c

Pistlar:

14. nóvember 2021 kl. 20:58

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Lífeyriskerfi í fremstu röð

Fyrir stuttu efndu Landssamtök lífeyrissjóða til kynningarfundar vegna þeirra fregna sem bárust um miðjan október að Ísland hefði náð efsta sæti í alþjóðlegu samanburði bandaríska ráðgjafarfyrirtækisins Mercer og samtakanna CFA Institute á lífeyriskerfum 43 ríkja í öllum heimsálfum. Vísitalan metur heildarstyrk lífeyriskerfa út frá 3 meginþáttum, nægjanleika, sjálfbærni og trausti og var Ísland efst í flokkunum nægjanleiki og sjálfbærni. Hliðstæður samanburðarlisti hefur verið birtur tólf sinnum áður en nú var Ísland með í fyrsta sinn og íslenska kerfið er efst á blaði og hið eina sem nær einkunninni A ásamt lífeyriskerfum Hollands og Danmerkur eins og kemur fram í frétt á heimasíðu Landssambands lífeyrissjóða. Það má alveg taka undir að furðu hljótt hefur verið um þessi tíðindi en Ísland vermir efsta sætið, efst Norðurlanda ásamt Danmörku og efst í heiminum.

Staðreyndin er sú að flestar þjóðir öfunda Íslendinga af öflugu lífeyriskerfi eins og bent hefur verið á hér áður í pistlum. Íslenska lífeyriskerfið skiptist í þrjá megin þætti; almannatryggingar, lífeyrissjóði og frjálsan einstaklingsbundinn sparnað. Þjóðir sem byggja lífeyriskerfi sitt á því að ríkissjóður greiði ellilífeyri, sem er fjármagnaður með sköttum, geta staðið frammi fyrir stórkostlegum vanda þegar fjöldi lífeyrisþega eykst á sama tíma og skattgreiðendum fækkar. Ekki er að efa að þessar þjóðir vildu þá gjarnan geta skipt um kerfi og geta búið í haginn með því að byggja upp lífeyrissjóði til að greiða eftirlaun.

Staðfest af eldri samanburði

Af þessu sést að niðurstaðan núna ætti kannski ekki að koma á óvart þar sem eldri samanburður hefur dregið fram þetta sama. Þar má horfa til þess sem kallað var „Nægjanleikarannsóknir“ og birtust árið 2014. Þar var leitast við að svara því hvernig réttindaávinnslu fólks á vinnumarkaði væri háttað og hvað þeir fengju út úr kerfinu sem komnir voru á lífeyri. Niðurstaðan var sú að réttindaávinnslan stæðist að stórum hluta kröfur sem lög kvæðu á um. Undantekningar skýrðust af fráveru á vinnumarkaði og áttu einkum við konur, þá sem komu seint inn á vinnumarkað vegna langskólananáms og fólk sem flust hafði til Íslands erlendis frá og hóf hér starfsferil án þess að eiga réttindi í lífeyriskerfinu.

Þá er rétt að geta rannsókna OECD sem eru gerðar á tveggja ára fresti og næstu niðurstöðu er að vænta nú fyrir lok árs 2021. Þar er könnuð réttindaávinnsla fólks sem hefur starfsferil á vinnumarkaði 22 ára og safnar réttindum fram að opinberum lífeyristökualdri. Þetta er kannað í öllum aðildarríkjum OECD og borið saman. Ísland er þarna yfirleitt í fremstu röð.

Í þriðja lagi er horft til „vísitölu ævikvölds“ á vegum erlends eignastýringartækis, Natixis sem gerir þá vinnu fyrir Landssamtökin. Ísland er þar í efsta sæti.lífeyrir

Gott kerfi má alltaf bæta

Þetta er sagt hér - ekki af því að kerfið hér sé gallalaust - heldur að það er ágætt. Mikilvægt er að auka þarf og bæta umfjöllun um lífeyrismál. Þessi niðurstaða Mercer mælist ekki á ánægjuvog lífeyrisþeganna sjálfra. Á heimasíðu samtaka lífeyrissjóða er vitnað til samfélagsumræðunnar í aðdraganda alþingiskosninga og bent á að gera megi ráð fyrir miklum breytingum í lífeyrismálum í samræmi við loforð sem stjórnmálamenn gáfu kjósendum. Ef menn ætla að ráðast í verulegra breytinga á lífeyriskerfinu er nauðsynleg að skynsöm umræða fari um það.

Stærðin vandamál?

En stærð og árangur lífeyrissjóðanna skapar ákveðið vandamál. Gunnar Björnsson sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu benti á það á ráðstefnu fyrir stuttu að sumt er ekki nefnt í Mercer-skýrslunni en ætti samt að fjalla um. Til dæmis verðum við Íslendingar að ná sátt um hver eigi að vera tryggingavernd okkar að lágmarki. Í lögum er kveðið á um að miða skuli við 56% af meðalævitekjum en þannig er það ekki í raun í kerfinu öllu. Gunnar benti á að samspil kerfa almannatrygginga og lífeyrissjóða er annað atriði sem horfa þarf til. Þriðja atriðið er samspil séreignarsparnaðar og samtryggingar. Í skýrslunni er heldur ekki fjallað um smæð íslenska fjárfestingamarkaðarins og hve umsvifamiklir lífeyrissjóðir eru þar orðnir. Gunnar telur að við þurfum að komast að niðurstöðu um það hve miklu af eignum sjóðanna hlutfallslega er varið í fjárfestingar erlendis annars vegar og hér heima hins vegar. Hér í pistli hefur áður verið vikið að stöðu sjóðanna á íslenskum fjárfestingamarkaði.