c

Pistlar:

19. desember 2021 kl. 21:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að færa fólki fréttir

Fátt breytist hraðar en heimur frétta og fjölmiðla. Það er eðli frétta að stöðugt er verið að endurmeta þann þekkingarfræðilega grunn sem þær standa á og einu sinni var haft á orði að ekkert væri eldra en fréttablað gærdagsins. Slík skilgreining verður hálf hjákátleg þegar hraði fréttamiðlunar á netinu er slíkur að fréttir nánast streyma fram frá einni mínútu til annarra. Í því sambandi má efast um að mikil ritstjórn búi að baki, sá eða þeir sem eru á vakt hverju sinni eiga að stöðugt að skila frá sér nýjum fréttum sem geta svo haldið áfram að breytast. Oft þurfa lesendur að hafa hraðar hendur við að greina á milli stöðugrar uppfærslu á sömu fréttinni. Því má segja að fréttin haldi áfram að skrifast eftir að hún er komin í loftið.

Í þessu sambandi má rifja upp að oft er talað um að fjölmiðlar birti fyrsta ágrip sögunnar. Sagnfræðingar hafa þau forréttindi að geta sótt sér gögn og upplýsingar þegar rykið hefur sest og gagnasögn eru opinberuð. Blaðamenn eru að reyna að starfa í heldur þokukenndu ástandi þar sem þeir verða stundum að treysta innsæi og reynslu sinni og brenna fyrir vikið oft af. Þeim til afsökunar verður þó að segja að fólk krefst stöðugt nýrra frétta, að vera upplýst og ef blaðamenn væru ekki að reyna að greina það sem raunverulega gerðist yrði fólk að treysta á upplýsingastreymi samfélagsmiðla þar sem Jónar og Gunnur landsins tjá sig ótt og títt með misáreiðanlegar upplýsingar.fjölm

Hlutverk siðareglna

Til að styðja við eigin tilveru hafa blaðamenn reynt að bregða siðareglum utan um starfið, oft settar saman af starfsstéttinni en einnig eru sérstakar siðareglur innan einstakra fjölmiðla. Um siðareglur eða úrskurði siðanefnda ríkir mismikil sátt en siðanefndir eru þó leið til þess að gefa venjulegu fólki, því sem verður „fórnarlamb frávikanna“, eins og Matthías Johannessen, ritstjóri kallaði það, leið til að sækja rétt sinn með skjótum hætti og án mikils kostnaðar. Þessi leið er ekki fullkomin en hefur ýmsa kosti. Það má segja að miklu skipti fyrir trúverðugleika starfsstéttarinnar að hún haldi utan um siðareglur og úrskurði siðanefndar af trúmennsku. Þegar pistlaskrifari hóf störf við blaðamennsku á DV árið 1985 ríkti vantrú í garð siðanefndar á blaðinu, einkum af hálfu ritstjórans, Jónasar Kristjánssonar, sem þó hafði verið formaður Blaðamannafélags Íslands um skeið. Jónas var þó ekki meira afhuga siðareglum en það að hann samdi sjálfur reglur fyrir sínar ritstjórnir síðar. Hann hafði hins vegar ekki mikinn áhuga á bera þessar reglur undir aðra.

Veki tilfinningaleg viðbrögð

Fyrir nokkrum árum benti breski blaðamaðurinn og ritstjórinn, Andrew Marr, á að hugmyndin um fréttir hafi breyst í gegnum árin. „Þær hafa breyst úr því að vera til upplýsinga í að vera hannaðar til að framleiða tilfinningaleg viðbrögð með öllum mögulegum ráðum, því öfgakenndari viðbrögð, því betra“. Fjölmiðlafræðingar hafa verið á líkum nótum þegar kalla slíkar fréttir „infotainment“ fréttir og fjölmiðlar sagðir leggja sífellt meiri áherslu á þær í umfjöllun sinni. Þetta er mjög gamalt umkvörtunarefni en hver kynslóð blaðamanna þarf að fást við nýjar áskoranir af þessu tagi í ljósi breyttrar tækni.

Orðið „infotainment“ er sett saman úr orðunum „information“ og „entertainment“ og notað um efni sem á að fræða en er einnig til þess fallið að auka vinsældir og sölu miðilsins. Í stuttu máli er hér rætt um afþreyingu í formi frétta. Af þessu leiðir að framsetningin er aðalatriðið en ekki innihaldið. Þessar fréttir beri örri þróun í fjölmiðlun vitni, þar sem mikil áhersla sé lögð á hraða í klippingum, myndræna grafík og lógó og jafnvel fyrirsagnir sem hafa bein áhrif á skoðanamyndun almennings. Þetta getur birst með margvíslegum hætti og stundum er erfitt að greina á milli hvort um er að ræða hreint afþreyingarefni eða útúrsnúninga á fréttum.media

Eru samfélagsmiðlar ritskoðaðir?

Flestir sem fylgjast með umræðu um fjölmiðla í dag sjá að samfélagsmiðlarnir gegna þar stóru hlutverki og sú umræða sem þeir skapa. Annars vegar vegna fréttasamkeppni og svo hins vegar vegna þess að engin telur sig geta dreift efni án þeirra liðsinnis. Um leið eiga fjölmiðlamenn og aðrir í vandræðum með að skilgreina samfélagsmiðlanna. Ef þeir eru farnir að stýra því efni sem um æðar þeirra fara, jafnvel ritskoða eða ritstýra, eru þeir þá fjölmiðlar?

Í pistli sínum í laugardagsblaði Morgunblaðsins setur Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor fram eftirfarandi vangaveltu: „Samkvæmt bandarískum lögum bera Facebook og Twitter ekki ábyrgð á því, hvað menn segja á þeim. En ef þeir taka upp ritskoðun, eins og þeir eru að gera (og þá aðallega á hægrimönnum), þá er eðlilegt, að þeir taki á sig slíka ábyrgð. Annaðhvort verða þeir að vera opnir og ábyrgðarlausir eða lokaðir og ábyrgir þeirra orða, sem á þeim falla.“

Hannes er ekki einn um þessar vangaveltur en bæði fjölmiðlamenn og fræðimenn eru hugsi yfir þróuninni, sérstaklega í kjölfar þess að stærstu samfélagsmiðlarnir kusu að loka á sjálfan forseta Bandaríkjanna í aðdraganda síðustu kosninga. Þetta er hluti af flókinni og vandasamri umræðu. Atli Harðarson heimspekingur fer ágætlega yfir ýmis álitaefni út frá þremur bókum um efnið í Þjóðmálagrein fyrr á árinu. Þar kemur fram að hin seinni ár hafa fyrirtæki sem veita almenningi aðgang að netinu stækkað og víða er fákeppni á markaði. Þetta á ekki aðeins við um efnisveitur og samskiptamiðla, heldur líka fyrirtæki sem annast skráningu léna og selja tengingar.

Segja má að alla 20. öldina hafi menn verið að skilgreina tjáningafrelsi miðað við tækni þess tíma, augljóslega erum við enn á upphafspunkti slíkrar umræðu þegar kemur að samfélagsmiðlum.