Stundum hlægja útlendingar að okkur Íslendingum þegar heimamenn eru að kvarta yfir hinu og þessu sem þeir telja að megi betur fara og segja útlendingarnir þá gjarnan að Íslendingar séu forréttindaþjóð og flestar þjóðir vildu vera í okkar sporum. Eftir bankahrun heyrði maður gjarnan útlendinga spauga með aðstæður og segja; þið hafi allt til alls og breytir litlu þó þið séuð ekki eins rík og þið héldu fyrir bankahrun. Þessi skoðun birtist aftur og aftur, nú síðast hjá Jan Marie Fritz, prófessor í félagsfræði við Háskólann í Cincinnati, sem var í viðtalsþættinum Silfrinu á sunnudaginn þar sem hún ræddi stöðu fólks á eftirlaunaaldri.
Jan Marie rifjaði upp að Ísland hefði nú verið efst 12 ár í röð þegar kemur að launamun kynjanna og stöðu kvenna. Íslendingar séu í öðru sæti þegar hamingja er mæld eins vandasamt og það annars hlýtur að vera. - En við erum samt í öðru sæti og ávallt meðal allra fremstu þjóða. Nú síðast kom í ljós að við erum í efsta sæti þegar kemur að kerfi því sem hér gildir um eftirlaun eins og var bent á í pistli fyrir stuttu. Sagði Jan Marie að menn dáðust að því hvernig Íslendingum tækist að blanda saman einkarekstri og félagslegum rekstri í lífeyrissjóðskerfinu. Hún sagðist líta svo á að Íslendingar væru öðrum þjóðum fyrirmynd þegar kemur að lífeyriskerfinu eins og á svo mörgum öðrum sviðum tók hún fram. Þessi að mörgu leyti einstaka staða var reyndar gerð reglulega að umtalsefni hér fyrir nokkrum árum enda nokkurn veginn sama hvar okkur bar niður, ávallt vorum við Íslendingar í fremstu röð, líka þegar kom að heilsufari og langlífi sem hlýtur þrátt fyrir allt að vera besta viðmiðið um ástand heilbrigðiskerfisins. Sem við sjálfir segjum gjarnan að sé hrunið.
Sálin hefur það skítt
Þetta þýðir að sjálfsögðu ekki að það sé ekki margt hægt að bæta og lagfæra Íslandi, hér sem annars staðar er það viðfangsefni stjórnmálanna að bæta hag íbúanna og um leið auka hamingju þeirra og velsæld. En það er sumt sem stjórnvöld ráða ekki við, sérstaklega í landi sem virðir tjáningarfrelsi og skoðanaskipti. Sem betur fer en það þýðir ekki að ekki sé hægt að bæta umræðumenningu þjóðarinnar. Því miður sjá margir meinbugi á öllu sem hér gerist og að íslenskt þjóðfélag sé ómögulegt að öllu leyti. Þið hafið það skítt, skrifaði leiðtogi íslenskra sósíalista þegar hann stýrði sínu síðasta blaði. Hugsanlega verður þessi greining hans frekar skýrð með fræðahugtökum sálfræðinnar en hagfræðinnar.
Forngríska skáldið Hesíódos var uppi á sjöundu öld fyrir Krist. Í ritinu Verki og dögum lýsir hann fimm tímaskeiðum fram til sinna daga, allt frá „gullöldinni“ svonefndu. Meginstefið er hnignun heimsins; hin forsögulega „gullöld“, þegar smjör draup af hverju strái, er löngu liðin. Þarna birtist kunnuglegt stef sem endurómar fram til okkar tíma. Raunar svo kröftuglega að stundum mætti ætla að dómsdagur væri í nánd. Fyrsti lærði íslenski sagnfræðingurinn, Jón Jónsson Aðils, flutti alþýðufyrirlestra um íslenskt þjóðerni, sem höfðu gríðarleg áhrif snemma á 20. öld. Fyrirlestrarnir voru gefnir út á þremur bókum á árunum 1903-1910, undir heitunum Íslenskt þjóðerni, Gullöld Íslendinga og Dagrenning. Jón var á styrk frá ríkinu til að semja og flytja þessa fyrirlestra og að sumu leyti tók hann við af rómantísku skáldum 19. aldarinnar að móta afstöðu landsmanna til sögu sinnar í þann mund þegar þeir stóðu á þröskuldi atvinnuháttabyltingar sem átti eftir að fleyta Íslendingum í öfundsverða stöðu á til þess gera stuttum tíma. Það er auðvitað djarft að tala um gullöld og hvert tímaskeið færir stjórnvöldum og landsmönnum nýjar áskoranir. En við höfum allar forsendur til að takast á við þær á farsælan hátt. Það er kannski mikilvægast af öllu.