c

Pistlar:

14. desember 2021 kl. 21:56

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bob Dole 1923-2021

Að fara yfir æviferil Robert J. Dole, fyrrverandi öldungadeildarþingmanns í Bandaríkjunum og forsetaefni Repúblikanna, er svolítið eins og að skoða hverjir voru hvar í bandarískum stjórnmálum síðustu sjötíu árin eða svo. Bob Dole náði 98 ára aldri og prýddi flest það sem hans kynslóð taldi til mannkosta. Hófst sjálfur til metorða þrátt fyrir hógværan uppruna, stríðshetja og mannasættir. En þrátt fyrir tæplega 70 ár á vettvangi stjórnmálanna verður hann seint kallaður sigurvegari. Árið 1976 var Dole varaforsetaefni Geralds R. Ford (1913-2006) í forsetakosningum þar sem demókratinn Jimmy Carter hafði betur. Tuttugu árum síðar, árið 1996, var Dole forsetaefni Repúblikana þegar Bill Clinton var endurkjörinn forseti. Það átti því ekki fyrir honum að liggja að dveljast í Hvíta húsinu, þinghúsið varð hans vettvangur.bob

Stríðshetja

Robert J. Dole fæddist árið 1923 í Kansas ríki, næst elstur fjögurra systkina en móðurætt hans hafði búið í Kansas allt frá tímum villta vestursins. Hann var af lægri millistétt, faðir hans rak rjóma- og eggjasölu og komst ágætlega af enda sagður mikill vinnuþjarkur. Það kom snemma í ljós að Robert Dole, eða Bob Dole eins og hann var ávalt kallaður, var keppnismaður. Hann spilaði bandarískan fótbolta, þótt hann yrði aldrei eins góður og Ford forseti. Eftir menntaskólanám fór Bob Dole til náms í háskólanum í Kansas en þá skall stríðið á. Hann og besti vinur hans létu strax skrá sig. Rétt fyrir lok stríðsins slasaðist Bob Dole lífshættulega þegar hann stýrði árás á þýskt vélbyssuhreiður á Ítalíu. Hann var þá orðin ofursti og hafi átt þess kost að sleppa við árásina, því hann hafði særst stuttu áður. Hann kaus að leiða menn sína en í átökunum sprakk handsprengja og særði hann lífshættulega. Dole var sæmdur tveimur orðum fyrir hetjulega framgöngu í stríðinu en barátta hans við að ná heilsu á ný kostaði þrautseigju og þolinmæði þar sem hann lá rúm þrjú ár á sjúkrahúsi, lamaður á handleggjum og fótleggjum. Smátt og smátt náði hann sér, þó að uppfrá því væri hægri handleggur hans lamaður og hann missti annað nýrað. Bob Dole kvæntist Phyllis Holden sem hafði hjúkrað honum og tók aftur til við nám. Þau eignuðust eina dóttur árið 1954, en skildu síðar. Hann kynntist síðari eiginkonu sinni, Elizabeth Hanford, á miðjum áttunda áratugnum. Hún er harður repúblikani og var samgönguráðherra í ríkisstjórn Ronalds Reagans (1911-2004) og ráðherra atvinnumála hjá George Bush eldri (1924-2018). Þegar maður hennar fór í framboð til forseta var hún formaður bandaríska Rauða krossins.

Trúr flokknum en vildi semja

Bob Dole lauk lögfræðiprófi 1952 og gerðist saksóknari í heimabæ sínum. Hann fór fljótlega að fást við stjórnmál og var kosinn í fulltrúadeild 1961. Hann var dyggur stuðningsmaður landabúnaður, komandi frá Kansas og í þeirra baráttu kynntist hann öðrum upprennandi stjórnmálamanni, Gerald Ford, sem kom frá Nebraska. Dole studdi Ford til leiðtoga innan flokksins en hvorugur þeirra hafði árangur sem erfiði í forsetakosningum, kannski voru þeir báðir of venjulegir, of mikið fulltrúar Washington-valdsins. Bob Dole studdi Robert Nixon (1913-1994) af hörku í Watergate-málinu og um tíma virtist það ætla að verða honum dýrkeypt. Síðar kom í ljós að hann var ekki tengdur málinu á neinn hátt, barátta hans var fyrst og fremst af hollustu við Repúblikanaflokkinn. Menn kunnu að meta það og vegur hans fór vaxandi innan flokksins.bob2

