c

Pistlar:

18. nóvember 2021 kl. 11:29

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ný lögmál í evrópskum glæpaheimi


Glæpur og refsing er vinsælt umfjöllunarefni, ekki síst meðal listamanna og kvikmynda- og sjónvarpsheimurinn hefur notið þess. Með tilkomu Netflix og annarra streymisveitna fáum við aðgang að fjölbreyttu efni sem endurspeglar ólík þjóðfélög og menningaheima. Til að plottið gangi upp þarf það að vera raunverulegt á sinn hátt en þó stíliserað, sagan þarf að fá eigið líf en hafa tilvísanir sem fólk skilur.gangl

Nýlega horfði pistlaskrifari á belgíska spennuþáttaröð Ganglands sem fjallaði um undirheima Belgíu og sérstaklega í hafnarborginni Antwerpen. Það vantaði ekkert upp á hasarinn og bara ágæt efni frá Belgum. Augljóslega sýnir hún þá breytingu sem orðið hefur á glæpaheiminum þar í landi, í það minnsta eins og kvikmyndagerðarmennirnir sjá það. Marokkóskar glæpaklíkur hafa tekið yfir og þær útvega þau fíkniefni sem þarf inn til Antwerpen. Myndin lýsir átökum milli þeirra og innlendra glæpamanna en allir þurfa að kaupa efnið í gegnum Marokkó og þar eru hinir raunverulegu stjórnendur undirheima Belgíu, með dyggum stuðningi innflytjenda í Belgíu. Það kemur skýrt fram í myndinni, engin nær völdum í undirheimum Belgíu nema njóta stuðnings ráðamanna í Marokkó.

Svíþjóð að breytast hratt

Ekki er langt síðan ég sá sænsku seríuna Snabba Cash (gríptu peninganna) sem er ein mest streymda og umtalaða sænska þáttaröðin á Netflix. Ágæt spenna þar líka og rithöfundurinn þekkti Jens Lapidus kom að handritsgerð enda myndin gerð eftir bók hans. Í myndinni leikur hin sænska Evin Ahmad hlutverk Leyu sem er frumkvöðul með meiri tengsl við undirheima en hún vill. Saga hennar tengist Salim (Alexander Abdallah) og vandræðaunglingnum Tim (Ali Alarik). Þetta undirheimafólk lifir í heimi útlendinga sem sumir reyna að feta stigu dygðarinnar en aðrir lifa í glæpaheimum Svíþjóðar. Þessi þáttaröð hefði eins geta gerst í borg í miðausturlöndum eins og í Stokkhólmi. „Gömlu lögmálin í Stokkhólmi hafa breyst,“ sagði höfundur þáttanna og þáttastjórnandi, Oskar Soderlund, í samtali við New York Times og bætti við. „Þú ert með eiturlyfjaviðskipti og þú ert með sprengingu af sænskum tæknifyrirtækjum.” Hann bendir á í viðtalinu að Svíþjóð sé að breytast hratt, ný lögmál, ný eiturlyf og nýir gerendur og þolendur.14snabba-cash-jumbo

Umsátur um réttarríkið í Hollandi

Það er vitað að veruleg tengsl eru milli glæpahópa innan Evrópu og það á kannski ekki síst við milli nágranalanda eins og Belgíu og Hollands. Fyrir stuttu var sagt frá því í fréttaskýringu í Morgunblaðinu að tveir menn hefðu verið dæmdir í 30 ára fangelsi fyrir að skjóta til bana Derk Wierum, verjanda lykilvitnis í máli gegn helsta eiturlyfjabaróni Hollands árið 2019. Þetta á sér langa sögu en fyrir skömmu hófust réttarhöld gegn tveimur mönnum, sem sakaðir eru um að hafa myrt blaðamanninn Peter R. de Vries með köldu blóði í sumar. De Vries var þekktur fyrir fréttir sínar úr undirheimum Hollands og telur lögregla ljóst að ástæðan fyrir morðinu sé að hann hafi verið sama vitni innan handar.

Bæði þessi morð hafa skekið Holland og hafa verið höfð til marks um það að landið sé að breytast í dópríki þar sem eiturlyfjagengi hafa tögl og hagldir og þeir sem vogi sér að bjóða þeim byrginn séu í bráðri hættu segir í fréttaskýringu Morgunblaðsins. Þrátt fyrir að byssuofbeldi í Hollandi sé til þess að gera sjaldgæft hafa dráp og ofbeldi tengt fíkniefnaviðskiptum orðið algengt á undanförnum árum þar sem undirheimamenn keppa um landsvæði.hjól

Forsætisráðherrann í öryggisgæslu vegna glæpagengja

Í síðasta mánuði var öryggisgæsla Marks Rutte, forsætisráðherra Hollands, sem ávallt hefur hjólað eða gengið í vinnuna, efld vegna þess að vísbendingar komu fram um að eiturlyfjamafían hygðist ráða hann af dögum eða ræna honum. Hollenskir miðlar voru með stöðugar fréttir af þessari auknu gæslu og augljóst að landsmönnum var brugðið. Það hefur verið lykilþáttur í ímynd þeirra sem friðsamt þjóðfélag að ráðamenn geti farið um óáreittir.

Ridouan Taghi nefnist foringi eiturlyfjamafíunnar í Hollandi. Hann situr í fangelsi, en óttast er að hann haldi enn um alla þræði segir í Morgunblaðinu. Hann er talinn standa að baki morðunum, þótt ekki liggi fyrir sannanir. Árlega fara mörg hundruð tonn af kókaíni í gegnum Holland að verðmæti mörg hundruð milljarða evra. Fréttaskýring Morgunblaðsins vitnar til þýska blaðsins Der Spiegel, sem birti úttekt á ástandinu í Hollandi fyrir skömmu, kostar aftaka 50 þúsund evrur (um 7,5 milljónir króna) og er þá allt innifalið; eftirlit með fórnarlambinu fyrir tilræðið, bifreið til að komast undan, morðvopn og morðingi. „Í vandamálahverfunum í suðausturhluta Amsterdam standa strákar í röð til að fá að myrða fyrir gengin,“ segir rannsóknarlögreglumaður, sem ekki vill láta nafns síns getið, við Der Spiegel.

Holland er þekkt fyrir að vera opið land og eitt af aðalsmerkjum þess er umburðarlyndi. Mikið frjálsræði hefur ríkt í kringum eiturlyf og hefur marijúana og hass verið selt þar fyrir opnum tjöldum í áratugi eins og íslenskir ferðamenn í Amsterdam hafa kynnst. Í skjóli þess þrifust viðskipti með eiturlyf, líka þau sterku, og harkan í undirheimunum færðist í aukana með morðum og blóðsúthellingum.