fleiri milljarðamæringa í dollurum núna en fyrir hrun, þeir eru bara ekkert að flagga því. Þessir aðilar eru bæði á Íslandi og erlendis. Fólki er meira sama núna, þetta er ekki „headline news” lengur.“
Þannig komst Jón Ásgeir Jóhannesson að orði þegar hann var að kynna bók sína, Málsvörn, á síðasta ári. Um leið sagðist hann hafa tapað 99% af auði sínum frá því fyrir bankahrun og lifði nú að mestu í gegnum viðskipti konu sinnar. Fallvaltleiki auðsins birtist skýrt í ferli Jóns Ásgeirs sem sýnir að umsvif eru ekki alltaf ávísun á auð.
Í hinni daglegu umræðu er mikið fjallað um auð og eignamyndun og við erum farin að sjá aftur talsverða fjölmiðlaumfjöllun um sýnileika auðsins eins og hann birtist í glæsihúsum eða gljálífi þó kórónaveiran hafi haft af okkur stórveislur fyrri tíma. Gljálífis er gatan breið, var eitt sinn kveðið en auðurinn eða hinn meinti auður smitast gjarnan út í dægurumræðuna og sumar atvinnugreinar og stéttir eru þá gjarnan teknar til marks um eitthvað óréttlæti sem talið er geta skýrt auð þeirra. Eign er glæpur, sögðu anarkistar og vísuðu þá til þess að engin gæti eignast eitthvað án þess að taka það af öðrum. Þó þetta gangi rökfræðilega illa upp þá hefur þessi setning orðið þrautseig.
Auðmannalandið Svíþjóð
Það er forvitnilegt að færa þessa umræðu til Svíþjóðar en Norðurlöndin hafa löngum verið talin þau lönd heims þar sem mest jafnræði ríkir og almennt hlúð vel að almenningi og þeim sem minna mega sín. Háir skattar eru gjald þess. Hljómsveitin Abba er nú að skila frá sér nýrri plötu en eins og margir muna státar hljómsveitin af laginu Money, Money, Money þar sem sungið var um veröld hinna ríku. Tímaritið Economist rifjaði upp fyrir ekki svo löngu síðan að líkast til eigi ekkert land hlutfallslega fleiri milljarðamæringa í dollurum talið. Þannig sé einn dollaramilljarðamæringur fyrir hverja 250.000 íbúa. Líklega getum við Íslendingar tínt til þá Davíð Helgason og Björgólf Thor Björgólfsson í slíkan hóp en báðir hafa efnast erlendis. Meðlimir Abba eru taldir fylla þennan dollaramilljarðamæringahóp.
En Economist telur að hlutfall dollaramilljarðamæringa í Svíþjóð sé á pari við lönd eins og Kýpur, Mónakó eða Rússland og Georgíu þar sem misskipting auðs sé gríðarleg. Margir undrast þetta.
Vinsælir auðmenn
Það kann einnig að koma á óvart að í landi jafnaðarmannanna, Svíþjóð, eru auðmenn furðu vinsælir. „Aðeins konungsfjölskyldan, Astrid Lindgrem, Abba og Björn Borg gátu keppt við hann í vinsældum,“ skrifaði sænskt dagblað í minningagrein um Ingvar Kamprad, stofnanda og aðaleiganda Ikea. Umræða um ofurskatta á þá ríku er því mætt með fálæti í Svíþjóð dagsins í dag. Hugsanlega vegna þess að allir þessir einstaklingar (utan konungsfjölskylduna og Astrid Lindgren) hafa flúið skattlagningu í Svíþjóð í fortíðinni. Auður Ingvar Kamprad fór svo leynt að dagblaðið The Sunday Times varð eitt sinn að biðjast afsökunar á að hafa gleymt honum á auðmannalista Evrópu og var hann þó í hópi allra auðugustu Evrópu-búanna á þeim tíma. Skattamál Astrid Lindgren voru reyndar örlagarík fyrir stjórn jafnaðarmanna í eina tíð eins og hefur verið fjallað um hér í pistli. „Sú umræða sem sést í Bretlandi og Bandaríkjunum um skattlagningu hinna ofurríku finnst ekki í Svíþjóð,“ hefur Economist eftir Janerik Larsson, hjá hugveitunni Timbro.
Dugnaður og snilld uppspretta auðs
En vinsældir auðmanna í Svíþjóð stafa meðal annars af því að almenningur upplifir hlutina ekki þannig að þeir hafi auðgast á því að arðræna eða fénýta sér hin venjulega Svía. Auður þeirra sé sprottin af dugnaði, snilli eða ráðdeild þessa fólks sem meðal annars hefur skapað fjölþjóðleg merki eins og H&M, Volvo og Spotify. En stemningin einkennist af hógværð, þó margir Svíar teljist nýríkir þá ríkir viðhorf hins gamla auðs sem birtist meðal annars í því að menn eru ekki að berast mikið á. Vissulega sjást glæsibílar á götum Stokkhólms en almenningur upplifir hlutina þannig að auðmennirnir deili að nokkru leyti lífi og kjörum með almenningi. Sæki sömu veitinga- og skemmtistaði og hinn venjulegi Svíi. Gleymum ekki að aðalsættir eru enn áberandi í Svíþjóð og Danmörku og tengjast enn atvinnulífinu sterkum böndum.
Allmargir auðmenn og fjölskyldur þeirra hafa sett upp góðgerðarstofnanir sem láta ýmislegt gott af sér leiða. Þannig má finna skrifstofur Wallenberg-fjölskyldunnar, sem er líklega kunnast auðmannafjölskylda Svíþjóðar, í til þess að gera hógværri skrifstofubyggingu í Stokkhólmi. Þannig má segja að þeir hafi náð að varðveita ákveðin tengsl og trúnað við almenning.