c

Pistlar:

12. nóvember 2021 kl. 10:26

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Orðinu hamfarahlýnun komið á flug

Í þættinum Vikan með Gísla Marteini síðasta föstudag bar hann upp á Steinunni Sigurðardóttur skáldkonu að hún hefði fundið upp orðið hamfarahlýnun. Steinunn virtist ekki alveg viss, sagðist hafa haldið að hún hefði gert það en svo hefðu efasemdir vaknað. Hún sagðist hins vegar halda að hún hefði komið því „á flug“ vegna þess að loftslagsbreytingar væru ömurlegt og svæfandi orð einfaldlega vegna þess að breytingar vísuðu bara til hin betra. Hún hefði því viljað „parkera“ loftslagshlýnun og taka upp hamfarahlýnun af mannavöldum. Steinunn rifjaði upp að þremur dögum eftir að hún sagði þetta opinberlega kom yfirlýsing frá breska blaðinu The Guardian um að þeir væru hættir að nota loftslagsbreytingar og hefðu tekið upp hamfarahlýnun líka. Þetta er ágæt áminning um að orð séu til alls fyrst.hamfara

Hér hefur alloft í pistlum verið vikið að skilgreiningum og orðalagi enda margt sem kemur að loftslagsmálum ákaflega huglægt þó allir trúi því að þeir standi traustum fótum þegar kemur að vísindalegum forsendum fyrir skoðunum þeirra. En þannig er nú staðan að afneitunarsinnar og loftslagsefasemdamenn takast á við hamfarasinna og loftslagssinna með margvíslegu orðalagi og skeytasendingum milli hópa. Seinni hópurinn virðist telja að vísindalegri óvissu hafi verið eytt í eitt skipti fyrir öll á meðan sá fyrrnefndi efast enn.

Fylgja þarf handritinu

Í dag á að ljúka loftslagsráðstefnunni í Glasgow sem hefur verið minnst á nokkrum sinnum hér í pistlum. Þar ganga skeytin líka milli hópa en óhætt er að segja að loftslagssinnar hafi haft vinninginn hér heima, sérstaklega gegnum hina opinberu talrás þeirra, Ríkisútvarpið, en nú síðustu daga er fréttamaður komin út til að tala við atvinnufólk okkar í loftslagsmálum. Í Glasgow er margskonar fólk og talsvert um þá sem hafa efasemdir um að allir loftslagssinnar hafi hugsað allt til enda. Fundir eru reyndar þannig settir upp að opin og gagnrýnin umræða er verulegum takmörkunum háð. Það þarf að fylgja handritinu sem er skipulagt rækilega af þeim embættismönnum og starfsmönnum sem vinna við loftslagsvandann árið um kring. Og núna eru þeir búnir að ákveða að næsta ráðstefna verði í Egyptalandi að ári. Þar eru nokkrar af menguðustu borgum heims en sú ráðstefna verður fyrst og fremst fyrir þá sem stunda loftslagsvandann árið um kring.

Í Glasgow eru allskonar hagsmunasamtök, hagsmunasamtök þeirra sem hampa loftslagsvandanum og hagsmunasamtök þeirra sem afneita honum eða draga hann í efa. Þetta kemur fram í umfjöllun breska ríkisútvarpsins þar sem vísað er í greiningu frá umhverfisverndarsamtökum á gestalista ráðstefnunnar sem segjast greina 503 einstaklinga á listanum sem séu á ráðstefnunni til að gæta hagsmuna jarðefnaeldsneytisiðnaðarins. Það er nokkurn veginn síðasta sort, jarðefnaeldsneytisiðnaðurinn, sem þrátt fyrir allt hefur séð okkur jarðarbúum fyrir eldsneyti og byggt þannig upp lífsgæði sem eru einstök. En nú dugar að segja að þessi eða hinn sé tengdur jarðefnaiðnaðinum til þess að gera hann að ómerkingi í umræðunni. Þeir sem gera ekkert án þess að fá opinbera styrki til þess eru það hins vegar ekki. Með styrktarumsókninni tryggja þeir hlutleysi sitt.glaðloft

Hagvaxtarminnkandi loftslagsstefna

En margt er áhugavert að gerast í loftslagsmálum og það tekur langan tíma að fara yfir allt sem hefur borið til tíðinda í Glasgow. Þar hefur meðal annars komið í ljós að hagvaxtarminnkandi loftslagsstefna mun ekki sannfæra þróunarlönd, sem þurfa að lyfta íbúum sínum upp úr fátækt, um að losun þeirra skiptir mestu máli á þessari öld. Það þarf að útskýra fyrir þeim hvernig á að koma að málum og líklega verður þetta enn ein réttlæting fyrir því að nýjum fjármunum verður deilt til þeirra. Þá þarf að greina hvað fellst raunverulega í samkomulagi Bandaríkjamanna og Kínverja sem borgarstjórinn í Reykjavík þakkar John Kerry sérstaklega fyrir. Kínverjum tókst hins vegar að útiloka Taiwan frá ráðstefnunni og hugsanlega er það þeirra eina alvöru framlag. 

Í lokin má hugsanlega rifja upp að það virðist vera hluti af stemmningunni núna að kanadískur fjölmiðill greindi frá því í vikunni að þar hefði í fyrsta sinn verði lagður inn á sjúkrahús sjúklingur með loftslagsbreytingu! („climate change“). Væntanlega alvarlegt tilfelli. Ágætt þá að rifja upp þessi orð Björns Lomborg: Fyrir einni öld dó tæplega hálf milljón manna að meðaltali á hverju ári af völdum storms, flóða, þurrka, skógarelda og mikilla hita. Á næstu 10 áratugum fækkaði þessum dauðsföllum um 96% í 18 þúsund. Árið 2020 lækkuðu þeir í 14 þúsund. Heimur batnandi fer!