c

Pistlar:

22. desember 2021 kl. 18:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ættarveldi Ruberts Murdochs

Undanfarið hafa íslenskir sjónvarpsáhorfendur haft aðgang að þremur sjónvarpsþáttaröðum er tengjast fjölmiðlum. Það sem meira er að líklega tengjast þær allar Rubert Murdoch og fjölmiðlaveldi hans með einum eða öðrum hætti. Þar er líklega frægust þáttaröðin Erfðaröð (Succession) framleidd af HBO-fyrirtækinu. Óhætt er að segja að þessi þáttaröð hafi gripi hug sjónvarpsáhorfenda um allan heim en hér heima hefur Stöð 2 sýnt þættina og eru nú þrjár þáttaraðir aðgengilegar. Þá má nefna þáttaröðina Pressan (Press) sem er um líf ritstjóra og blaðamanna hjá tveimur ólíkum breskum dagblöðum. Aðeins ein þáttaröð hefur verið framleidd af þessari seríu sem fjallar um tvö blöð, Herald og Post, sem keppa stöðugt, nánast hlið við hlið þó með ólíka fréttastefnu. Pressan fjallar einnig um vinnubrögð fjölmiðla og álagið sem fylgir því að lifa og hrærast í heimi þar sem sífellt meiri áhersla er lögð á hraðan fréttaflutning. Báðar þessar þáttaraðir hófu göngu sína 2018.murdoch

Þá er ógetið ársgamallar heimildarþáttaraðar í þremur hlutum frá BBC, Murdoch-veldið (The Rise of the Murdoch Dynasty) sem Ríkissjónvarpið hefur verið að sýna. Þar er fjallað um sögu fjölmiðlaveldis Ruperts Murdochs og skyggnst er inn í áhrifin sem hann hefur á bak við tjöldin og valdabaráttuna innan hans eigin fjölskyldu. Því er nánast blygðunarlaust haldið fram að hann hafi komið að vali á flestum forsætisráðherrum Bretlands undanfarna áratugi. Þannig krýni hann stjórnmálamenn til áhrifa og taki af þeim krúnuna aftur ef honum sýnist svo. Samskiptasaga Murdochs og Tony Blair er auðvitað sláandi.

Murdoch-áhrifin

Eins og áður sagði eru allar þáttaraðirnar með einum eða öðrum hætti um Murdoch og fjölskylduveldi hans. Það er merkileg staða sem hann hefur á markaði þar sem menn almennt hafa óþol fyrir einokun og samþjöppun. Í Bretlandi tala fjölmiðlamenn gjarnan um Murdoch-áhrifin og vísa þar til þess að fjölmiðlum, sem eru í eigu Ruperts Murdoch, er vantreyst af almenningi. Hafa verður í huga að þessi skoðun heyrist einkum frá starfsmönnum annarra fjölmiðla en þeirra sem eru í eigu hans.

Rubert Murdoch, fæddist í Melbourne í Ástralíu árið 1931 og stendur því á níræðu. Hann erfði dagblað 22 ára að aldri eftir að faðir hans, fyrrverandi stríðsfréttaritari, lést. Staða og veldi Murdochs í gegnum tíðina hefur verið undrunar- og umfjöllunarefni. News Corporation, fjölmiðlafyrirtæki Roberts Murdochs í Ástralíu, átti þannig tvo þriðju allra blaða í Ástralíu í lok síðustu aldar. Fyrstu stóru kaup Murdoch í Bandaríkjunumáttu sér stað árið 1976 þegar hann keypti æsifréttablaðið The New York Post sem hann á ennþá. Murdoch stjórnar í dag fjölmiðlaveldi sem inniheldur meðal annars kapalrásina Fox News, The Times of London og The Wall Street Journal. Murdoch seldi stærstan hluta Fox kvikmyndaversins, FX, og National Geographic Networks og hlut þess í Star India til Disney fyrir 71,3 milljarða dala í mars 2019. Krúnudhjásnið er án efa BSkyB, (British Sky Broadcasting) sem er stærsta fyrirtækið á einkareknum sjónvarpsmarkaði í Englandi. Rubert Murdoch er 31. ríkasti maður Bandaríkjanna og sá 71. ríkasti í heimi með nettóvirði upp á 22,4 milljarða dala frá og með 28. júlí 2021.

Reynir að fá Facebook til að borga fyrir efni

En Rubert Murdoch sjálfur er ekki ónæmur fyrir breytingum á fjölmiðlasviðinu eins og er rakið með skemmtilegum hætti í Succession þar sem fjölmiðlaveldið er stöðugt undir árásum nýmiðla. Hann hefur verið einn þeirra sem hefur sett þrýsting á að samfélagsmiðlar greiði fjölmiðlum, hvers efni þeir nota. Rupert Murdoch hefur við hvert tækifæri undanfarin ár áréttað þá skoðun sína að samfélagsmiðlar ættu að greiða útgefendum fyrir að deila efni sínu á samfélagsmiðlinum ef fyrirtækið ætli sér raunverulega að styðja við trúverðugan fréttaflutning. Hann hefur lengi gagnrýnt Google fyrir að taka fréttagreinar útgefanda án bóta og Facebook fyrir að verðlauna ekki útgefendur nægilega vel. Murdoch sagði að boðaðar aðgerðir Evrópusambandsins gegn Facebook væru ófullnægjandi og að samfélagsmiðlar ættu að greiða útgefendum fyrir efnið á sama hátt og sjónvarpsstöðvar greiða fyrir efnið sem þær sýna. „Útgefendur eru augljóslega að auka virði og trúverðugleika Facebook með fréttum sínum og efni en eru ekki að fá nægjanlega umbun fyrir þá þjónustu. Greiðslur fyrir afnotarétt af efninu myndu hafa minni háttar áhrif á hagnað Facebook, en mikil áhrif á stöðu útgefenda og blaðamanna,“ sagði Murdoch í samtali við BBC fyrir rúmum tveimur árum. Hann hefur einnig látið hafa eftir sér að með því að nota efni fjölmiðla sé Facebook í reynd að hundsa kostnaðinn við framleiðslu áreiðanlegs efnis og spilla faglegri stöðu blaðamennskunnar.

Rupert Murdoch endurnýjaði árásir sínar á Google og Facebook á árlegum hluthafafundi News Corp nú í lok nóvember. Hann sakaði tæknirisanna um að reyna að þagga niður íhaldssamar raddir og kalla eftir „verulegum umbótum“. Þetta gerist þrátt fyrir að News Corp hafi unnið bætur frá báðum fyrirtækjum, sem fyrr á þessu ári samþykktu að greiða fyrir efni útgefandans í Ástralíu. Þrátt fyrir háan aldur virðist lítill bilbugur á gamla manninum.