c

Pistlar:

16. desember 2021 kl. 18:27

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Leikmenn og Landnáma

Allir höfundar óska þess að verk þeirra veki umræðu og athygli (og helst seljist líka). Nú fyrir jólin hefur bók Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um landnám Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámsmannsins eins og flestir þekkja hann, fengið mikla athygli í kjölfar ásakana Bergsveins Birgissonar rithöfundar og fræðimanns. Þær snúa að því að Ásgeir hafi tekið hugmyndir hans um hlutverk Geirmundar heljarskinns í landnáminu og þá um leið rostungaveiðar traustataki og gert að sínum. Slíkur hugmyndastuldur mun vera ein útgáfa ritstuldar, að því leyti að texta er ekki stolið, bara hugmyndinni. Það gerir ásakanir Bergsveins óvenjulegar og heldur óáþreifanlegar þó hann sæki mál sitt af kappi. Þessi orðræða hefur þróast dag frá degi enda fengið þokkalegt súrefni og hefur skapað ýmis hliðarstræti í umræðunni, jafnvel öngstræti.Eyjan-hans-Ingólfs

En þó að deilan sé áhugaverð um margt þá getur verið erfitt að sjá að hún komi bók Ásgeirs mikið við enda vigta umkvörtunarefni Bergsveins ekki þungt í heildarumfjöllun bókar Ásgeirs. - Sem meðal annars fjallar um efnahagslega þætti landnámsins sem gæti legið nærri þekkingarsviði höfundarins sem segist nálgast ritun bókarinnar sem leikmaður. Ef svo er, þá er hann enginn venjulegur leikmaður með sína djúpu sýn á hagsögu þjóðarinnar og glöggur greinandi eins og hann hefur sýnt í gegnum tíðina. Í raun er bara gleðiefni að vera með seðlabankastjóra sem er jafn áhugasamur um sögu og menningu þjóðarinnar og Ásgeir augljóslega er. Engin ástæða er til að efast um heilindi hans þó að siðanefnd HÍ hafi ákveðið að taka málið að sér. Hvort hún hafi einhverja lögsögu eða í raun einhverja aðkomu að þessu er mér til efs. Nefndarmenn hafa þó að öllum líkindum ekki getað hugsað sér að sleppa svona áhugaverðri deilu þó augljóslega sé hér um frumhlaup Bergsveins að ræða.

Landnáma einstök heimild

Landnáma er einstök heimild um landnám landsins, engin þjóð hefur ritaða heimild af þessu tagi um það hvaðan landnámsmennirnir komu, hvar þeir settu sig niður og hvernig samskiptum þeirra var háttað. En íslenskir fræðimenn eru góðu vanir og hafa litið á það sem hlutverk sitt að draga heimildargildi Landnámu í efa, hún sé frekar einhverskonar lykilsaga, skrifuð á öðrum tímum en hún gerist á og með aðra hagsmuni í huga. Það er oft stutt ágætum rökum en breytir því ekki að Landnáma er og verður einstök heimild og endalaus uppspretta tilgátna og kenninga, af mismunandi gæðum eins og gengur. Þess vegna er ánægjulegt að „leikmenn“ eins og seðlabankastjóri landsins geri sér mat úr henni við hugleiðingar sínar. Eftir lestur bókar Ásgeirs, Eyjan hans Ingólfs, þykir mér honum takast ágætlega upp við að hlaupa yfir sögu landnámsins með ýmsar tilgátur í farteskinu. Svo mjög að það má nálgast efni bókarinnar frá ýmsum sjónarhornum eins og ég mun gera í fleiri pistlum hérna. Bók Ásgeirs og þó sérstaklega Landnáma eiga það skilið.

Hægfara ritdeilur

Ég rifjaði upp fyrir stuttu við annað tækifæri að þegar ég var til þess að gera ungur maður að þykjast vera að læra sagnfræði við Háskóla Íslands var farið að líða á seinni hluta deilu sagnfræðinganna Gunnars Karlssonar og Helga Þorlákssonar um hlutverk og stöðu goða á þjóðveldisöld. Fróðir menn segja að upphaf deilunnar megi rekja til greinar Gunnars í tímaritinu Sögu sem kom út 1972. Deilendur fóru sér rólega en á eins til tveggja ára fresti kom nýtt innlegg í deiluna sem lauk ellefu árum seinna eða 1983. Þó ekki alveg því að lokum sendi Gunnar Karlsson frá sér bókina Goðamenning árið 2004 sem var meira uppgjör við viðfangsefnið en deiluna sjálfa. Sú bók er auðvitað höfuðrit um landnámið og áhrif goðorðsmanna á þjóðveldi Íslendinga. Þar er Geirmundar heljarskinns getið einu sinni og ekki að miklu enda mun hann hafa verið strikaður út sem landnámsmaður að tilhlutan Lúðvíks Ingvarssonar sem gerðist einn helsti fræðimaður Landnámu þó lögfræðingur væri. Gunnar virðist hafa tekið mikið mark á Lúðvík sem og Sverrir Jakobsson sem líklega þekkir manna best þessa sögu af starfandi fræðimönnum. Sverrir er á líkum slóðum í bók sinni Auðnaróðal sem kom út árið 2016 eða þremur árum eftir að Bergsveinn gefur út bók sína Leitin að svarta víkingnum á norsku. Heimildaskrá í bók Sverris er nokkurn veginn „hverjir voru hvar og hverjir sögðu“ hvað um íslenska miðaldasögu þó viðfangsefni hans sé sérstaklega 12. og 13. öldin. Hvorki Bergsveins né Geirmundar heljarskinns er getið í bókinni þó varasamt sé að lesa of mikið í það.goðar

Landnámið fyrir landnámið

Eins og áður segir hafa fræðimenn talið sér skylt að efast um Landnámu. Það er gott út af fyrir sig en nokkur órói hefur verið í kringum uppruna Íslendinga og landnámið sjálft. Nýjar fornleifarannsóknir færa okkur nýjar áskoranir og „landnámið fyrir landnámið“ er nánast sér heimur sem á líklega skilið mun meiri athygli. Þess má geta að Ásgeir getur þessarar umræðu í bók sinni. Sagnaarfur okkar Íslendinga hefur notið ástríðufullrar umfjöllunar „leikmanna“ í gegnum tíðina og annar hver bóndi á suðurlandi, þar sem ég ólst upp, var sérfræðingur í Njálu og sögusviði hennar. Minn gamli félagi Bjarni Harðarson bóksali heldur merkinu á lofti með djörfum kenningum um írskt landnám sem hann kynnir í nýútgröfnum hellum sem fáir vissu af. Þekking okkar tekur stöðugum breytingum eins og vera ber og leitin að henni á að fá að ferðast frjáls. Bók Ásgeirs sýnir meðal annars að fræðimenn hafa að sumu leyti hundsað að útskýra á skiljanlegan og áhugaverðan hátt fyrir alþýðu landsins hvað við vitum og skiljum um uppruna okkar. Að því leyti er hún kærkomin.