Afsögn Andrew Cuomo, ríkisstjóra New York ríki, var verulegt áfall fyrir demókrata enda horfðu margir til hans sem framtíðarleiðtoga í flokknum og vænlegs forsetaefnis. Um Andrew var fjallað hér í mars síðastliðnum en hann sagði að lokum af sér í ágúst eftir að Letitia James, dómsmálaráðherra ríkisins, sem sjálf býður sig fram sem ríkisstjóri, gaf út skýrslu sína um meint misferli Andrew Cuomo sem hefur neita sök frá upphafi. Nú síðast var honum birt ákæra fyrir kynferðisbrot í lok október og gæti hann átt yfir höfði sér fangelsisdóm, allt að einu ári.
Cuomo-fjölskyldan eru hluti af pólitísku ættarveldi í New York sem hófst þegar faðir þeirra, Mario, sat í þrjú kjörtímabil sem ríkisstjóri frá 1982 til 1996. Andrew var á þriðja kjörtímabili sínu áður en hann sagði af sér og allir vissu að hann ætlaði sér að slá met föður síns.
En nú er bróðir hans, Chris Cuomo, einnig fallinn af stalli sem verða að teljast mikil tíðindi fyrir fjölmiðlaheiminn og áfall fyrir CNN sjónvarpsstöðina en Chris var velþekktur þáttastjórnandinn hjá stöðinni. Nú hefur verið upplýst að hann notaði sambönd sín í fjölmiðlaheiminum til að leita upplýsinga um konur sem sökuðu bróður hans um kynferðislega áreitni. Þetta birtist í skjölum sem ríkissaksóknari New York birti á mánudag í rannsókn sinni vegna Andrew. Chris Cuomo hefur áður sagt að hann hafi ekki verið opinber ráðgjafi bróður síns, en hann viðurkenndi að hann hafi ráðlagt honum og að hann væri einn þeirra sem hvatti ríkisstjórann til að segja af sér.
Ber er hver að baki…
Þó að Chris Cuomo hafi áður viðurkennt að hafa ráðlagt bróður sínum og teymi hans um viðbrögð við hneykslismálunum, sýna gögnin að hlutverk hans í að aðstoða þáverandi ríkisstjóra var mun stærra og innilegra en áður var vitað. Chris sagði rannsakendum að hann hafi tekið þátt í því sem hann lýsti sem leit að „heimildum“ varðandi hinar ýmsu ásakanir á hendur bróður hans sem lýst var í að minnsta kosti einni frétt, samkvæmt heimildum. Hann sagðist einnig hafa rætt við heimildarmenn sína um sögur frá fjölmiðlum sem enn eigi eftir að birta. Hann var semsagt að nota sambönd sín í fjölmiðlaheiminum til að afla upplýsinga sem gátu nýst bróður hans. Það þarf ekki að hafa mörg orð um hve alvarlegan siðferðisbrest hann gerir sig sekan um þar. CNN sagði þessi samtöl „óviðeigandi“.
Óljós skil fjölmiðla- og stjórnmálamanns
Chris sá um þáttinn „Cuomo Prime Time“ sem var spjallþáttur með fréttaívafi. Þar slóu þeir bræður í gegn eins og var rifjað upp hér áður í pistli. Í miðjum faraldrinum á síðasta ári þótti tilvalið að stilla þeim saman í sérstökum sjónvarpsþætti og þá urðu skilin á milli fjölmiðlamanns og stjórnmálamanns ákaflega óljós. Sjónvarpsmaðurinn Chris fékk leyfi hjá stjórnendum CNN til að kalla Andrew bróður sinn til liðs við sig og svo sátu þeir og spjölluðu um heima og geima, oft um pólitík og hvað Trump væri vonlaus og vitlaus en svo inn á milli kýttu þeir eins og bræður og rifust um hvort að spagettíið hennar mömmu hefði verið betra með þessari eða hinni sósunni. Allt mjög heimilislegt. Menn rifja nú upp að í eina tíð var ákveðið af stjórnendum CNN að Chris fjallaði ekki um bróður sinn en svo var því skyndilega vikið til hliðar.
Sannleikur og ábyrgð
Augljóslega hefur trúverðugleiki CNN beðið hnekki og síðustu vendingar bæta ekki úr. Blóð er þykkara en vatn og hugsanlega má hafa skilning á að Chris aðstoði bróður sinn en stöðin hefði aldrei átt að skilja hann eftir í aðstöðu þar sem gat reynt á tengslin. Til að bæta gráu ofan á svart hefur sjónvarpskonan Shelley Ross sakað Chris um kynferðislega áreitni þegar hún var framkvæmdastjóri ABC stöðvarinnar í nýlegum pistli í The New York Times þar sem hún fjallar um málið. Þar skrifar hún: „Nú, miðað við hlutverk Chris Cuomo sem stuðningsmaður og ráðgjafi bróður síns, verð ég aftur að velta fyrir mér sambandi hans við sannleika og ábyrgð.“
Grunntónnin í þessu máli eru þau átök sem hafa umlukið bandarískt þjóðlíf undanfarin áratug. Að sum leyti kristallast þau í persónu Donalds Trump en baráttan gegn honum gerði það að verkum að margir fjölmiðlamenn hættu að segja fréttir og urðu uppteknir af þeirri stemmningu sem heltist yfir fjölmiðla þegar Trump settist í stól Bandaríkjaforseta. Donald Trump ber ábyrgð á mörgum umdeilanlegum hlutum en fjölmiðlamenn verða að gera upp við sig hvert hlutverk þeirra sé, að flytja áróður eða bara að segja fréttir. Chris er síðan hluti af ákveðinni uppskiptingu innan fjölmiðlaheimsins. Þessi uppskipting er ekki ný en hefur sýnt á sér nýjar hliðar undanfarin áratug. Annars vegar eru það skemmti- og afþreyingarfréttir eins og Chris stóð sannarlega fyrir og varð fyrir vikið frægðarpersóna. Hann var af þeirri gerð fjölmiðlamanna sem eru sjálfmiðaðir og þrífast á uppákomum fremur en upplýsingagjöf. Á hinum kanntinum er baráttufólkið eða aktívistar sem láta sér ekki duga að segja söguna eins og hún er heldur telja sitt hlutverk að breyta þjóðfélaginu svo að það falli að pólitískum skoðunum sínum. Eins og áður sagði er þetta ekki nýjar skilgreiningar en átakafletirnir milli þessara sjónarmiða (og vinnubragða) eru stöðugt að breytast. Að því leyti er fall þeirra Cuomo bræðra merkilegt.