Það er sannfæring ráðandi afla í umræðunni að mannkynið standi frammi fyrir alvarlegum vanda eins og mál hafa þróast í loftslagsmálum. Reynt hefur verið að byggja upp vísindalega fullvissu eða sannfæringu sem á að styðjast við móður allra rannsóknarskýrslna, sjálfa loftslagsskýrslu IPCC sem hefur verið kanóníseruð í umræðunni. Því segja hinir sannfærðu að staðreyndirnar liggi á borðinu og heimurinn horfi nú framan í háskann sem fylgir hækkandi hitastigi. Því sé ekki annað til ráða en að grípa til aðgerða. Þær verði að vera eins margar og viðamiklar og mögulegt er, hamfarahlýnunarfólkið vill að mannkynið þurfi að þola sjálfspyntingar til yfirbótar.
En svo vandast málin, hvað er rétt að gera og hvað er skynsamlegt að gera og hverju á að kosta til? Vissulega má taka undir, að ef svartsýnustu fullyrðingar standast sé öllu til vinnandi að afstýra hækkandi hitastigi samfara loftslagsbreytingum. En er málið svo einfalt?
Hin sameiginlega viska
Hvað eftir annað erum við minnt á að það er ekki endilega skynsamlegast að „hífa, slaka, gera eitthvað“ eins og ráðalaus verkstjóri var þekktur fyrir að kalla í eina tíð. Mikilvægt er að taka skynsamar ákvarðanir sem duga til. En þó að mannkynið telji sig nú búa við sameignlega visku þegar kemur að afleiðingu loftslagsmála þá á það ekki við um viðbrögðin. Við sjáum það hér heima að vísindamönnum getur greint á um ýmsa hluti. Skógrækt eða ekki skógrækt, græn íslensk orka eða landvernd (sem hefur leitt til þess að við höfum ónóga orku til brýnna verkefna og verðum að keyra á jarðefnaeldsneyti). Nú, sumir telja skynsamlegt að verja gríðarlegum fjármunum í að binda kolefni í jörðu á meðan aðrir hamast við að selja alskyns aflátsbréf um bindingu kolefnis í skógi eða mýrum. Sumir borga undir olíukynntar jarðýtur sem moka ofan í gamla skurði án þess að beinlínis sé vitað hve mikið það gagnast. Margir eiga talsverða fjárhagslega hagsmuni undir og markaðsmenn eru farnir að hnusa af viðskiptatækifærum.
Margt vekur furðu í umræðunni. Eins og að það má ekki benda á að Ísland er fyrirmyndarland þegar kemur að hreinni orku og engin þjóð í sömu sporum og við þar, helst að Norðmenn nálgist okkur. Þetta má ekki segja. Aðrir vilja að við séum í samfloti með Evrópulöndum, þar sem græn orka er kannski 10% af heildarnotkuninni á meðan hún er 80% hjá okkur. Er það eðlilegt samflot? Í Evrópu er verið að tala um að auka græna orkunotkun úr 10 til 15% á meðan við ætlum úr 85 í 95%! Þarna á milli er himinn og haf en um það má ekki ræða.
Stýrt í mengandi dísilbíla
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, var í viðtali við sérrit Frjálsrar verslunar fyrir skömmu. Óhætt er að fullyrða að Eggert hafi nokkra þekkingu á orku- og loftslagsmálum en hann segir að unnið sé að því að breyta olíudreifingarfélaginu N1 í orkufélag. Hann segir að á síðasta ári hafi um 17% af allri orku sem N1 seldi verið raforka og það hlutfall muni aukast verulega á komandi árum. Hann talar fyrir því að einkageirinn komi meira að þessum málum.
„Við sjáum tækifæri í því að vera leiðandi í orkuskiptum því ríkið mun aldrei græja þetta fyrir okkur nema auðvitað skattleggja meira, leggja enn meiri gjöld á bensín- og dísilbíla,“ segir hann í viðtalinu. „Saga ríkisvaldsins í neyslustýringu er ekki góð samanber þegar lægri gjöld voru lögð á dísilbíla af því þeir menguðu svo lítið. Síðan kom í ljós að þeir menguðu meira en bensínbílar. Enn í dag eru lægri skattar á dísilolíu og þess vegna er hún ódýrari en bensín en það eru engin rök fyrir því – ekki ein einustu. Þetta var einu sinni ákveðið og þar við situr.
Annað dæmi er að í tíð vinstri stjórnarinnar eftir bankahrunið voru olíufélögin skikkuð til að kaupa íblöndunarefni í dísilolíu, sem er pálmaolía. Pálmaolían gerir ekki neitt. Þetta er bara óumhverfisvænt því til þess að búa hana til þarf að ryðja skóga.“
Vita ekki hvað þau fá
„Íslensk stjórnvöld vita ekki hvað þau fá fyrir ýmis veruleg útgjöld sín til loftslagsmála. Stjórnvöld geta þar með ekki heldur metið hvort þau séu að fara hagkvæmustu og árangursríkustu leiðirnar,“ segir Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi ráðherra í athyglisverðum pistli á heimasíðu sinni þar sem hún fer yfir mótsagnakennd vinnubrögð stjórnvalda eins og verið er að benda á í þessum pistli.
Bæði Sigríður og Eggert koma með vel rökstudd dæmi sem engin virðist telja sig þurfa að standa skila á. Loftslagsmálin eru enda á sjálfstýringu stjórnlyndisfólks sem virðist því miður standa á ótraustum þekkingargrunni.