Bob Dole þótti raunsær samningamaður innan þingsins. Sá hæfileiki kom í ljós í mörgum deilum um fjárlög sem hefðu haft lokun ríkisstofanna í för með sér, kunnuglegt stef í átökum forseta við andsnúið þing. Dole var gjarn á að semja en það var einnig túlkað sem veikleiki en andstæðingar hans í Repúblikanaflokknum sögðu hann of fljótan til að leita málamiðlana. Þessu var haldið á lofti í baráttu hans við íhaldsmanninn Pat Buchanan í forkosningunum 1996 en að lokum stóð slagurinn milli þeirra tveggja. Pat Buchanan var 15 árum yngri en mestu skipti fyrir Dole að flokksveldið stóð á bak við hann og tryggði honum aðgang að nægu fé. Eftir erfiða byrjun fór vel smurð og öflug kosningavél á landsvísu að skila árangri og fagnaði Dole að lokum hverjum sigrinum á fætur öðrum. Margir önduðu léttar en Buchanan hafði valdið titringi á landsþinginu 1992 með því að segja að Bandaríkin ættu að fara í stríð með vísun í trúar- og siðferðisgildi sín. Forsmekkur að því sem koma skyldi í ríkisstjórn George Bush yngri síðar.

Fékk útnefningu í þriðju tilraun

Robert Dole hafði snemma fengið áhuga á forsetaembættinu þrátt fyrir afhroðið með Ford. Hann reyndi að fá útnefningu sem forsetaframbjóðandi árin 1980 og aftur 1988. Það var loksins 1996 sem honum tókst að fá útnefningu flokksins og var talað um að hann væri þar í síðasta verkefni sínu fyrir stríðsárakynslóðina. Sem áður var honum hampað mjög sem stríðshetju sem hefði barðist fyrir málstað frelsis og lýðræðis.

Bob Dole var orðin 72 ára gamall þegar hann hóf baráttu sína við Bill Clinton og ef hann hefði verið kjörinn forseti hefði hann orðið elstur manna til að verða forseti Bandaríkjanna. Ronald Reagan átti þá aldursmetið, var tæplega sjötugur þegar hann sór embættiseið sinn í fyrra skiptið. Dole varða að sitja undir árásum vegna aldurs og heilsufars en hann hafði verið skorinn upp við krabbameini í blöðruhálskirtli 1991. Hann sá sig að lokum knúinn til að birta læknaskýrslur sem sýndu að hann var við hestaheilsu. Stærði hann sig meira að segja af því að hafa lægra kólesterólmagn í blóði en hinn ungi andstæðingur hans. Baráttan var slagur kynslóðanna þar sem heiðruð stríðshetja atti kappi við fulltrúa hippakynslóðarinnar sem hafði komið sér hjá herskyldu. Stjórnmálin og gildismatið voru að breytast.dole bus

Stríðshetjurnar réðu ekki við Bill Clinton

En þó Bill Clinton hefði komið sér undan herskyldu sigraði hann hverja stríðshetjuna á fætur annari í forsetakosningunum. 1992 vann hann til þess að gera óvæntan sigur á Georg Bush eldri og Bob Dole átti ekkert í hann heldur. Dole hafði valið Jack Kemp sem varaforsetaefni sitt en hann var fyrrverandi atvinnumaður í amerískum fótbolta, var kjörinn á þing 1970 og gegndi starfi húsnæðismálaráðherra í stjórn Bush 1988 til 1992. Hann hafði vakið athygli fyrir baráttu fyrir lækkuðum sköttum á þeim forsendum að slíkt auki hagvöxt nægilega mikið til þess að ríkið verði ekki af neinum tekjum. Þessi skattastefna hafði orðið til þess að Kemp studdi auðmanninn Steve Forbes í forvali Repúblikanaflokksins og sagði Kemp þá að Forbes væri bjartasta von flokksins þegar kæmi að umbótum í skattamálum og til að tryggja efnahagsuppgang. Þegar þeir Kemp og Dole öttu kappi hvor við annan og Bush um að verða frambjóðandi flokksins 1988 sagði Kemp að Dole og Bush væru „repúblikanar af gamla skólanum." Já, forvölin fá menn til að segja eitt og annað.

Bob Dole var mistækur í ræðum og tókst ekki að fá landsmenn til að fylkja sér á bak við sig. Átti meira að segja stundum í vandræðum með eigin flokksmenn. Joe Biden, núverandi forseti, starfaði með Dole í bandaríska þinginu í áratugi og þeir áttu gott samstarf. Biden á meira að segja að hafa sagt að ef hann myndi einhvertímann starfa undir forseta úr Repúblikanaflokknum væri það Bob Dole. Falleg eftirmæli um mann sem lifði langa og viðburðaríka ævi.